*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Eyþór Arnalds
5. júní 2021 13:43

Kaupfélagið snýr aftur

„Það þarf kerfisbreytingu í Reykjavík. Hætta kaupfélagsrekstri og koma borginni niður á jörðina.“

Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg sækir víða fram. Það er ekki nóg með að borgin reki malbikunarstöð og ætli að fara í landvinninga í þeirri  starfsemi. Hún rekur líka fjarskiptafyrirtæki undir merkjum Gagnaveitunnar. Skuldir þess félags hafa vaxið og eru komnar í 15 milljarða. Félagið hefur fjárfest umfram rekstrartekjur um árabil og því hafa skuldir vaxið svona mikið. Það er umhugsunarefni af hverju Reykjavíkurborg skuli vera að reka fjarskiptafyrirtæki í samkeppni við aðila á markaði. Á meðan ekki voru til peningar til að sinna viðhaldi í borginni eins og dæmin sanna af Fossvogsskóla og fleiri byggingum var til fjármagn í samkeppnisrekstur. Hvers konar forgangsröðun er það hjá sveitarfélagi?

Borgin kaupir af sjálfri sér

Borgin kaupir mikið af eigin fyrirtækjum. Án útboðs. Dæmi um þetta eru raforkukaup án útboðs, en virkur markaður er með rafmagn á Íslandi. Verðmunurinn er um 25%. Munar um minna. Borgin hefur keypt  LED  þjónustu af dótturfélagi Orkuveitunnar fyrir hátt í fjóra milljarða. Aftur án útboðs. Samtals keypti samstæða borgarinnar rafmagn og þjónustu af félögum sínum fyrir 826 milljónir króna. Þá hefur borgin staðið í tvígang að ólöglegum útboðum vegna ljósastýringa, sem hefur valdið töfum á því að bæta ljósastýringar í borginni sem eru í lamasessi. Þegar fyrir liggur niðurstaða í fjórum málum þar sem Kærunefnd útboðsmála kemst að því að lög voru brotin taldi ég einboðið að allt þetta yrði boðið út eins og lög gera ráð fyrir. Þegar ekkert hafði heyrst frá borginni, töldum við borgarfulltrúar í minnihlutanum að nauðsynlegt væri að leggja til að borgin færi í útboð. Það var fellt í borgarstjórn. Borgin lærir því ekki þrátt fyrir að vera gerð afturreka. Eigin viðskipti Reykjavíkurborgar við fyrirtæki sem eru í eigu hennar taka út yfir allan þjófabálk. Svona kaupfélagsviðskipti eru tímaskekkja á 21. öldinni þar sem frjáls viðskipti eiga að vera lykilatriði enda margsannað að þau lækki kostnað í þágu borgarbúa.

Hægt að spara mikið

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn hafa ítrekað bent á að hægt yrði að spara talsverðar upphæðir á ári hverju með því að bjóða út raforkukaup og tengda þjónustu. Um er að ræða milljarða króna. Nú hefur sannast að borgin er að brjóta lög með því að bjóða ekki út en áfrýjunarnefnd útboðsmála komst nýverið að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg beri að bjóða út kaup á raforku. Það gerði hún í kjölfar þess að Íslensk orkumiðlun kærði málið. Fulltrúar meirihlutans hafa barið hausnum við steininn í þessu máli lengi en þeir héldu því ranglega fram í kjölfar fyrirspurnar Sjálfstæðisflokks í innkauparáði frá 2018 að viðskipti Reykjavíkurborgar við Orkuveitu Reykjavíkur um raforkukaup féllu hvorki undir ákvæði laga um opinber innkaup né innkaupareglur Reykjavíkurborgar. Fulltrúar meirihlutans fullyrtu ranglega á fundi ráðsins að bókun Sjálfstæðisflokksins frá fundi innkauparáðs 29. nóv. 2018 um að borgin væri að brjóta lög um opinber innkaup og innkaupareglur Reykjavíkurborgar væri röng. Það hefur nú verið staðfest með úrskurðum kærunefndarinnar. Með tillögu um að bjóða út fékk borgin tækifæri til að leiðrétta þennan ranga kúrs. Í staðinn er afneitun borgarstjórnarmeirihlutans alger þegar áfram er haldið að brjóta lög og reglur með því að fara ekki í útboð í þessum efnum án tafar.

21. öldin er komin

Rekstrarkostnaður  Reykjavíkurborgar er 20% hærri á íbúa en hjá nágrannasveitarfélögunum. Rafræn stjórnsýsla er á byrjunarreit hjá borginni og eru nýjustu fjárhagsupplýsingar á „mælaborði" borgarinnar frá árinu 2017. Borgarstjóri er ekki með viðtalstíma. Kerfið er dýrt, þungt og óskilvirkt. Það þarf að koma borginni inn í nútímann. Létta kerfið og lækka álögur, en launaskattur er sá hæsti sem þekkist á Íslandi. Og dugar ekki til. Reksturinn er ósjálfbær að mati borgarinnar sjálfrar þegar hún sendi bænabréf til Alþingis um neyðaraðstoð. Ástæðan er sú að skuldasöfnun viðgengst í góðærinu allan tímann. Það þarf kerfisbreytingu í Reykjavík. Hætta kaupfélagsrekstri og koma borginni niður á jörðina. Þar sem kjósendur eru.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.