*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Leiðari
11. janúar 2019 14:21

Klofin forysta

Hvers vegna ákváðu sum stéttarfélög að vísa sínum málum til ríkissáttasemjara en önnur ekki?

Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa fundað regluega með ráðherrum í ráðherrabústaðnum.
Haraldur Guðjónsson

Mjög áhugaverð staða er komin upp í kjaraviðræðunum. Verkalýðshreyfingin er klofin í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA). Fyrir jól, eða þann 21. desember, vísuðu VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) deilu sinni til ríkissáttasemjara. Þó ákvörðunin hafi í sjálfi sér ekki komið á óvart í ljósi þess hvernig þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, hafa talað í aðdraganda samninganna, þá var þetta óvenjuleg ákvörðun, svo ekki sé sterkara að orði komist. Hún var meðal annars óvenjuleg að því að leyti að kjarasamningar við SA voru enn í gildi þegar ákvörðun um að vísa viðræðum um nýjan samning til sáttasemjara var tekin. Þetta er fáheyrt.

Efling og VLFA eiga bæði aðild að Starfsgreinasambandinu (SGS) en afturkölluðu samningsumboðið frá sambandinu. VR er síðan eina aðildarfélag Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV) sem semur sjálft. Hin tíu aðildarfélög Landssambandsins hafa falið því að semja fyrir sína hönd.

VR, Efling, og VLFA lúta nú stjórn ríkissáttasemjara í sínum samningaviðræðum. Síðan deilunni var vísað til hans hafa farið fram tveir fundir og sá næsti verður á miðvikudaginn. Á tæpum þremur vikum hefur því verið fundað tvisvar. Á meðan fundar Starfsgreinasambandið, Landssamband íslenskra verslunarmanna og iðnaðarmannafélögin nánast daglega með SA.

Kröfugerðir Starfsgreinasambandsins og VR eru nánast samhljóða, sem þýðir að kröfugerðir allra þeirra félaga sem minnst hefur verið á hér eru eins. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvers vegna ákveðin stéttarfélög ákváðu að vísa sínum málum til ríkissáttasemjara en önnur ekki. Var það vegna þess að SA sýndi engan samningsvilja? Greinilega ekki, því annars hefðu væntanlega Starfsgreinasambandið, LÍV og iðnaðarmenn líka farið þá leið að vísa sínum málum til sáttasemjara en það gerðu þau ekki þrátt fyrir að byggja sínar viðræður á sömu kröfugerðum og VR, Efling og VLFA.

Svarið við fyrri spurningunni liggur reyndar í augum uppi. Ástæðan fyrir því að VR, Efling og VLFA vísuðu sínum málum til ríkissáttasemjara er sú að nú geta félögin, hvenær sem er, lýst yfir árangurslausum viðræðum og óskað eftir verkfallsheimild. Ákvörðun forsvarsmanna þessara félaga fyrir jól ber vitni um mikinn átakavilja. Það er leiðinlegt að segja það en þeir virðast því miður líta með glampa í augum til gömlu tímanna – árin fyrir þjóðarsáttina 1990. Þeir gleyma því hins vegar að þá var verðbólgan hér mæld í tugum prósenta og markmið þjóðarsáttarinnar var að ná henni niður í 6%. Þetta fólk er af gamla skólanum sem áttar sig ekki á því að þessi tími er sem betur fer liðinn.

Auðvitað eiga forsvarsmenn stéttarfélaga að reyna til þrautar að ná samningum áður en þeir vísa málum sínum til ríkissáttasemjara, hvað þá boða til verkfalla. Þeir eiga að bjóða sínum félagsmönnum að kjósa um samning. Ef þeir fella hann í kosningum þá er eðlilegt að fá ríkissáttasemjara til að miðla málum. Verkfallsvopnið er tvíeggja sverð. Vissulega bitna verkföll á fyrirtækjum en þau bitna líka á starfsmönnum þeirra og einna helst þeim sem minnst mega sín — þeim sem minnst hafa á milli handanna.

Nú eru Landssamband íslenskra verslunarmanna, Starfsgreinasambandið og iðnaðarmenn að velta fyrir sér að vera í samfloti í kjaraviðræðunum. Vonandi gengur það eftir. Samtök atvinnulífsins eiga að leggja allt kapp á að ná samningum við þessi félög. Það væri rökrétt vegna þess að þau hafa sýnt samningsvilja.

Það ríkir mikil óvissa á íslenskum vinnumarkaði núna. Hún er ekki síst tilkomin vegna þess að íslenska samningsmódelið er úr sér gengið. Það er aldrei neinn núllpunktur í viðræðunum, menn koma til borðsins án þess að hafa komið sér saman um hvaða svigrúm er til launahækkana.

Fyrir nokkrum árum var mikil vinna lögð í að skoða norræna samningsmódelið og strax eftir að þessari samningslotu lýkur á að halda þeirri vinnu áfram. Hér hefur alltof mikil áhersla verið lögð á nafnlaunahækkanir og hefur sú leið fyrst og síðast skilað sér í verðbólgu. Frá þjóðarsátt hafa laun hækkað um ríflega 400% en á sama tímabili hefur kaupmáttur aðeins aukist um 75%. Það er bersýnilega eitthvað mikið að.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is