Þrátt fyrir að menn kunni hafa skiptar skoðanir á hlutverki og erindi fjölmiðla í opnum lýðræðislegum samfélögum eru vafalaust flestir sammála um að þeir eigi að einbeita sér að greina frá staðreyndum þeirra mála og framgangi sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Það er með öðrum orðum ekki hlutverk þeirra að standa við físibelginn þegar hitamál eru til umræðu heldur að varpa ljósi á staðreyndir málsins og framgang þess.

***

Eins og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi þá er ýmislegt gagnrýnisvert við síðasta skref sem stigið var við einkavæðingu Íslandsbanka. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti fallist á þá gagnrýni með því að tilkynna um að Bankasýslan verði lögð niður og að frekari áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka verði lögð á hilluna. En að sama skapi er ýmislegt athugavert við fréttaflutning fjölmiðla af málinu á undanförnum vikum sem orkar tvímælis.

Það er eins og að stór hluti fjölmiðla hafi skellt við skollaeyrum þegar kom að skýringum á að ekki væri rétt að tala um afslátt á markaðsgengi Íslandsbanka þegar kom að verðmyndun í útboðinu. Um tilboð var að ræða og verðið í útboðinu var einfaldlega það verð sem þátttakendur voru tilbúnir að greiða fyrir ríflega fimmtungs hlut í Íslandsbanka á þeim tímapunkti. Fram hefur komið að lífeyrissjóðir hafi verið leiðandi að þrýsta genginu niður í 117 - hugsanlega að undanskildum þeim lífeyrissjóði sem er í sérstöku vinasambandi við oddvita sveitastjórnarlistans Fyrir Heimaey - og aðrir smærri fjárfestar hafi boðið hærra verð í tilboðinu. Það er einmitt þátttaka síðarnefndu fjárfestanna sem mesti styrinn hefur staðið um.

Þá hafa fjölmiðlar klifað á því að þátttakendur í útboðinu hafi með einhverjum hætti verið sérvaldir til þátttöku. Á þessu hefur verið klifað þrátt fyrir útskýringar um að allir þeir sem eru skráðir sem fagfjárfestar hjá fjármálafyrirtæki væru metnir hæfir til þátttöku. Hafi menn efasemdir um þau skilyrði sem gerð eru fyrir skráningu sem fagfjárfestir er rétt að fjalla um það í samhengi við hið samevrópska regluverk sem gildir á hinum sameiginlega fjármálamarkaði Evrópu og hefur verið innleitt hér á landi.

***

En skýrasta dæmið um að fjölmiðlar ákváðu að halda áfram að segja fréttir af útboðinu sem stönguðust á við staðreyndir málsins kom í kjölfar þess að vefmiðillinn Kjarninn fullyrti að stærstur hluti þátttakenda hefði selt bréfin strax eftir útboðið. Sú frétt birtist á vef Kjarnans þann 12. apríl og var þar fullyrt að 132 af 207 þátttakendum í útboðinu hefðu selt hlut sinn að öllu leyti eða stærstum hluta. Var fréttin sögð byggð á samanburði á hluthafalista bankans fyrir og eftir útboð. Rétt er að taka fram að fleiri fjölmiðlar voru á sömu skoðun en treystu sér ekki til að draga sömu ályktanir og blaðamenn Kjarnans enda geta verið fjölmargar skýringar á því að nöfn þeirra fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu voru ekki á hluthafalistanum.

En þetta vafðist ekki fyrir Kjarnanum og fréttin var sögð. Vakti hún mikla athygli og hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Eigi að síður kom á daginn að fréttin var í meginatriðum röng. Daginn eftir að frétt Kjarnans birtist fjallaði Innherji, viðskiptavefur Vísis, um málið og upplýsti um að umsvifamiklir fjárfestar hefðu alls ekki selt bréf þrátt fyrir fullyrðingar um annað.

