Óðinn fjalla þessa vikuna um ummæli Katrínar Jakobsdóttur um að forystumenn í atvinnulífnu eigi að sýna hófsemd.

Hann tekur að sumu leyti undir orð forsætisráðherra en veltir um leið fyrir sér hvort ráðamenn, og þá Katrín sjálf, hafi sýnt hófsemd. Bæði í launahækkunum á undanförnum árum og ekki síður í styrkjum til stjórnmálaflokkanna, en stjórnarflokkarnir þrír hafa fengið langmest framlög, ásamt Samfylkingunni eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í blaði gærdagsins.

Hér á eftir má sjá hluta af pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og hófsemdin

En hver eru nú gögnin. Forsætisráðherra hefur hækkað að núvirði um 72,9% í launum frá sumrinu 2011. Launin eru 48,1% hærri nú en í mars 2015. Eru þessar hækkanir hófsamar?

Í mestu kreppu sem riðið hefur yfir Ísland síðan 1885, að sögn Seðlabankans, þá hækkuðu laun forsætisráðherra. Í júlí 2021 hækkuðu launin úr 2,2 m.kr. í 2,36 m.kr. eða 6,2%. Á sama tíma og ríkissjóður var rekinn með 274 milljarða halla (árin 2020 og 2021).

***

Eru 2,8 milljónir hóflegar?

Í dag er forsætisráðherra með 2.470.530 kr. samkvæmt þeim upplýsingum sem hún birtir sjálf á heimasíðu alþingis. Hins vegar námu launin 2,8 milljónum króna samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar vegna ársins 2021.

Þess utan er hún með ráðherrrabíl og bílstjóra sem hún greiðir ekki hlunnindi af eins og launamönnum á almennum markaði er skylt að gera samkvæmt lögum um tekjuskatt. Að auki fær forsætisráðherra skattlausa dagpeninga sem eru hærri en heimilt er að reikna launamönnum á almennum markaði.

***

127% hækkun á ríkisstyrk árið 2018

Katrín Jakobsdóttir hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2017 og var því í forsæti ríkisstjórnarinnar þegar fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt. Framlög til stjórnmálaflokka hækkuðu þá úr 286 m.kr. árið 2017 í 648 m.kr. árið 2018, eða um 127% milli ára.

Viðskiptablaðið fjallar í dag um framlög stjórnmálaflokka frá árinu 2010 til 2022. Heildarframlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði eru 6,9 milljarðar að núvirði. Vinstri grænir hafa fengið 1.167 m.kr. að núvirði úr ríkissjóði á þessum 13 árum.

Framlög ríkissjóð til Vinstri grænna hækkuðu úr 42 m.kr. í 84 m.kr. milli þessara ára, þegar Katrín Jakobsdóttir var orðinn forsætisráðherra þótt fylgi flokksins hafi aðeins aukist um eitt prósentustig, eða um 6% milli ára.

Telur forsætisráðherra þessar hækkanir á ríkisframlögum til stjórnmálaflokka og þau framlög sem Vinstri grænir hafa fengið til marks um hófsemd?

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 1. september 2022.