*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
10. október 2021 14:35

Katrín veit of mikið

„Þá gætu VG, Framsókn, Samfylkingin og Píratar myndað 33 manna meirihluta, án Viðreisnar.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna.
Gígja Einarsdóttir

Við myndun ríkisstjórnar gilda í raun engin lögmál, önnur en þau að formaður hvers flokks gerir það sem hann eða hún telur best fyrir sig og sinn flokk. Vissulega tekur fólk einhverja fundi fyrir kurteisissakir en farsælt samstarf í fortíðinni hefur í raun enga þýðingu annað en misgóðar minningar.

* * *

Um nýliðna helgi lýsti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, því yfir að Píratar væru reiðubúnir að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna falli. Þar hljómaði gamalkunnugt stef því Píratar gerðu það sama eftir kosningarnar 2016 og 2017.

Reyndar er það nú svo að Píratar gætu myndað fimm flokka ríkisstjórn með Reykjavíkurmódelinu svokallaða (VG, Samfylking, Píratar, Viðreisn) til viðbótar við Framsóknarflokkinn.

Slík ríkisstjórn hefði 38 manna meirihluta. Þó geta Framsókn, VG, Samfylkingin og Viðreisn myndað vinstri stjórn með 32 manna meirihluta. Þá gætu VG, Framsókn, Samfylkingin og Píratar myndað 33 manna meirihluta, án Viðreisnar. Hér á Týr alveg eftir að nefna Flokk fólksins sem myndi fjölga valmöguleikum ef ekki væri fyrir það að forystumenn vinstri flokkanna líta niður á þingmenn Flokks fólksins og telja þá ekki nógu merkilega til að starfa með.

* * *

Í ljósi niðurstöðu nýafstaðinna kosninga ætti það að vera hægur vandi að mynda hér vinstri stjórn, þ.e. ef aðeins er horft til fjölda þingmanna hvers flokks. VG, Samfylkingin, Píratar og Viðreisn kunna vel við sig á vinstri kantinum og Framsókn mun gera það líka þegar og ef svo ber undir.

* * *

Það er því eðlilegt að spyrja: af hverju er Katrín Jakobsdóttir að ræða við Bjarna og Sigurð Inga um að halda núverandi ríkisstjórnarsamstarfi áfram en ekki við hina vinstri flokkana? Svarið við því er einfalt, hún veit vel að Píratar og Samfylkingin eru ekki stjórntækir flokkar og að Viðreisn er í sárum. Það er mun þægilegra að vinna með Bjarna, sem eru ekki meðmæli fyrir hann, heldur en að smala köttum í fjögur ár.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.