*

laugardagur, 20. júlí 2019
Óðinn
3. september 2018 12:35

Kjarasamningar, húsnæðisvextir og Stefán í Eflingu

Óðinn fjallar um ritgerð Gylfa Zoëga um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga, ójöfnuð og lífskjör á Íslandi.

Gylfi Zoega er prófessor í hagfræði og á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Gylfi Zoëga skilaði á dögunum forsætisráðherra ágætri ritgerð um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga. Þar kemur í sjálfu sér fátt á óvart en það er hins mikilvægt að ítreka reglulega staðreyndir eins og Gylfi gerir en um leið að benda á úrlausnir á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu, sem eru fá og flest auðleysanleg.

                                                                ***

Gylfi bendir á í ritgerðinni að virkir vextir Seðlabanka Íslands séu nú 4,25% og séu ekki lægri vegna þess að hér hefur verið mikill hagvöxtur, atvinnuleysi er sáralítið, svo lítið að aðstæður hafa kallað á innflutning erlends vinnuafls, og spenna er á vinnumarkaði sem ógnar verðstöðugleika. Í sögulegu samhengi eru vextir Seðlabankans mjög lágir því Seðlabankinn hefur beitt öðrum stýritækjum vegna þenslunnar í íslensku atvinnulífi.

                                                                ***

Áhrif stýrivaxta á húsnæðisvexti
Hærri seðlabankavextir hér á landi koma fram í hærri vöxtum á húsnæðislánum. Þannig munar 3,5% á seðlabankavöxtum hér og í Bretlandi en 4,0% á vöxtum á húsnæðislánum. Sambærilegar tölur fyrir Kanada eru 2,75% fyrir seðlabankavexti og 2,7% fyrir húsnæðislánavexti, fyrir Bandaríkin 2,25% og 2,5%, fyrir Svíþjóð 4,75% og 4,3%, fyrir Danmörku 4,20% og 4,0%.

                                                                ***

Mikilvægt er þó að hafa í huga að raunvextir af íbúðalánum, rétt eins og stýrivextirnir, eru sögulega lágir á Íslandi. Jafnvel þótt þeir séu mun lægri í mörgum ríkjum eins og sjá má hér að ofan. Ástæðan er ekki góðmennska stjórnvalda í þessum löndum gagnvart lántakendum heldur vegna þess að hagvöxtur er lítill í flestum þessara landa og atvinnuleysi mikið. Ein leið seðlabanka þessara efnahagssvæða er að reyna að leysa vandann með lægri vöxtum, með vaxtastigi sem hefur ekki verið eins lágt þegar litið er aftur í tímann og vaxtastigi sem verður ekki lágt til langrar framtíðar. Í þeim löndum sem ágætlega árar er ástæða lágra vaxta sú, að seðlabankarnir vilja ekki fá innstreymi á fjármagni með tilheyrandi gengisstyrkingu.

                                                                ***

Áhrif vaxta á húsnæðisverð
Vextir á húsnæðislánum hafa veruleg áhrif á húsnæðisverð. Greiðslugeta heimilanna af fasteignalánum fer eftir vaxtastigi. Lægri vöxtum fylgir hærra húsnæðisverð því fleiri hafa getu til að standa undir greiðslubyrði lána. Við þær aðstæður sem eru á húsnæðismarkaði nú, þar sem skorturinn ræður ríkjum, er óskynsamlegt að lækka vexti of hratt og of mikið. Viturlegra er að vinna á húsnæðisvandanum og lækka síðan vexti, ef aðstæður eru fyrir hendi.