Tveimur dögum síðar birtist önnur frétt á Innherja þar sem fleiri rangmæli í frétt Kjarnans voru hrakin. Rangmæli um að starfsmenn Íslandsbanka og eigendur Íslenskra verðbréfa hefðu selt bréfin sem þeir keyptu í útboðinu. Í frétt Innherja segir:

Fram kom í frétt Kjarnans fyrr í vikunni, sem var sögð byggjast á samanburði á hluthafalista Íslandsbanka fyrir útboðið og eins og hann leit út í byrjun vikunnar, að alls 132 þeirra 207 fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu hafi á því tímabili selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Þar væri einkum um að ræða „litla" fjárfesta og í fréttinni sagði að á meðal þeirra sem væru ekki lengur skráðir fyrir hlutum í Íslandsbanka væru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa sem ráðnir voru til að sinna útboðinu.

Listi yfir alla hluthafa bankans sýnir hins vegar að viðkomandi starfsmenn Íslandsbanka og eigandi að helmingshlut Íslenskra verðbréfa eru enn sannarlega skráðir fyrir þeim hlutum sem þeir keyptu í útboðinu. "

Þrátt fyrir að þessar upplýsingar hafi komið fram héldu fréttamiðlar á borð við Ríkisútvarpið áfram að segja fréttir um söluna byggða á röngum fullyrðingum sem komu fram í ofangreindri frétt Kjarnans. Reyndar fylgdu fleiri miðlar sömu slóð: Þannig var sérstakt að lesa viðskiptafréttir Vísis þar sem röngum fullyrðingum Kjarnans var haldið á lofti á sama tíma og Innherji á sama vef var að útskýra hið rétta í málinu.

Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að Bankasýslan fann sig knúinn til þess að birta fréttatilkynningu í lok síðustu viku þar sem hinu rétta í málinu er haldið til haga. Í henni kom fram að einungis 34 fjárfestar af þeim sem tóku þátt í útboðinu hefðu minnkað hlut sinn eftir útboðið. Á sama tíma höfðu 25 fjárfestar aukið við eignarhlut sinn og þorri fjárfestanna höfðu ekki hreyft við bréfunum.

***

Það er umhugsunarefni hvers vegna fjölmiðlar héldu áfram að halda á lofti fullyrðingum sem sýnt hafi verið fram á að stönguðust á við staðreyndir málsins. Að þessu leyti voru þeir að haga sér eins og klappstýrur ákveðins málstaðar. Þegar sá hamur rennur á blaða- og fréttamenn snýst fréttaflutningurinn fyrst og fremst um að reyna að þyrla upp ryki og tortryggja þau mál sem eru til umræðu og þá sem með þau hafa vélað. Á slíkt framferði lítið skylt við blaðamennsku.

***

Í þessu samhengi verður ekki komist hjá því að minnast á umfjöllun Stundarinnar um það sem blaðið kallar „raunverulega kaupendur Íslandsbanka". Er um að ræða viðleitni blaðsins til þess að tengja nánast alla Íslendinga að Halla og Ladda undanskildum við þátttöku í útboðinu. Aðferðafræðinni er lýst með þessum hætti í grein Stundarinnar:

„Nöfnum á listanum er raðað eftir því hversu tengd þau eru útboðinu; það er hvort þau hafi sjálf keypt hluti eða í gegnum aðra. Sá sem fjærst stendur sölunni er ellefu þrepum frá henni. Sá á hlut í félagi sem á í öðru félagi sem á svo í enn öðru félagi, og svo framvegis, sem tók þátt í útboðinu ."

Einhverjum kynni að þykja það langsótt að tengja einhvern sem er heilum ellefu þrepum frá sölunni við málið en það vefst ekki fyrir blaðamönnum Stundarinnar. Það sama á við þær fjárhæðir sem um er að ræða í þessu samhengi en af einhverjum ástæðum láta blaðamenn Stundarinnar ekki upplýsingar um þær fylgja með. En markmiðið virðist að tengja sem flesta við söluna. Enda gæti listinn yfir þá sem tengjast málinu að mati Stundarinnar einna helst líkst efnisliðnum Vikan á Instagram ef ritstjórn Viðskiptablaðsins tæki upp á því að halda honum úti. Spurningin um hvaða upplýsingagildi það hefur fyrir almenning að kortleggja fólk sem stendur allt að „ellefu þrepum frá" sölunni er býsna áleitin.