Kjaramál voru fyrirferðarmikil í fréttum síðustu viku. Fréttastofa Ríkisútvarpið sagði frá því á þriðjudag að forstjórar ríkisfyrirtækja og fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllina væru með umtalsvert hærri laun en gengur og gerist hjá verkafólki sem á aðild að stéttarfélaginu Eflingu.

Í fréttinni tók Haukur Holm fréttamaður saman hvað laun forstjóra nokkurra valinkunna fyrirtækja í Kauphöllinni hefðu hækkað mikið á síðasta ári auk launa nokkurra fyrirtækja í eigu ríkisins og borgarinnar.

Ekki verður í fljótu bragði séð hvaða tíðindi fólust í þessari frétt RÚV. Það hefur verið á flestra vitorði að stjórnendur í stærstu fyrirtækjum landsins eru að jafnaði með hærri laun en til að mynda almennt verkafólk. Engar breytingar urðu svo sem af þessu hvað svo mönnum kann að finnast um skiptingu heimsins gæða almennt séð.

Niðurstaða fréttarinnar er sú að prósentuhækkun á háum launum skilar hærri upphæðum í vasa launþega en prósentuhækkun á lágum launum. Þrátt fyrir að þetta ætti að koma fáum á óvart var þessu gerð ítarleg skil í umfjöllun Ríkisútvarpsins. Í endursögn fréttarinnar á heimasíðu RÚV segir:

Mörg dæmi eru um að hækkun á árslaunum forstjóra fyrirtækja nemi margföldum árslaunum Eflingarfólks á algengum taxta. Mest er hún fimmföld árslaun Eflingarmanns. Fréttastofan tók saman laun forstjóra nokkurra opinberra fyrirtækja sem skilað hafa ársreikningum fyrir síðasta ár og fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni. Í einhverjum tilvikum kann að muna hvort birt eru föst laun eða laun með mótframlagi í lífeyrissjóð eða laun og hlunnindi saman, allt tölur úr ársskýrslum, en stóra myndin ætti að vera skýr.

Ef við byrjum á fyrirtækjum í opinberri eigu þá sést að forstjóri Landsvirkjunar var með rúmar 43 milljónir króna í árslaun á síðasta ári og hækkuðu árslaun hans um 1,3 milljónir króna á milli ára. Þetta gerir tæpar 3,6 milljónir króna í mánaðarlaun. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 6,8 milljónir á milli áranna 2020 og 2021 og er með 3,2 milljónir króna í mánaðarlaun, en forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund krónur á milli ára og var með 42 milljónir í árslaun á síðasta ári eða um þrjár og hálfa milljón króna á mánuði ."

Og enn fremur:

Við þetta má bæta að algeng föst mánaðarlaun félagsmanna í Eflingu, samkvæmt taxta, eru um 370 þúsund krónur, sem gerir árslaun upp á um fjóra og hálfa milljón króna ."

***

Þessi framsetning á meira skylt með áróðri en fréttamennsku. Vandséð er hvað samanburður á launum handvalinna forstjóra í skráðum félögum annars vegar og opinberum fyrirtækjum hins vegar við kjör launþega samkvæmt kjarasamningum hjá stéttarfélagi á borð við Eflingu eigi að skila. Að minnsta kosti er sá samanburður ekkert sérstaklega fræðandi fyrir áhorfendur.

Ef skilaboð fréttastofu ríkisins séu þau að þetta hljóti að þýða að nóg sé til skiptanna féllu þau í frjóan jarðveg hjá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sem mun vera á fjórföldum Eflingartaxta. Það var fyrirsjáanlegt. Daginn eftir að fréttin um hækkanir helstu forstjóra fyrirtækja í Kauphöllinni og opinberra fyrirtækja birtist var hann til viðtals í Morgunútvarpi Rásar 2. Þar sagði hann að þessar hækkanir handvalinna forstjóra bættu samningsstöðu verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Haft var eftir Ragnari:

Samtök atvinnulífsins sannfærðu okkur um það að þetta myndi ekki fara eins og þetta er að fara núna. Það gekk lengi vel að það væri almennt samkomulag um það að það þyrfti að hækka lægstu launin, svo springur þetta allt í andlitið á okkur eins og við erum að sjá núna. Það mun allavega setja okkur í betri samningsstöðu í haust. Ég trúi því. Það sem mun skipta mestu máli er að við höfum fólkið á bakvið okkur og við munum ekki láta bjóða okkur siðrof í íslensku samfélagi ."

