*

laugardagur, 19. september 2020
Andrés Magnússon
12. júní 2020 17:02

Kjarnyrðingar

Umdeilt er hvort fjölmiðlar skuli hljóta ríkisstuðning eður ei, ættu eigendur miðlana að teljast hlutlausir í því máli?

Hér var í liðinni viku fjallað í nokkru máli um fréttaflutning Ríkisútvarpsins, þar sem sérstaklega var vikið að helstu fyrirtækjum í landinu, sem notfært hefðu sér hlutabótaleiðina svonefndu til þess að bregðast við rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins. Þar voru til nefnd nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins og eitt til, Myllusetur, útgefandi Viðskiptablaðsins. 

Fjölmiðlarýnir fær enn ekki skilið hvað réði þeim efnistökum, nema ef vera skyldi einhver hefnigirni fyrir að Viðskiptablaðið skyldi segja fréttir af vettvangi Ríkisútvarpsins ohf., sem voru ekki til þess að auka hróður stofnunarinnar. Þar er þó við stjórnendur hennar að sakast, ekki Viðskiptablaðið. 

Hins vegar sá hann út undan sér að þetta hafði ekki aðeins farið í skapið á mönnum í Efstaleiti, því Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var óvenjuönugur vegna þessa á Twitter: 

Líklega hefur enginn einn miðill eytt jafn miklu púðri í að urða nafnlaust yfir mig fyrir að styðja almennt styrkjakerfi fyrir fjölmiðla en Viðskiptablaðið. Útgáfufélag þess setti samt starfsfólk á hlutabótaleiðina. En það er auðvitað ekkert ríkisstyrkur.

                                                               ***

Það var leitt að sjá þetta frá okkar gamla vinnufélaga á Viðskiptablaðinu, en á sinn hátt ágætt að það komi fram að hann líti á sig sem sérstakan baráttumann fyrir því að ríkisvæða fjölmiðla landsins. Blaðið hefur lýst yfir miklum efasemdum um þau áform í forystugrein, en sjálfsagt er það nú í þessum dálkum, sem einna harðast hefur verið barist gegn þeim hugmyndum að frjálsir fjölmiðlar verði háðir fjárveitingavaldinu. Nú skjóta þeir félagar Óðinn og Týr í ýmsar áttir og vafalaust hefur Þórður Snær eða Kjarninn einhverntímann fundið fyrir broddi þaðan, þó ekki reki fjölmiðlarýni minni til þess að sérstaklega miklu púðri hafi verið í það eytt, hvað þá þannig að „urðað“ hafi verið yfir hann. En aðgát skal höfð og allt það, menn taka slíkt misjafnlega til sín. 

Hitt er annað mál að ekki verður í fljótu bragði séð að þær aðfinnslur hafi sérstaklega tengst stuðningi Kjarnans við fjölmiðlastyrki hins opinbera. En þó svo væri, þá væri það nú varla nein goðgá. Fjölmiðlar draga yfirleitt ekki af sér í ritstjórnargreinum við að gagnrýna það sem betur mætti fara, tala nú ekki um þegar bent er á málflutning, sem þykir blandinn hagsmunatengslum eða hræsni. Þar er Kjarninn síður en svo undantekning.

                                                               ***

Eins og áður var minnst á hefur Viðskiptablaðið lagst gegn sérstökum fjölmiðlastyrkjum hins opinbera og bent á ýmsar leiðir betri og almennari til þess að laga rekstrarumhverfi fjölmiðla. Á því eru vafalaust enn skiptar skoðanir. En verði fjölmiðlastyrkir nú þrátt fyrir allt ofan á þá þykir fjölmiðlarýni ósennilegt — án þess svo sem að hafa neitt fyrir sér um það — að Myllusetur myndi hafna honum ef samkeppnisaðilarnir allir fá slíka búbót. Það myndi hins vegar engu breyta um þá afstöðu að sértækar aðgerðir af því tagi eru óskynsamlegar, til þess fallnar að skekkja samkeppnisstöðu og fela auk þess í sér hættu á að sjálfstæði fjölmiðla gagnvart ríkisvaldinu sé stefnt í hættu. Hlutabótaleiðin er allt annars eðlis, þar ræðir um tímabundnar, almennar aðgerðir, sem öllum stóðu til boða, til þess að afstýra yfirvofandi upplausn á vinnumarkaði á fordæmislausum tímum.

