Hrafnarnir hlustuðu á Sprengisand um helgina þann ágæta þjóðmálaþátt í umsjón Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni. Í þættinum ræddi Kristján meðal annars við Sólveigu Önnu Jónsdóttir formann Eflingar um komandi kjaraviðræður. Talið barst að mikilvægi hlutverks láglaunafólks þegar kemur að því að innleiða „stórar kerfisbreytingar“ sem verkalýðsrekendum samtímans er svo tíðrætt um. Það er kannski vísbending um átökin sem eru framundan er að í viðtalinu vitnaði Sólveig Anna til orða Karls gamla Marx um öreigana sem hafa engu að tapa en heiminn að vinna. En orðrétt sagði Sólveig Anna: „Þetta er, eins og margir hafa sagt með alls konar glæsilegum hætti, sá hópur sem hefur á endanum engu að tapa og heilan heim að vinna."

Hrafnarnir hamstra nú högl og dósamat og munu halda til fjalla við fyrsta tækifæri.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 1. september 2022.