Með öðrum orðum: Það var samstaða um að hækka lægstu launin en fréttaflutningur Ríkisútvarpsins sýnir að hún hefur verið rofin. Sem betur fer á þetta ekki við rök að styðjast.

***

Í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir viku var rætt við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um málið. Þar benti hann á að opinberar tölur styddu alls ekki þann málflutning sem fréttastofan hafði verið að enduróma dagana á undan.

Vísaði Halldór til launavísitölu Hagstofunnar. Hún heldur utan um launaþróun stjórnenda, sérfræðinga, tækni- og sérfræðimenntaðra, skrifstofufólks, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, iðnaðarmanna og loks verkafólks. Sé horft til þróunarinnar frá árinu 2015 sést að stjórnendur í íslenskum fyrirtækjum hafa hækkað umtalsvert minna í launum en aðrar starfsstéttir. Á sama tíma hafa laun verkafólks og starfsfólk í verslun og þjónustu hækkað mest.

Ekki var lengi staldrað við þessa staðreynd í fréttinni þó svo að hún varpaði óneitanlega skýru ljósi á hvernig þróunin hefur verið meðal launþega undanfarin ár. Línuriti með launavísitölu þessara ólíku starfsstétta var varpað á skjáinn í nokkrar sekúndur.

Þrátt fyrir að launavísitala Hagstofunnar sýndi annan veruleika en fréttamanni Ríkisútvarpsins var umhugað að varpa fram var hann ekki að baki dottinn. Í lok fréttarinnar spurði hann:

Haukur Holm, fréttamaður: En er aðhald í launahækkun forstjóra? Halldór Benjamín Þorbergsson: Ég held, ef við skoðum þróun undangenginna ára og horfum á þetta mengi stjórnenda almennt, þá held ég að sé ógerningur annað en að draga þá ályktun að það hefur verið sýnt aðhald í þeim efnum eins og tölur Hagstofunnar benda til ."

Og að endingu sagði í fréttinni:

Síðustu ár hafi áhersla verið lögð á að hækka hlutfallslega mest lægstu laun og það hafi tekist. Þegar hann er spurður hvort svigrúmið sé annað í efstu þrepum launastigans en í þeim lægstu, segir hann. Halldór Benjamín Þorbergsson: Ég held að þetta sé mjög einföld framsetning á mjög flóknu máli. Ég reyni að vísa til þess hver þróunin er almennt í samfélaginu og held mig við það að sinni. "

***

Það er ábyrgðarhlutverk fjölmiðla að fjalla með yfirveguðum hætti um kjaramál. Ekki síst í ljósi þess að meiri harka virðist hafa hlaupið í kjaramál á undanförnum árum og umræðan um þau í vaxandi mæli einkennst af gífuryrðum sem efast má um að skili nokkru gagni. Þess vegna verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þau fjalli um kjaramál út frá staðreyndum í stað þess að reyna að varpa upp myndum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Í þessu samhengi má benda á nýlega lífskjararannsókn Hagstofunnar sem sýnir að aldrei hefur jafn lágt hlutfall Íslendinga barist í bökkum og rímar það ágætlega við mælingar sem sýna miklar hækkanir undanfarin ár á kaupmætti heimilanna. Þá má einnig benda á að meðallaun á Íslandi voru tæplega 800 þúsund krónur árið 2020 og þegar litið er til heildarlauna var helmingur allra launþega með laun á bilinu 570-908 þúsund krónur á mánuði. Tíundi hver launamaður var með yfir milljón í regluleg laun en tíu prósent með regluleg laun undir 400 þúsund á mánuði. Hér með er ekki sagt að hér sé allt í himnalagi og hvergi sé hægt að gera betur þegar kemur að kaupum og kjörum launþega. Þvert á móti. En til þess að raunverulegur árangur náist í þeirri vegferð er mikilvægt að umræðan taki mið að þeim efnahagslega veruleika sem blasir við hverju sinni.