                                                               ***

En fyrst það var verið að ræða hagsmuni og hræsni, þá er nauðsynlegt að nefna að ritstjóri Kjarnans er jafnframt stór hluthafi í miðlinum, en hann á 10,01% í útgáfufélaginu samkvæmt skrá Fjölmiðlanefndar. Hann hefur því, eðli málsins samkvæmt, verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta þegar kemur að rekstrarafkomu félagsins. Enn frekar þó ef hann telur framtíð miðilsins ráðast af því að hvort það hlaupi á styrkjasnærið eða ekki.

                                                               ***

Langflestir aðrir fjölmiðlar gæta þess að hafa múr á milli ritstjórna og eigenda. Reyndar er ritstjóri Vísbendingar, sem gefinn er út af útgáfufélagi Kjarnans, einnig stór hluthafi í því félagi. Þá eru báðir ritstjórar Stundarinnar stórir hluthafar í þeim miðli en saman halda þeir á ríflega 24% hlut og þegar Fréttablaðið skipti um hendur í lok síðasta árs var ráðinn nýr ritstjóri sem á 5% hlut í útgáfufélaginu. Það er því ekki dæmalaust að því sé þannig háttað, en það er þá rétt að það komi skýrt fram þegar rekstur miðlanna er til umræðu.

Eins og fram kom hjá Þórði hefur hann miklar skoðanir á umræddum fjölmiðlastyrkjum, en þær verður þá að setja í samhengi við fjárhagslega hagsmuni hans. Ef hluthafi á 10% hlut í félagi sem fær t.d. 30 eða 50 milljónir í fjölmiðlastyrk þá má segja að verðmæti hans hlutar hafi aukist um 3 til 5 milljónir. Hið sama er ekki hægt að segja um blaðamenn eða aðra launþega fjölmiðlafyrirtækja.

                                                               ***

Á Alþingi hafa fleiri styrkir og faraldursúrræði verið til umfjöllunar, en þar hafa meðal annars heyrst þau sjónarmið að setja verði þau skilyrði að fyrirtæki, sem þiggi þau, hafi engin tengsl eða vensl við félög í skattaskjólum. Þess má geta að næststærsti hluthafinn í félaginu Kjarninn miðlar ehf. er Miðeind ehf. en það félag er í eigu Merson Holding SA, sem skráð er í Lúxemborg og tengdist Tortólafélagi eins og rakið var í fréttum af Panamaskjölunum. Þarf það þó ekki til því eins og fram kom í frétt Ríkisútvarpsins í fyrra renna enn miklir fjármunir frá Íslandi til skattaskjóla og sagt að íslenska ríkið sæi á eftir 15% af ætluðum skatttekjum sínum í skattaskjól og rynni stærsti hlutinn til Lúxemborgar.

                                                               ***

Í þessu ljósi má benda á að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sem er ötull leiðarahöfundur og fundvís á alls kyns heimsósóma, skrifaði í byrjun maímánaðar leiðara þar hann gagnrýndi „fjársterk fyrirtæki“ fyrir að ganga á lagið og nýta hlutabótaleiðina. Fyrirsögn leiðarans var „Skilið peningunum okkar“. Í lok mars skrifaði hann annan leiðara um sama efni undir fyrirsögninni „Skammist ykkar“. Ætli hann hafi hallað sér upp að næststærsta hluthafanum í Lúxemborg og viðhaft þessi sömu orð?

Fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.