*

mánudagur, 23. september 2019
Leiðari
19. ágúst 2019 13:31

Kerfi sem engan gleður

Vandséð hver hagnist á núverandi landbúnaðarkerfi. Hætta ætti tollvernd og leyfa frjálsa samkeppni eins og í öðrum greinum.

Haraldur Guðjónsson

Samtök bænda berjast nú gegn því að opnað verði frekar á innflutning með landbúnaðarafurðir. Þau leggjast gegn breytingum á uppboðsaðferð tollkvóta til landsins og börðust harðlega gegn því að heimila innflutning á ófrystu kjöti fyrr á árinu. Nýlega komu afurðastöðvar í veg fyrir að fluttir yrðu inn lambahryggir með því að selja lambahryggi sín á milli. Sami skortur og áður er á hryggjum, sem afurðastöðvarnar höfðu sjálfar skapað með útflutningi á hryggjum.

Bændastéttin finnur því allt til foráttu að opna á aukna samkeppni að utan í greininni. Að miklu leyti er um endurtekið efni í íslenskri þjóðmálaumræðu. Þegar talað er fyrir frjálsari viðskiptum heyrast háværar raddir um að slíkt muni vart ganga — nema þá með því að valda miklum hörmungum. Þegar Viðreisnarstjórnin lagði til að afnema eitt flóknasta haftakerfi sem sögur fara af í upphafi sjöunda áratugarins sögðu gagnrýnendur stjórnarinnar að afleiðingin yrði „móðuharðindi af mannavöldum“. Gagnrýnisraddirnar þögnuðu þó fljótt þegar í ljós kom að Íslendingar gátu spjarað sig ágætlega í frjálsri samkeppni við aðrar þjóðir.

Hið sama á við í landbúnaði. Íslenskir grænmetisbændur hafa þolað samkeppnina við erlent grænmeti með ágætum eftir að tollar á flestum tegundum grænmetis voru að fullu afnumdir í upphafi aldarinnar. Nýsköpun í greininni hefur blómstrað og úrvalið af íslensku grænmeti aukist umtalsvert. Reyndin er að Íslendingar velja dýrari innlenda vöru umfram erlenda. Ferðamenn vilja einnig bragða á íslenskum landbúnaðarafurðum á ferð sinni um Ísland. Tækifærin fyrir bændur eru til staðar en núverandi landbúnaðarkerfi heftir nýsköpun verulega.

Auðvitað ætti landbúnaður að keppa á sama grunni og aðrar atvinnugreinar gagnvart alþjóðlegri samkeppni. Enda er vandséð hver hagnast á íslensku landbúnaðarkerfi eins og því er fyrirkomið í dag. Bændur kvarta sáran undan lágu afurðaverði, afurðastöðvar bera sig aumlega og vilja leyfi til samstarfs og vera þannig undanskildar samkeppnislögum. Tollvernd landbúnaðarins veldur því að neytendur greiða hærra verð eða fá verri vöru en þeir fengju án tolla. Ríkissjóður styrkir landbúnaðarkerfið ríkulega, sér í lagi sauðfjárrækt. Afurðastöðvar flytja svo út talsverðan hluta framleiðslunnar á lambakjöti sem skilar sér í því að lambakjötsát í Evrópu og Bandaríkjunum er niðurgreitt af íslenska ríkinu. Hugsa mætti sér betri meðferð skattfjár.

Rökin gegn frjálsum viðskiptum með landbúnaðarafurðir standast litla skoðun þó að æði margar ástæður hafi verið taldar til. Bændur segja aðrar þjóðir styrkja líka landbúnað. Vilji aðrar þjóðir niðurgreiða landbúnaðarframleiðslu sem flutt er til Íslands kemur það Íslendingum til góða. Íslendingar fá þá niðurgreidda vöru í boði erlendra skattborgara. Rök um sýklaónæmi baktería í erlendu kjöti standast vart enda sýnir nýleg rannsókn Matvælastofnunar á íslensku sauðfé og nautgripum að vandamálið sé líka til staðar á Íslandi.

Önnur rök snúa m.a. að því að halda landinu í byggð og að óumhverfisvænt sé að flytja inn landbúnaðarafurðir. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á að mikið umhverfisvænna sé að flytja öll þau aðföng sem fylgja landbúnaðarframleiðslu en það kolvetnisfótspor sem fylgir því að flytja inn mat. Vilji ríkið stuðla að dreifðari byggð eða aukinni umhverfisvernd á ríkið einfaldlega að borga fyrir það. Hægt er að greiða fyrir að búa á vissum svæðum og græna styrki fyrir jarðrækt og uppgræðslu lands.

Bændur hafa ekkert að óttast í alþjóðlegri samkeppni. Stjórnvöld þurfa hins vegar að þora að stíga skrefið og leyfa vindum frjálsra viðskipta að blása um landbúnaðinn líkt og aðrar greinar

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.