*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Týr
26. ágúst 2019 18:07

Kata hunsar Pence

Þess vegna kom það flatt upp á Tý að forsætisráðherra ákvað að móðga Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.

Haraldur Guðjónsson

Íslendingum er gestrisnin í blóð borin. Það er þó ekki alveg sama hver er, að því er virðist. Að garði bar frú Angelu Merkel Þýskalandskanslara, fremur óljósra erinda á fund forsætisráðherra Norðurlanda. Hún bað þó ekki um flugaðstöðu fyrir Lufthansa. Það er ástæðulaust að lesa of mikið í heimsóknina, frú Merkel er þrotin pólitískum kröftum, hefur tilkynnt að hún hyggist senn ljúka stjórnmálaafskiptum og raunar er eina ástæðan fyrir því að hún situr enn sú að eftirmaðurinn er ófundinn þrátt fyrir nokkra leit.  

                                               ***

 Merkel var samt tekið með kostum og kynjum af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún bauð frú Merkel m.a. velkomna á félagsmiðlum og það á móðurmáli hennar, þó auðvitað hefði verið betra að stafsetja kveðjuna rétt (það eru tvö ell í willkommen). Og allt gerðist það án þess að nokkur maður fyndi að því að frú Merkel hefði nýverið greitt atkvæði gegn hjónabandi samkynhneigðra.  

                                               ***

 Þess vegna kom það flatt upp á Tý að forsætisráðherra ákvað að móðga Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem hingað er væntanlegur í upphafi næsta mánaðar sérstakra erinda, sem varða mikilvæga hagsmuni Íslands. Forsætisráðherrann mun ekki taka á móti þeim næstvaldamesta manni heims, upptekin við að affrysta ísskápinn eða eitthvað, einmitt þann sama dag. Menn hafa nú breytt plönunum af minna tilefni.  

                                               ***

Bandaríkin eru einn elsti og nánasti bandamaður Íslands. Lýðveldið var stofnað á stríðstímum í skjóli Bandaríkjanna og enn þann dag í dag eru það Bandaríkin, sem tryggja landvarnir Íslands. Við eigum mikið undir góðum samskiptum við þann máttuga granna, ekki síst um þessar mundir þegar mikil ólga er í alþjóðasamskiptum og efnahagsniðursveifla á heimsvísu yfirvofandi.  

                                               ***

Vel má vera að vinstrigrænum þyki appelsínuguli maðurinn í Hvíta húsinu og húskarlar hans vondur félagsskapur með vondar skoðanir (þó ekki ætti það við um Merkel), en í alþjóðasamskiptum getur forsætisráðherra ekki sett slíkt fyrir sig. Enn síður þegar í hlut náungi eins og Trump, sem í fyrradag hætti fyrirvaralaust við Danmerkurheimsókn vegna þess að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, vildi ekki taka þátt í Grænlandsdjóknum hans. Það er of mikið í húfi til þess að styggja hann að óþörfu og stofna samskiptum ríkjanna í hættu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.