Fjölmiðlarýnir gat þess hér í síðustu viku að það gæti komið fyrir á bestu bæjum að birtar væru hæpnar fréttir og fréttaskýringar. Um það voru nefnd ýmis dæmi úr nokkrum af stórblöðum heims, vestan hafs og austan, sem öll tengdust umfjöllun um Kínapláguna með einum hætti eða öðrum.

Og þrátt fyrir að allt væri það aðfinnsluvert, jafnvel ámælisvert, þá datt engum í hug að stjórnvöld þar þyrftu að skipa sérstakan upplýsingaóreiðuhóp í nafni þjóðaröryggis til þess að skakka leikinn. Má raunar fullyrða að gólin myndu heyrast alla leið í Lækjargötuna ef Dónaldinn eða Boris impruðu á slíku. Eru þeir þó ófeimnir við að munnhöggvast við fjölmiðla.

***

En af því að Washington Post barst þar í tal, þá gluggaði yðar einlægur aðeins í það ágæta blað, sem gengið hefur í nokkra endurnýjun lífdaga undir eignarhaldi Jeff Bezos, kóngsins af Amazon. Þótti það þó ágætt fyrir, lítillega til vinstri við miðju á bandarískan mælikvarða, og fylgir Demókrataflokknum jafnan að málum.

Þar rakst fjölmiðlarýnir sér ekki fullkomlega að óvörum á ritstjórnargrein á skoðanasíðu, þar sem hinn frjálsi markaður var tekinn til bæna. Þar var fullyrt að hann hefði nú ekki margt gott í för með sér, en fyrirsögnin var:

„Hvernig frjálsir markaðir gera okkur feitari, fátækari og óhamingjusamari“.

Fyrst var þar nefnt að hinn frjálsi markaður stuðlaði að alls kyns freistingum eins og nammi og fitandi mat, sem aftur leiddi til offitu. Nú er tæplega um það deilt að offita sé vandi vestra, en á móti má nefna að lífslíkur í Bandaríkjunum hafa aldrei verið meiri, eru um 78 ár (á móti 69 árum á heimsvísu).

Fyrir utan auðvitað hitt að markaðshömlur eða bann við tiltekinni matvöru vekur spurningar um frelsi og ábyrgð einstaklingsins og jafnframt hlutverk ríkisvaldsins, sem hefur ekki beinlínis haft fullkomlega rétt fyrir sér um manneldi undanfarna áratugi, þar sem hér. Að því ógleymdu að hinn frjálsi markaður hefur gegnt lykilhlutverki í að binda enda á vannæringu í heiminum á síðustu áratugum.

Næst var því haldið fram að hann stuðlaði að fátækt, þar sem sparnaður einstaklinga í Bandaríkjunum væri ekki mikill. Þar er auðvitað verið að grauta saman tekjum og eyðslu, vilji menn ýta undir sparnað er hægur vandi að leggja meiri áherslu á neysluskatta en tekjuskatta, líkt og tíðkast vestra. Það breytir því hins vegar ekki að kaupmáttur vestanhafs hefur, líkt og annars staðar á Vesturlöndum, aukist nær óslitið allt frá stríðslokum.

Svo er það þetta með hamingjuna. Margoft hefur verið sýnt fram á að frjálsar þjóðir eru auðugri en aðrar þjóðir, verðmætasköpun er þar meiri og sóunin minni, en þar sem ríkið eða einræðisherrar gína yfir öllu. En það hefur líka margoft verið sýnt fram á verulega fylgni hagsældar og hamingju, enda erfðara að njóta lífsins við skort.

Rétt eins og fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi léttir áhyggjum af fólki. Það útilokar ekki að fólk geti fundið hamingjuna við örðugari aðstæður og nefna má lönd eins og Filippseyjar, þar sem hamingjan mælist mikil þó efnaleg gæði séu af skornari skammti en á Vesturlöndum. En að jafnaði er fylgnin ótvíræð, eins og auðvelt er að kynna sér, nóg hefur það nú verið rannsakað.

