*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Leiðari
22. september 2017 15:25

Kjósenda er valið

Kallað er eftir því að „alvörufólkið“ í íslenskum stjórnmálum komi góðri skipan á stjórnmálalífið.

Haraldur Guðjónsson

Það hefur sannast enn og aftur að vika er langur tími í pólitík. Það lá fyrir að milli Sjálfstæðisflokks, Við­reisnar og Bjartrar framtíðar væri ekki eining um alla hluti og menn gengu til þessa stjórnarsamstarfs meðvitaðir um að þingmeirihlutinn gæti ekki verið tæpari. En að ríkisstjórnin reyndist jafnbrothætt og raun bar vitni óraði engan fyrir.

Af því er ekki aðeins ómak fyrir aumingja kjósendurna, heldur er fjölmargt í húfi. Pólitískt umrót og óvissa í landsmálum getur haft alvarlegar og áþreifanlegar afleiðingar. Hagvöxtur og fjárfestingar, vinnumarkaður og velferð, allt þetta er í uppnámi. Það er alveg nógu slæmt, en verra er þó að þannig er fyrir okkur komið, fullkomlega að óþörfu.

Ekkert sem fram hefur komið um álitaefni varðandi uppreist æru kynferðisbrotamanna bendir til þess að þar hafi verið tilefni stjórnarslita. Þvert á móti, því telji menn að misbrestur hafi orðið á einhverju því tengdu eða valdamenn með óhreint mjöl í pokahorninu, þá kallar það vitaskuld á rækilega umfjöllun og rannsókn. Ekki það að einn stjórnarflokkurinn fari á taugum og hlaupist frá skyldum sínum í fullkomnu ábyrgðarleysi, jafnt gagnvart almenningi og þessu tiltekna máli.

Í þessu samhengi er sérstakt áhyggjuefni, að svo virðist sem hagsmunir sveitarstjórnarmanna Bjartrar framtíðar, sem vildu síður ganga til kosninga næsta vor í ríkisstjórnarsamstarfi, hafi trompað hagsmuni almennings. Hafi þeir haft úrslitaáhrif á stjórnarsamstarfið en þingmennirnir ekki, gengur það gegn anda og ákvæðum stjórnarskrárinnar um að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína.

Það er fáránlegt, óþolandi raunar, að íslenskir kjósendur þurfi að ganga árlega að kjörborðinu, en vegna úlfúðar og skautunar í stjórnmálum verður æ erfiðara að mynda ríkisstjórn og viðhalda nauðsynlegri festu i stjórn ríkisins. Það er þeim mun einkennilegra, þegar höfð er í huga sú almenna hagsæld, vöxtur og velferð sem hér ríkir, á sama tíma og ástandið í helstu nágrannaríkjum er mun óvissara.

Hér er óvissan öll í pólitíkinni, nánast af ásettu ráði, því flestir stjórnmálaflokkar hafa lagt áherslu á það sem á milli ber, en ekki hitt sem menn geta náð saman um. Af þeim sökum er einstakt tækifæri frjálslynds fólks til margvíslegra tímabærra breytinga sennilega að renna mönnum úr greipum.

Það er þó bót í máli að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi beitt sér fyrir því að gengið yrði til kosninga sem allra fyrst. Það skiptir máli að stytta þetta óvissuástand eins mikið og góðar lýðræðisvenjur þola. Það er líka gott að vita af því að þrátt fyrir allt umrótið í stjórnmálunum sé í forystu maður, sem þorir að taka af skarið og hleypst ekki undan ábyrgð. Sjálfstæðisflokkurinn er enn burðarás íslenskra stjórnmála.

Það gefur líka nokkrar vonir, að á hinum ási stjórnmálanna hefur forysta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að mestu staðist margvíslegrar freistingar til pólitískrar hentistefnu án þess að linast í stjórnarandstöðunni. Þegar horft er til verkefnanna framundan, einkum hvað varðar vinnumarkaðsmálin, blasir við að pólitísk lausn finnst vart á þeim án aðkomu vinstrigrænna.

Það er kannski ráð, að alvörufólkið í íslenskum stjórnmálum talist við um hvernig koma megi góðri skipan á stjórnmálalífið. Og þá er spurningin, hverjir vilji koma með þeim í slíkt verkefni, frjálslynt fólk eða íhaldssamt?

Stikkorð: Leiðari stjórnarslit Kjósendur valið
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.