*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Óðinn
28. apríl 2019 18:01

Kjarasamningar, Saga Class Svandísar og hagvaxtahorfur

„Með undirritun kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði voru vopnin slegin úr höndum opinberra starfsmanna.“

Ronald Reagan bandaríkjaforseti tók hart á ólöglegu verkfalli flugumferðastjóra á 9. áratugnum.
european pressphoto agency

Niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði var mun skynsamlegri en flestir þorðu að vona. Gjaldþrot Wow air hafði án nokkurs vafa úrslitaáhrif á viðræðurnar. Þrátt fyrir betri niðurstöðu en á horfðist þá eru laun á Íslandi orðin hærri en mörg fyrirtæki þola.

* * *

En það er dýrt að lifa á Íslandi. Það eina sem er ódýrt í samanburði viðmiðunarlöndin er orkukostnaður. Lengra verður ekki gengið í kauphækkunum og til þess að auka kaupmátt fólks er nauðsynlegt að horfa til þess kostnaðar sem venjulegt fólk hefur.

* * *

Stærsti einstaki frádrátturinn af laununum um hver mánaðamót fer í rekstur ríkis og sveitarfélaga. Hið opinbera er komið langt út fyrir öll skynsamleg mörk í rekstri sínum og umsvifum, eins og Óðinn benti á í síðasta pistli sínum um sveitarfélögin.

* * *

Á meðaltekjur venjulegs fólks er lagður 37% tekjuskattur og útsvar, en þegar einstaklingur hefur náð 930 þúsundum í tekjur –  sem eru engan veginn ofurlaun – tekur við 47% skattur. Ætlunin er að lækka tekjuskattinn lítillega næstu misserin, en ekki svo að miklu muni.

* * *

140% aukning ríkisútgjalda
Útgjöld hins opinbera á mann hafa aukist um 140% frá 1980. Nánast á hverjum degi birtast dapurlegar fréttir af sóun almannafjár. Nýjasta dæmið er úr heilbrigðiskerfinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vill heldur að ríkissjóður greiði 3 milljónir króna, fyrir að gera aðgerð í Svíþjóð og senda sjúklinginn á Saga Class, en að borga þriðjung af því – 1 milljón króna – fyrir að aðgerðin sé gerð í Ármúla á Íslandi. Sami sjúklingurinn, sami læknirinn en Saga Class til annars lands. En þetta eru ekki nýjar upplýsingar. Hvorki Óttarr Proppé né Kristján Þór Júlíusson, forverar Svandísar, gerðu nokkuð í því að stöðva þessa sóun. Allt vegna einstrengingslegrar kreddu um að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum eftirláta heilbrigðisstarfsmönnum í sjálfstæðum rekstri að lækna fólk.

* * *

Óðinn er sannfærður um að það tæki hann dagsstund að lækka ríkisútgjöldin um 10% án þess að nokkur lifandi – né dauður – maður yrði þess var. En á því hefur enginn áhuga. Síðasti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem talaði fyrir lækkun ríkisútgjalda, var Friðrik Sophusson. Hann lét af embætti fyrir 21 ári. Nær aldrei heyrast fréttir af fækkun sendiherra, fækkun starfsmanna ráðuneyta, aflagningu óþarfra stofnana, hagræðingu í rekstri eða lækkun kostnaðar.

* * *

Ef útgjöld ríkisins myndu lækka um 10% gæti tekjuskattur einstaklinga lækkað um 37% miðað við fjárlagafrumvarp þessa árs. Þá myndu 86 milljarðar sitja eftir hjá fólkinu í landinu, sem á þá og aflaði. Með fullri virðingu fyrir vorum hæfileikaríku opinberu starfsmönnum, þá hyggur Óðinn að fólk muni fara betur með eigin fé og verja til brýnni nauðsynja en þeim tekst.

* * *

Opinberir starfsmenn
Þegar Þjóðarsáttin náðist árið 1990 hafði þegar verið samið við helstu verkalýðssamtök opinberra starfsmanna. Þá þurfti fjármálaráðherrann að gera nokkuð, sem hefur líklega ekki gerst nokkurs staðar á byggðu bóli fyrr eða síðar: að setja bráðabirgðalög á samning, sem hann skrifaði sjálfur undir. En Ólafur Ragnar Grímsson er auðvitað ekki eins og fólk er flest. Sem skipti miklu máli í Icesavedeilunni og er önnur saga.

