*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Týr
30. janúar 2017 11:44

Katrínarmúrinn

Týr rak upp stór augu þegar hann horfði á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, flytja ræðu sína í eldhúsdagskrárumræðum í vikunni.

Haraldur Guðjónsson

Týr rak upp stór augu þegar hann horfði á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, flytja ræðu sína í eldhúsdagskrárumræðum í vikunni. Það var svo sem ekki margt nýtt sem kom fram í ræðu Katrínar, nokkuð hefðbundið hjal um huglægan ójöfnuð og óréttlæti. En það sem vakti athygli Týs var þegar Katrín sagði að stjórnmálamenn hefðu val um það að byggja múra eða byggja brýr og að hennar mati ættu þeir að byggja brýr.

***

Það hlýtur að vekja athygli þegar formaður hins íslenska sósíalistaflokks skuli nefna þessa kosti, því skoðanasystkin hennar hvarvetna í heiminum hafa frekar kosið að reisa múra – í orðsins fyllstu merkingu. Þeir múrar voru ekki til þess gerðir að halda óboðnum gestum frá, heldur til þess að halda eigin þegnum föngum. Sumir þessara múra standa enn, t.d. hinn kínverski eldveggur, þó að blóðugi múrinn í Berlín sé löngu hruninn.

***

Það er ekki óeðlilegt að minnast á múra sósíalistanna í þessu samhengi og minna Katrínu á syndir feðranna. Katrín var sjálf á meðal ungra vinstri manna sem stofnuðu hápólitísk vefrit um aldamótin síð­ ustu – og völdu því hið léttúðlega nafn Múrinn. Einhverjum kann að þykja þetta langsótt, enda rúm 17 ár frá stofnun vefritsins. En þá er rétt að hafa hugfast að Múrinn.is var stofnaður 13 árum eftir að hryllingsmúrinn blóðstorkni í Berlín féll. Hann hafði þá staðið í tæp 40 ár. Vissulega skiptir fólk um skoðun á löngum tíma og Týr ætlar ekki að gera Katrínu samseka böðlum móð­ urflokkanna í austri. En henni og félögum hennar fannst þó í lagi að gantast með múrinn. Myndi Þjóð­ fylkingunni líðast það átölulaust að opna vefritið ofnarnir.is? Bara svona í gamni?

***

Það má hrósa Katrínu fyrir að víkja frá múrareisingum og byggja frekar brýr. En henni stendur eiginlega nær að rífa niður gamla múra fyrst. Svo getur hún reynt að byggja brýr, til dæmis yfir til Svavars-armsins eða Steingríms—armsins í sínum eigin flokki. Það gæti að vísu kostað nýja múra. En hver eru hin raunverulegu fordæmi sem mætti heimfæra á íslenska pólitík? Fram til þessa hefur VG frekar kosið að reisa múra frekar en brýr. Það að vilja festa þjóðina í fjötrum Icesavesamninganna, ekki einu sinni heldur þrisvar, er ekkert annað er múr til að fanga þegnana. Í nýlegum stjórnarmyndunarviðræðum hafði VG lítið annað að bjóða en byggingu nýrra múra, í formi skattahækkana, skattahækkana og skattahækkana. En svo er auðvelt að segja öðrum að byggja brýr.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 26. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Týr Katrín Jakobsdóttir Veggur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.