Blaðamenn eiga oft á tíðum í erfiðu sambandi við fréttatilkynningar. Vissulega geta þær oft reynst gagnlegar í störfum blaðamanna en aftur á móti er það oft merki um leti og metnaðarleysi á ritstjórnum þegar fréttatilkynningar um misáhugaverð mál eru birtar eins og þær koma af koppnum.

Segja má að nýtt viðmið hafi verið sett í þessum efnum á dögunum. Þá birti Fréttablaðið hráa fréttatilkynningu um mál sem enginn leið er að sjá að eigi nokkurt erindi við einn einasta lesenda blaðsins. Bara alls ekkert! Fréttin byggði á tilkynningu um að bandarískur hamborgarastaður sem er fjölmiðlarýni kunnur þrátt fyrir að hafa dvalið langdvölum í Bandaríkjunum – Carl‘s Jr. – stefndi að því að opna útibú í Sviss. Þetta er auðvitað mikill áfangi og óhætt er að taka undir orð Mike Woida, eiganda hamborgarastaðarins, en Fréttablaðið hefur eftir honum: „Það er alltaf spennandi áfangi þegar við fáum að færa matseðil okkar frá Kaliforníu til annarra landa og nýrra viðskiptavina.“

***

Eðli málsins samkvæmt eru fréttir af kjaraviðræðum fyrirferðarmiklar um þessar mundir. Þrátt fyrir að lítið sé að frétta af gangi viðræðnanna annað en það að þær stefna flestar á borð ríkissáttasemjara ef þær eru ekki komnar þangað nú þegar. Þó hefur sú áhugaverða staðreynd að samninganefnd Eflingar telur hátt í hundrað manns og á þessi mannsöfnuður í viðræðum við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Samtökin senda alla jafna einn eða tvo fulltrúa til þess að ræða við hinn mikla Eflingarskara. Furðu vekur að enginn fjölmiðill hafi leitað svara við þeirri spurningu af hverju Efling telur hag sínum borgið að stilla fram svo fjölmennri samninganefnd.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 17 nóvember 2022.