                                                                ***

Dýrt bankakerfi
Gylfi bendir einnig á að íslenska bankakerfið virðist vera dýrara í rekstri en erlendir bankar og bitnar þessi kostnaður á viðskiptavinum bankanna í formi meiri munar útláns- og innlánsvaxta. Gylfi telur það verkefni samkeppnisyfirvalda að kanna hvers vegna svo sé. Óðinn telur það ágæta hugmynd en skýringarnar eru fleiri. Eina þeirra er að finna í hruninu þegar eftirlitskerfið stækkaði þótt bankakerfið hafi skroppið saman af stærð. Fjármálaeftirlitið mun aldrei koma í veg fyrir bankakreppur eins og urðu haustið 2008 og því ættu stjórnvöld að endurskoða eftirlitsskyldur þess með hagræðingu í huga . En skýringarnar eru fleiri. Margir hafa kennt gjaldmiðlinum um áhugaleysi erlendra banka. Einnig hlýtur smæð markaðarins að hafa áhrif. Svo er Óðinn ekki í vafa um að ríkisreksturinn í bankakerfinu skilar jafn mikilli hagkvæmni og í heilbrigðiskerfinu.

Misskilningur Stefáns Ólafssonar hjá Eflingu
Ánægjulegast í ritgerðinni er að sjá Gylfa Zoëga jarða ranghugmyndir Stefáns Ólafsonar, starfsmanns Eflingar og svokallaðs prófessors hjá Háskóla Íslands, og Arnaldar Sölva Kristjánssonar í nýlegri bók þeirra. Í bók þeirra kemur fram að skattbyrði tekjuhæstu tíu prósentanna lækkaði mikið frá 1994 til 2007 og hækkaði síðan eftir 2008, einkum vegna minni fjármagnstekna, hærri hátekjuskatts og auðlegðarskatts, eins og flestir vita.

                                                                ***

Gylfi bendir réttilega á að máli skiptir hvort ójöfnuður eykst vegna þess að hæstu tekjur hækka eða lægstu tekjur lækka. Á tímabilinu 1994 til 2007 hækkuðu allar tekjur en tekjur hæstu tekjuhópanna hækkuðu mest vegna aukinna fjármagnstekna. Þessar fjármagnstekjur verða til við fjárfestingar sem eru arðsamar og auka þjóðartekjur. Gylfi segir að slík þróun sé jákvæð og aukinn ójöfnuður þurfi ekki að vera slæmur. Hann bendir líka á að í lok þessa tímabils urðu tekjurnar til við bólu á hlutabréfamarkaði sem var knúinn áfram af lánsfjármagni. Þannig urðu takmörkuð verðmæti til.

                                                                ***

Eftir stendur að fall bankanna jafnaði tekjuskiptingu hér á landi. Var það jákvætt? Varla finnst nokkrum manni það, nema ef til vill Stefáni og Arnaldi. En hver hafði það betra við það? Enginn. Það höfðu það allir verra eftir hrunið þótt tekjuskiptingin hafi jafnast.

                                                                ***

Skammtímaleiga og húsnæðismarkaður
Í ritgerð Gylfa segir að um 1.000- 1.500 íbúðir eða um 1,2–1,7% af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu séu í skammtímaleigu. Gylfi telur þessa „atvinnustarfsemi“ hafa skaðað leigjendur og kaupendur á húsnæði og hið opinbera eigi hugsanlega að bæta þessum óljósa hópi skaðann. Óðinn telur málið einfaldara og að heimurinn verði ekki betri við enn eitt millifærslukerfið.

                                                                ***

Betri leið er að sveitarfélögin einfaldlega hraði skipulagsvinnu og skipuleggi stór íbúðarsvæði þar sem í boði eru minni íbúðir fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægra fólk. Mjög fáar slíkar íbúðir eru í byggingu í dag og því er engin lausn í augsýn.

                                                                ***

Að þessu slepptu er ritgerð Gylfa mikilvægt framlag. Krónutöluhækkanir munu engum gagnast í komandi kjarasamningum. Miklu heldur er rétt að lækka skatta, jafnvel þótt það verði aðallega gert hjá þeim tekjulægri, vinna að lausn húsnæðisvandans, sem er einfalt verk, og vonandi með tímanum að lækka vexti. Allt tal um að ójöfnuður sé vandamál á ekki við rök að styðjast, jafnvel þótt Stefán Ólafsson hjá Eflingu skrifi eina bók enn um það.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Gylfi Zoega
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.