*

fimmtudagur, 28. október 2021
Týr
10. apríl 2020 14:41

Keisarans hallir

Pistill Týs um Kínapláguna var kölluð „rasistagrein" þó hvorki væri dæmi um útlendingaandúð eða kynþáttahatur í henni.

Aðrir ljósmyndarar

Týr sá sér til furðu að Runólfur Ágústsson, fyrrv. rektor á Bifröst og núverandi verkefnastjóri um fluglest til Keflavíkurflugvallar, gerði athugasemdir á netinu við pistil Týs um Kínapláguna í fyrri viku, sagði hana vera „rasistagrein" án þess þó að nefna eitt einasta dæmi um útlendingaandúð eða kynþáttahatur í henni. Hann bætti svo við:

                                                                       ***

 „Það er mín skoðun að Kínverjar hafi, eftir að stjórnvöld áttuðu sig á hættu málsins, brugðist við af festu og öryggi sem sýnir sig í því að andlát þar af völdum veirunnar, í fjölmennasta landi heims, eru færri en á Ítalíu, Spáni og í Bandaríkjunum. Mögulega eigum við Kínverjum nokkuð að þakka að veiran breiddist ekki hraðar út frá landinu en þó gerðist auk þess sem við byggjum baráttuna gegn veirunni á þekkingu þeirra og gögnum."

                                                                       ***

 Týr frábiður sér rakalausar ásakanir af þessu tagi. Í greininni var ekki eitt einasta hnjóðsyrði um Kínverja. Ekki eitt. Hins vegar var alræðisstjórn Kínverska kommúnistaflokksins þar harðlega átalin og ekki af ástæðulausu, eins og rakið var. Það er sjálfsagt að tíunda það nánar. Ekki kannski síst í ljósi áróðursherferðar hennar um heim allan, sem þessi nóta Runólfs rímar við, því þar er rasistaspjaldinu alltaf spilað út fyrst.

                                                                       ***

 Það er þess vegna rétt og skylt að ítreka að hér er ekki við Kínverja að sakast heldur blóði drifna alræðisstjórn kínverska kommúnistaflokksins. Það vill svo skemmtilega til að það er auðvelt að nefna kínversk stjórnvöld, sem má hrósa fyrir viðbrögðin, en það eru stjórnvöld á Taívan, sem voru einna fyrst til þess að vara við því að hætta væri á ferðum í Wuhan. Kommúnistastjórnin neitaði því ekki aðeins, heldur fór beinlínis með ósannindi um og krafðist þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO gerði ekkert með þessar viðvaranir frá Taívan (sem ekki fær að vera í Sameinuðu þjóðunum að kröfu Bejing-stjórnarinnar). Og lokaði héraðinu innanlands, en ekki til útlanda!

                                                                       ***

 Aumingjaskapurinn í WHO stappar nærri glæpsamlegri vanrækslu og ótrúlegt að pólitískar tiktúrur alræðissríkisins gangi framar heilbrigðissjónarmiðum. Hafa menn þó fyrri reynslu til þess að hræðast þaðan. Jafnvel nú bendir flest til þess að stjórnin í Beijing fari með ósannindi um smit og dauðsföll í Kína af völdum veirunnar. Það er enginn rasismi að benda á slíkt. En hvað á að kalla þá nytsömu sakleysingja sem ekki mega heyra styggðaryrði um stjórnarherrana í fyrirmyndarríkinu eystra?

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.