Eins og vanalega í kjarasamningum á Íslandi, er heldur langt á milli launahugmynda verkalýðsforingja og atvinnurekenda. Það væri afar áhugavert ef samningsaðilar myndu nálgast stöðuna í víðara samhengi frekar en að einblína bara á launahækkanir. Beinar launahækkanir eru ekki eina leiðin að bæta lífskjör landsmanna því það er líka hægt að stuðla að lækkun útgjalda hjá launþegum án þess að minnka lífsgæði. Samgöngur geta verið stór biti í útgjöldum heimila. Fjölskylda getur t.d. sparað ótrúlega miklar fjárhæðir með því að losa sig við bíl eða minnka notkunina verulega. Samkvæmt FÍB er rekstrarkostnaður á ódýrum bensínbíl um 1.117.600 krónur ári. Þetta þýða um 5,5 milljónir á 5 árum, sem sagt alvöru upphæðir. Þetta snýst ekki bara um að eiga eða eiga ekki bíl. Þetta snýst líka um að þurfa ekki að eiga tvo bíla eða jafnvel bara að geta keyrt báða bílana sína aðeins minna.

Almenningssamgöngur og hjólreiðar

Til þess að gera launafólki kleift að lækka þessi útgjöld verulega, þarf góðar almenningssamgöngur og hjólreiðainnviði. Hluti af framlagi opinberra aðila til liðkunar kjarasamninga getur því verið að auka þjónustustig og ferðatíðni strætisvagna sem að sjálfsögðu þurfa svo að ganga fyrir umhverfisvænni orku. Einnig þarf að halda áfram uppbyggingu hjólreiðainnviða. Hluti af kjarabótum fyrirtækja og stofnana gæti verið að bjóða starfsfólki strætókort og góða aðstöðu fyrir reiðhjól. Slíkt væru alvöru kjarabætur án verðbólguáhrifa.

Rafbílar

Önnur leið til að bæta lífskjör margra launþega er að bjóða upp á hleðslu rafbíla á vinnustöðum. Einföld hleðslustæði á vinnustöðum eru ekki yfirþyrmandi fjárfesting en aftur á móti frábær þjónusta og kjarabót fyrir starfsfólk. Í fyrsta lagi skapar hleðsla á vinnustað möguleika á því að bifreiðaeigendur sem búa í fjölbýlishúsum, með takmarkað hleðsluaðgengi, fjárfesti í rafknúinni bifreið og hlaði hana að mestu í vinnunni. Í öðru lagi myndi hleðsla heima og í vinnu eyða öllum drægniáhyggjum rafbílaeigenda með smærri rafhlöður. Slíkt myndi gefa fleirum kost á að fjárfesta í rafbíl því að ódýrustu rafbílarnir eru með minnstu rafhlöðurnar. Í þriðja lagi myndi þetta nær tvöfalda raforkunotkun tengiltvinnbíla á kostnað olíu. Tengiltvinnbílar hafa um 15-50 km drægni á rafmagni en þurfa eftir það að skipta yfir á dýra og mengandi olíu. Með vinnustaðatengingu gætu eigendur tengiltvinnbíla alltaf keyrt á hreinni og ódýrri orku í vinnuna og til baka heim. Þó að fyrirtæki gæfu starfsmönnum sínum raforku á bílinn þá yrði sá kostnaður lítill, þökk sé frábærri orkunýtni rafbíla og ódýrri raforku hér á landi. Að gera fólki kleift að nýta hagkvæmari og umhverfisvænni orkukosti til samgangna er einfaldlega lífskjaramál.

Ytri áhrif

Ef fyrirtæki og opinberir aðilar myndu styðja við ofangreindar kjarabætur yrðu áhrifin í raun miklu meiri en hrein kostnaðarlækkun launþega. Ytri áhrifin yrðu talsverð. Olíunotkun myndi minnka sem myndi svo auka efnahagsstöðuleika og minnka gengissveiflur. Slíkt væri sameiginlegur ávinningur atvinnulífs og launþega. Lýðheilsa starfsmanna myndi líka batna með minni heilsuspillandi mengun og aukinni hreyfingu. Það skilar sér í meiri afkastagetu og færri veikindadögum. Ofangreindar aðgerðir myndu líka færa okkur nær því að standast skuldbindingar okkar í loftslagsmálum sem draga myndu úr þörf á kaupum á dýrum kolefniskvótum. Ef ríkið þarf minni peninga í kolefniskvótakaup, þá hefur það líklega meira svigrúm til skattalækkana eða alla vega minni skattahækkana.