Hrafnarnir hlustuðu með athygli á opinn fund fjárlaganefndar Alþingis með fulltrúum Bankasýslunnar. Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fór mikinn á fundinum og vafalaust var mikið rætt um „neglur" hennar á twitter í kjölfarið. Kristrún virtist hafa miklar áhyggjur af því að tilboðum eigin viðskipta Landsbankans annars vegar og Kviku hins vegar hafi verið hafnað í útboðinu.

Sem kunnugt er þá hefðu slík kaup verið leið til þess að koma bréfum í Íslandsbanka í hendur þeirra sem eru eignastýringu hjá bönkunum tveimur. Þá hafði Kristrún miklar áhyggjur af misjöfnu aðgengi smærri fjárfesta að útboðinu eftir því í hvaða banka þeir eru í viðskiptum við. Í ljósi þessa velta hrafnarnir fyrir sér hvort það hafi verið þingmaðurinn Kristrún sem mætti til fundarins eða þá kaupréttarhafinn Kristrún.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .