*

fimmtudagur, 2. apríl 2020
Leiðari
7. desember 2018 14:01

Klámið á Klaustri

Við eigum að ætlast til háttvísi af þingmönnum og æðstu stjórnendum þjóðarinnar og við eigum ekki að umbera dónaskap af þeirra hálfu.

Haraldur Guðjónsson

Mitt í Watergate-hneykslinu, sem skók bandarískt stjórnkerfi fyrir liðlega fjórum áratugum, voru upptökur úr forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu gerðar opinberar, en ýmislegt misjafnt kom þar í ljós um embættisfærslu og vélabrögð Richards M. Nixon Bandaríkjaforseta. Bandarískum almenningi kom þó ekki á óvart að þar á bænum legðu menn á ráðin um fleira en gott þótti, en á hinn bóginn var þorra þjóðarinnar mjög brugðið við að átta sig á óhefluðum munnsöfnuði forsetans. Því áttu menn ekki að venjast frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar og það þótti ekki embættinu samboðið. Ætli það sé ekki svipað uppi á teningnum hjá Íslendingum þessa dagana?

Nú er fámennur en skrautlegur flokkur nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar fráleitt æðstu ráðamenn og nær örugglega ekki dæmigerðir fyrir neinn hóp manna. Miðað við viðbrögð almennings er það orðbragð, sem viðhaft var þar við borðið ekki heldur dæmigert málsnið nokkurs kima íslensks samfélags.

Eftir sem áður ræddi hér um hartnær tíunda hluta þjóðþingsins, löggjafarsamkundu lýðveldisins, en það er ein þriggja greina æðstu stjórnar ríkisins. Hvort sem tungum þingmannanna sex eru tiltekin orð töm eða ekki, þá voru þau nú samt sögð þarna við borðið og það mótmælti þeim enginn, hvorki orðunum né samhengi þeirra.

Þetta samtal var þingmönnunum til háborinnar skammar og það kastaði ekki aðeins rýrð á þá, heldur Alþingi sjálft og stjórnmálalífið í heild. Það er ósanngjarnt, en þannig er það. Það er ósanngjarnt vegna þess að almennt er fólk í íslenskum stjórnmálum – flest fólk, í flestum flokkum – varfærið í orðum, þótt það skylmist alla daga.

Nú má segja sem svo að menn segi eitt og annað í ætluðum trúnaðarsamtölum og ekki síst undir áhrifum áfengis. En það er engin afsökun fyrir þeim ótrúlega ruddaskap, sem þarna blasti við.

Það má hins vegar líta til íslenskrar umræðuhefðar, sem hefur verið einstaklega harkaleg hin síðari ár. Það mátti vel sjá á viðbrögðunum á samfélagsmiðlum, þar sem þessum þingmönnum (og fleirum raunar) voru valin margvísleg ókvæðisorð, sum hálfu svívirðilegri en féllu á Klaustri. Eins þekkjum við það af ýmsum fyrri opinberunum á orðsendingum annars málsmetandi fólks, sem leynt áttu að fara, eins og þegar þáverandi þingkona bar heilabilunarsjúkdóm á þingbróður sinn eða níðið sem óð uppi um kunnan lögmann í þúsund manna lokuðum umræðuhópi um mannvirðingu á dögunum.

Hugsanlega er því tilefni til þess að fleiri en þingmennirnir sex staldri við og líti í eigin barm um það hvað rétt er að segja upphátt í siðuðu samfélagi. Svo geta þeir velt því fyrir sér hvort hugsanirnar þar að baki séu allar hollar og góðar.

Það má þó ekki síður vera þjóðfélagslegt umhugsunarefni, hvaða umræðu fólk er tilbúið til þess að sitja undir, hlýða á og láta óátalda. Rétt eins og spurt er hvers vegna sumir við borðið á Klaustri létu sorann eiga sig, létu vera að segja nokkuð ruddalegt, en létu líka vera að segja borðfélögunum að gæta tungu sinnar.

Við eigum að ætlast til háttvísi af þingmönnum og æðstu stjórnendum þjóðarinnar og við eigum ekki að umbera dónaskap af þeirra hálfu. En við eigum líka að gera sömu kröfur til sjálfra okkar og fólksins í kringum okkur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.