* * *

En með undirritun kjarasamninganna á hinum almenna vinnumarkaði í byrjun mánaðarins voru vopnin slegin úr höndum opinberra starfsmanna. Þeir munu ekki fá hækkanir umfram hinn almenna markað. Enda eru ekki nokkur rök fyrir því. Til að mynda fá læknar að jafnaði hærri laun á Íslandi í dag en í Svíþjóð. Og umfram allt, þá eru forsendur kjarabóta aukin efni þjóðarbúsins, sérstaklega þá auðvitað útflutningsgreinanna, þar sem hin raunverulega verðmætasköpun verður til.

Prófraun ríkisstjórnar
Nú fyrst reynir á ríkisstjórnina. Nokkrar stéttir ríkisstarfsmanna geta hæglega lamað þjóðfélagið. Þeirra á meðal eru flugumferðarstjórar. Þegar alvöru forsætisráðherrar voru við stjórn landsins kölluðu þeir slíka menn á sinn fund og sögðu þeim að verkfall yrði ekki liðið. Það yrði ekki liðið að flugumferðastjórar myndu í skjóli einokunar ríkisins á flugvöllum stöðva flug til og frá landinu.

* * *

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tókst á við bandaríska flugumferðarstjóra árið 1981. Þeir kröfðust 20-45% launahækkunar og 32 klukkustunda vinnuviku, en slíkar hugmyndir höfðu aldrei áður komið fram nema ef ske kynni hjá frönskum ríkisstarfsmönnum. Flugumferðarstjórum var samkvæmt bandarískum lögum bannað að fara í verkfall. Rökin fyrir því voru þau sömu og eiga við um íslenska flugvallarstarfsmenn. Að verkfallið gæti valdið neyðarástandi á landsvísu. Þrátt fyrir bannið fóru flugumferðarstjórarnir, 13 þúsund talsins, í verkfall.

* * *

Reagan, sem sjálfur var gamall verkalýðsforkólfur, gaf flugumferðarstjórunum 48 klukkustundir til að hlíta lögum og mæta til vinnu, en fullvissaði þá um fyllstu hörku ella. Þeir 11.345 sem mættu ekki til starfa voru því ekki aðeins reknir, heldur var þeim meinað að vinna hjá alríkinu ævilangt. Það stóð og það sem meira var, flugslysum fækkaði.

* * *

Af þessari kennslustund Ronalds Reagan gætu íslenskir stjórnmálamenn lært. En Óðinn er hæfilega bjartsýnn á að núverandi forsætisráðherra muni neitt annað en fela sig undir skrifborði í stjórnarráðshúsinu þegar á reynir.

* * *

Horfurnar
Mörgum hættir til að eiga erfitt með að anda með nefinu en láta þess í stað skammtímahorfur villa sér sýn. Í byrjun mánaðarins gaf greiningardeild Arion banka út efnahagsspá sína til ársins 2021. Hún nefnist „Hagkerfið kyrrsett” og má segja að tónninn hafi þar með verið sleginn. Þó svo að spáin hafi birst áður en kjarasamningar voru undirritaðir er svartsýni greiningardeildarinnar í engu samræmi við aðstæður í hagkerfinu.

* * *

Það lá þá þegar fyrir að Seðlabankinn myndi lækka vexti ef samningar yrðu viðunandi. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar virtust, að minnsta kosti sumir, vera farnir að átta sig á því í aðdraganda undirritunar, að vaxtastigið og verðbólgan gæti ráðið meiru um kaupmáttinn en krónutöluhækkanirnar sem þeir kröfðust.

* * *

Vissulega mun ferðamönnum fækka, hugsanlega um 16% eins og greiningardeild Arion banka spáir, og loðnan fannst ekki. Þetta þýðir lægri hagvöxt. Á sama tíma eru fyrirhugaðar gríðarlegar framkvæmdir á vegum hins opinbera og sumar hafnar. Það þýðir meiri hagvöxt.

* * *

Allt of lítið hefur verið byggt af íbúðum (reyndar of mikið af dýrari íbúðum) og lítið sem ekkert af atvinnuhúsnæði öðru en skrifstofuhúsnæði, sem offramboð er á. Það þýðir meiri hagvöxt.

* * *

Stóru viðskiptabankarnir þrír stöðvuðu útlán fyrir tæpu ári. Arðgreiðslur til hluthafa þeirra, útlánatöp, kjarasamningar, kólnun á fasteignamarkaði og gjaldþrot Wow Air hefur dregið alla áræðni úr einkabankanum Arion og ríkisbönkunum tveimur, Landsbanka og Íslandsbanka. Á endanum gerist annað af tvennu: þeir fá aftur sjálfstraustið eða Seðlabankinn sparkar öllum endurhverfu aurunum þeirra út úr Svörtuloftum. Það þýðir meiri hagvöxt.

* * *

Það er því fullsnemmt að spá efnahagssamdrætti, þó tæpt muni það standa.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.