Samt birti sjálft Washington Post þetta blaður, blað í eigu eins auðugasta manns heims, sem nú getur sér auk þess góðs orð fyrir samfélagslega ábyrgð við stjórn fyrirtækisins á dögum heimsfaraldursins.

***

Það er auðvelt að ímynda sér að einhver íslenskur fjölmiðill flytti annað eins bull sem heilagan sannleik, annað eins hefur gerst. En ætti þá ekki upplýsingaóreiðuhópur á vegum stjórnvalda að grípa í taumana og reka bullið ofan í miðilinn?

Nei, það sér hver maður að það væri ótækt að stjórnvöld væru að blanda sér í slíkt, ólýðræðislegt svo við jaðrar að þjóðaröryggið væri þá fyrst í hættu ef þjóðaröryggisráðið eða aðrir agentar forsætisráðherrar færu að „leiðbeina“ frjálsum fjölmiðlum þar um. Því þá væru þeir varla lengur frjálsir.

Þessir sömu fjölmiðlar og nú bíða milli vonar og ótta eftir því að fá fjárstyrk úr hendi menningarmálaráðherra með blessun stjórnarmeirihlutans. Frjálsu fjölmiðlarnir, sem þá verða háðir stjórnvöldum, sem jafnframt vilja svo gjarnan aðstoða þá við að flytja réttu fréttirnar.

***

Þetta er vafalaust allt gert með gott eitt í huga. En það er nú svo að leiðin til Heljar er vörðuð góðum ásetningi. Og eins og Hayek skrifaði um þá er leiðin til ánauðar einnig vörðuð margháttuðum velvilja valdhafanna.

***

Efist lesandinn um að slíkt geti gerst í lýðræðisríkjum er rétt að horfa til þróunarinnar í Ungverjalandi síðustu ár, þar sem Viktor Orbán hefur hægt og rólega, leynt og ljóst, þjarmað að fjölmiðlafrelsinu. Þar hefur hann óhikað beitt fyrir sig regluverki og opinberri úthlutun á takmörkuðum gæðum, í bland við einelti og ofsóknir gagnvart fjölmiðlum og einstökum blaðamönnum fyrir flutning falsfrétta. Í hans huga eru það auðvitað allt falsfréttir, sem með einhverjum hætti draga í efa stjórnarstefnu hans, dómgreind eða mikilfengleik.

Eins og margra stjórnmálamanna er háttur lætur hann enga krísu fara til spillis og þegar heimsfaraldurinn hófst lét Orbán það vera sitt fyrsta verk að auka völd sín til muna, upphefja eftirlitshlutverk þingsins og færa sér tilskipanavald.

Lýst var yfir neyðarástandi í landinu og tökin á fjölmiðlum hert enn frekar. Og hvernig var það gert? Jú, þar var útbreiðsla falsfrétta, sem stjórnvöld telja geta grafið undan baráttunni við Covid-19, gerð ólögleg og refsiverð að viðlögðum háum fjársektum og allt að fimm ára fangelsi. Allt auðvitað í nafni baráttunnar gegn upplýsingaóreiðu.

Nú á mánudag gagnrýndi Orbán svo Norðurlönd harðlega fyrir að útbreiða falsfréttir um þessi sömu völd, sem hann var að skenkja sér, en utanríkisráðherrann Peter Szijjarto kvaddi sendiherra landanna á sinn fund til þess að lesa yfir þeim.

Er Ísland í einhverri stöðu til þess að efast um mat ungverskra stjórnvalda á upplýsingaóreiðu um baráttu þeirra við Covid-19, „leiðbeiningu“ til ungverskra fjölmiðla og stjórnskipunarmál þar í landi?

Er Katrín Jakobsdóttir ekki einmitt að feta sömu leið varðaða góðum ásetningi? Eða þráhyggju?