*

sunnudagur, 7. mars 2021
Týr
29. mars 2020 09:08

Kínaplágan

Það er sjálfsagt að nefna Rauða Kína í samhengi við faraldurinn; það var ekki tilviljun háð að upphaf hans var þar.

Þessa dagana kemst lítið annað að en heimsfaraldurinn, það á við á Íslandi sem annars staðar og skyldi engan undra. Meðal þess sem sumir virðast hafa þarfast að ræða í því samhengi er hvað kalla skuli faraldurinn og virðist mörgum í mun um hann sé höfð fullkomlega ógagnsæ skammstöfun, svo hann verði ekki tengdur neinu sem máli skiptir.

Og alls ekki Kína, þar sem hann átti upptök sín. Þar hefur einræðisstjórnin í Peking gengið afar langt, svo langt að CGTN, hin alþjóðlega áróðurssjónvarpsstöð þeirra, elur þessa dagana á samsæriskenningum um hvernig óvinveitt ríki beri í raun ábyrgð á henni.

                                                                               ***

Það er sjálfsagt að nefna Rauða Kína í samhengi við faraldurinn; það var ekki tilviljun háð að upphaf hans var þar. Veirusjúkdómurinn, sem talinn er kominn frá leðurblökum, á rætur að rekja til matvælamarkaðar í Wuhan, þar sem ægir saman lifandi dýrum og dauðum, villtum sem öldum, af öllum stærðum og gerðum.

Á netinu má finna myndbönd af markaðnum, sannarlega ógeðsleg, en óhætt er að fullyrða að þar hafi engum reglum um hreinlæti, matvælaöryggi eða smithættu verið fylgt. Var hættan af slíkum mörkuðum, sem finna mátti um gervallt Kína, þó fyllilega ljós, en þangað mátti bæði rekja fuglaflensuna 1998 og SARS 2002, en alræðisstjórnin lét markaðina samt eiga sig þar til fyrir mánuði.

                                                                               ***

Hálfu verri voru þó viðbrögð kommúnistastjórnarinnar í Kína við kórónuveirunni, en hún reyndi með virkum hætti að þagga útbreiðslu hennar niður vikum saman, ofsótti þá sem um hana töluðu, en gerði á meðan ekkert til þess að halda henni í skefjum og leyfðu tugþúsundum að ferðast óheft til annarra landa, löngu eftir að fólk var farið að veikjast og deyja.

Enn þann dag í dag eru faraldstölur frá Kína afar óáreiðanlegar og heimsbyggðin veit ekki fyrir víst hve margir hafa dáið þar eða eru enn smitaðir. Japanskir blaðamenn upplýstu það í vikunni að jákvæðar fréttir um að ný smit hefðu ekki greinst í Wuhan stöfuðu af því að hætt hefði verið að prófa fólk.

                                                                               ***

Svo veikin af völdum kórónuveirunnar væri réttnefnd Kínaplágan. Nú eða Rauði dauði til þess að undirstrika ábyrgð kommúnistastjórnarinnar á hörmungunum. Eða bara Xifylis vilji fólk nefna hana eftir þeim sem öllu ræður þar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Kína Kína Wuhan CGTN Heimsfaraldur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.