Yirvofandi verkfallsátök Eflingar og miðlunartillaga ríkissáttasemjara hafa verið fyrirferðarmikil í fréttum vikunnar. Í þessum fréttum er því mjög haldið á lofti að félagsmenn Eflingar séu láglaunafólk sem er oftar en ekki af erlendu bergi brotið. Í ljósi þess er umhugsunarvert hversu áhugalitlir fjölmiðlamenn hafa verið um að leita eftir skoðunum þessa fólks á boðuðum verkfallsaðgerðum Eflingar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, er fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og birtast við hana viðtöl þar sem hin fjölskipaða samningarnefnd hennar er í bakgrunni með kröfuspjöld grá fyrir járnum en hljóðnemanum er alltaf haldið fjarri þeim.

En á þessu hafa verið undantekningar. Þannig var fjallað í tíu fréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudag í síðustu viku um afstöðu Eflingarfólks hjá Íslandshótelum til verkfallsaðgerða. Í kynningu fréttarinnar kom fram að meirihluti starfsfólks
Íslandshótel sem eru félagsmenn í Eflingu vilji grípa til verkfallsaðgerða. Þetta var villandi framsetning. Í fréttinni var rætt við tvo starfsmenn Íslandshótela og voru þeir ósammála um stöðu mála.

Þannig var haft eftir Elzbietu Katarzynu Majchrzak, þernu á Reykjavík Grand, að starfsmenn væru klofnir í afstöðu til verkfalls og hún vissi til þess að margir þeirra vildu alls ekki fara í verkfallsaðgerðir. Þá var fjallað í fréttinni um gagnrýni stjórnenda Íslandshótela um að Efling hefði ekki upplýst félagsmenn um réttindi sín og um hvað þeir væru að greiða atkvæði í verkfallskosningu. Lýsing Elzbietu á slíkum upplýsingafundi vekur athygli. Orðrétt sagði hún:

„Starfsmennirnir hér eru klofnir en ég veit að margir vilja ekki fara í verkfall. Mér sýnist að nýir starfsmenn séu frekar til í að fara í verkfall. Ég fór á fundinn á sunnudaginn og var ekki ánægð, meira að segja vonsvikin. Ég lærði nánast ekkert þar, þarna var bara óreiða og það voru allskonar rifrildi.“

En fréttamaður RÚV ákvað hins vegar að gera skoðunum Önnu Matusiak, þernu hjá Fosshóteli Reykjavík, hærra undir höfði í framsetningu fréttarinnar. Fréttastofan hafði eftir henni:

„Þau eru öll hlynnt verkfallinu svo það er enginn vafi að það verður samþykkt, ég efast ekki um það.“

Valgerður Árnadóttir, fyrrum starfsmaður Eflingar, vakti athygli á þessari þögn þeirra sem eiga hvað mest undir komandi verkfallsátökum. Hún setti eftirfarandi færslu á Twitter um helgina:

„Fjölmiðlafólk!? Afhverju er einhliða fréttaflutningur um miðlunartillöguna frá fólki sem aðgerðir bitnar ekki á? Pólsku og erlendu grúppurnar loga og fólk vill fá að kjósa um miðlunartillöguna en það er ekki eitt viðtal við almenna félagsmenn Eflingar? Um okkur án okkar.“

Skal ósagt látið að þessi ábending Valgerðar hafi leitt til þess að fjallað var um þennan þátt málsins í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag. Í henni kom fram að í Facebook-hópnum Pólverjar á Íslandi hefðu átt sér stað miklar umræður um kjaradeildu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og fréttastofan fullyrðir að margir sem hafa tekið til máls á þeim vettvangi vilji ekki verkfallsátök. Kvartað er yfir skorti á upplýsingum frá Eflingu um kosti og galla verkfallsaðgerðanna með hliðsjón af þeim samningum sem nú þegar hafa verið gerðir við Starfsgreinasambandið og VR.

Í fréttinni er rætt við Zygmunt Kania, strætóbílstjóra og félagsmann Eflingar. Þar er haft eftir honum að flestir bílstjórar taki undir með honum og kjósi ekki verkfallsátök. Spurður nánar af hverju og hvað honum finnst um kjarasamninginn sem er verið að bjóða, svarar hann: „Fyrst og fremst er mismunurinn á milli þess sem Efling vill ná fram og þess sem búið er að tryggja of lítill til að það taki því að berjast fyrir þetta.“
Af þessi má vera ljóst að ýmislegt kraumar undir yfirborðinu og það ætti að vera blaðamönnum hvatning að kíkja undir vélarhlífina í þeirri kjarabaráttu sem nú ríkir.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. febrúar 2023.