*

mánudagur, 21. september 2020
Týr
30. apríl 2019 15:51

Kjötréttindi

Næstu vikur verður annríki í þinginu, þar sem ýmis viðamikil og umdeild mál bíða umfjöllunar í þingnefndum.

Rétt eins og Týr hefur ekkert leyfi til þess að skipa öðrum fyrir um hvað þeir skuli hafa í matinn, þá hefur þingið ekkert leyfi til þess heldur.

Næstu vikur verður annríki í þinginu, þar sem ýmis viðamikil og umdeild mál bíða umfjöllunar í þingnefndum. Þar blasir við að þriðji orkupakkinn mun ekki fara hljóðalaust í gegn, sennilega ekki óhljóðalaust heldur. En svo eru þar ýmis önnur mál, sem viðbúið er að valdi ekki minni titringi, meira kannski á tilfinninganótunum en þessum röklegu.

* * *

Mörg þessara frumvarpa snúast um tiltölulega hversdagslegt fyrirkomulag á lagaumhverfi eða rekstri ríkisins, sem ekki ættu að vera djúpstæðar deilur um, þó vissulega henti sumum að gera sér upp háværa hneykslan og harm, líkt og segja má um orkupakkann. Önnur lúta hins vegar að grundvallarafstöðu, þó þau kunni að virðast vera fremur tæknilegs eðlis.

* * *

Heimildir til innflutnings á fersku kjöti eru gott dæmi um það. Nú er kunnara en frá þurfi að segja, að Týr og Viðskiptablaðið aðhyllast frelsi í verslun og viðskiptum. Þar eiga matvæli auðvitað ekki að vera undan skilin. Það sætir raunar alveg sérstakri furðu að nokkrum þyki það koma ríkisvaldinu við hvað fólk leggur sér til munns, hvaðan matvaran er upprunnin eða hvernig hún er verkuð.

* * *

Rökin fyrir þeirri afskiptasemi eru öll með fáfengilegasta móti, sum hreinn fyrirsláttur. Að einhverju leyti ræðir þar um erindrekstur fyrir hagsmunaaðila, sem ekki vilja una neytendum þess að velja sér matvöru, sem kynni að henta bragðlaukum þeirra eða efnahag betur. Það er vondur málstaður, en væri þó a.m.k. ærlegur ef menn segðu það bara hreint út. En mikið til virðast andstæðingarnir nú aðallega litast af hvötum til þess að hafa vit fyrir öðrum, líkt og þingmenn kunni betur að velja kjöt en fólkið í eldhúsum landsins. Og að það fólk sé óvitar.

* * *

Þetta er sama manngerð, jafnvel sömu menn, og taldi sig þess umkomna að banna samborgurunum að drekka bjór, vildi ekki leyfa fólki að kaupa mjólk og skyr nema í mjólkurbúðum, vildi ráðskast með hvaða ost það fengi sér og finnst að innkaupastjóri Vínbúðanna sé best til þess fallinn að velja því vín með matnum. En það er rangt. Þingmenn hafa engin völd nema þau sem þeir fara með fyrir hönd borgaranna. Og rétt eins og Týr hefur ekkert leyfi til þess að skipa öðrum fyrir um hvað þeir skuli hafa í matinn, þá hefur þingið ekkert leyfi til þess heldur.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Alþingi kjöt þingnefndir annríki
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.