*

föstudagur, 28. janúar 2022
Óðinn
12. janúar 2021 07:23

Klúður Svandísar og björgunarpakki Kára

Er einhver ástæða hafa lyfjaeftirlit á Íslandi heldur spara verulega fjármuni og treysta á mat erlendra lyfjaeftirlita?

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók á móti fyrsta skammtinum af bóluefni sem dugði til að bólusetja nokkur þúsund manns.

Umræðan um bóluefni gegn COVID-19 er kostuleg á Íslandi. Það er ljóst að heilbrigðisyfirvöld brugðust þegar kom að því að útvega Íslendingum bóluefni. Það er sérstakt að ríkisstjórn þar sem allir stjórnarflokkarnir eru mótfallnir inngöngu í Evrópusambandið leggi svo mikið traust og svo mikla trú á þetta misheppnaða miðstýrða apparat sem minnir helst á stjórnarhættina í Sovétríkjunum.

                                                                      ***

Það er ekki nóg með að við Íslendingar séum ósáttir yfir því hvernig haldið hefur verið á bóluefnamálinu af hálfu okkar ráðamanna og Evrópusambandsins, heldur fer þrýstingur á ríkisstjórnir aðildarlandanna vaxandi. Ekki síst í Þýskalandi.

                                                                      ***

Reiði í Þýskalandi

Stefan Kaiser, fréttastjóri viðskiptafrétta hjá Der Spiegel, skrifaði á vef tímaritsins sem birtist á sunnudag. Fyrirsögnin er Europas fataler Geiz á frummálinu eða Lífshættuleg níska Evrópusambandsins.

    Stefan segir m.a. í greininni:

Í sumar þegar smittölur voru lágar miðað við núna og panta þurfti nógu mikið af bóluefni við COVID-19 til að vera tilbúin þegar faraldurinn versnaði á ný komust aðildarríkin 27 reyndar að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að panta sameiginlega fyrir þau öll í stað þess að senda hvert og eitt ríki í baráttuna. Það sem síðan gerðist var hins vegar lífshættulegt: Í samningunum við bóluefnaframleiðendurna samdi ESB af sér. Þau mistök munu nú í vetur þegar faraldurinn hefur náð hámarki ekki bara kosta mörg mannslíf heldur einnig mjög mikið af peningum. Og það mun gerast þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi í raun með sínum póker eiginlega ætlað að spara peninga - þannig verður maður í það minnsta að túlka það sem hingað til hefur komið fram."

                                                                      ***

Stefan segir að Evrópusambandið hafi pantað 2 milljarða skammta af bóluefnum frá sex framleiðendum sem var mun minna en til að mynda Bandaríkin gerðu. Kostnaðurinn af því að panta mun meira af bóluefni hefði verið hlægilegur miðað við það efnahagslega tjón, sem kórónukreppan veldur.

Hann segir að ef Evrópusambandið hefði pantað 900 milljónir skammta hjá Biontech, Moderna og AstraZeneca, hefði það verið nóg til að bólusetja hvern borgara sambandsins tvisvar með hverju bóluefni. Enn fremur segir hann að það hefði, samkvæmt verði sem belgíski neytendaráðherrann gaf upp, kostað samtals um 26 milljarða evra  fyrir allt Evrópusambandið.

                                                                      ***

Gríðarlegt tjón

Til samanburðar eru útgjöld þýska ríkisins í aðstoð við fyrirtæki, sem hafa neyðst til að loka í Þýskalandi, rúmlega 30 milljarðar evra bara í nóvember og desember. Samkvæmt mati Rannsóknastofnunar um vinnumarkaðs- og atvinnumál ( Institut für Arbeitsmarkt- und Berufsforschung) tapar þýska hagkerfið 3,5 milljörðum evra í hverri viku sem harðar aðgerðir eru í gildi.

                                                                      ***

Stórtíðindi - sem næstum allir vissu

Til að dreifa athyglinni frá mistökum heilbrigðisyfirvalda hér á landi hafa Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra báðar sagt að það sé ótrúlegt hvað tekist hafi fljótt að finna upp bóluefni gegn veirunni - eins og það séu einhver stórtíðindi. Það hefur nefnilega verið rætt um það alveg frá því í sumar að bóluefni yrðu til um áramót. Fylgdust þessir ráðherrar Vinstri grænna ekkert með fréttum?

Einnig hefur verið rætt um að veita bóluefnum bráðaleyfi áður en Evrópska lyfjastofnunin samþykkir þau. Á morgunvaktinni á þriðjudag taldi Svandís þetta ekki skynsamlegt og sagði að „það væri að mati Lyfjastofnunar og sóttvarnalæknis mjög óráðlegt að kljúfa sig út úr með þessu móti því þá stæðum við svolítið ein hvað þetta varðar". 

                                                                      ***

Ónauðsynleg Lyfjastofnun?

Það kann vel að vera að óskynsamlegt sé að vera með sérstakt lyfjaeftirlit hér á landi vegna bóluefnisins en þá hlýtur sú spurning að vakna hvort við eigum ekki allt eins að taka mark á bandaríska lyfjaeftirlitinu frekar en því evrópska. Enn stærri spurning vaknar líka. Er einhver ástæða yfir höfuð að hafa nokkurt lyfjaeftirlit á Íslandi heldur spara verulega fjármuni og treysta á mat erlendra lyfjaeftirlita?

                                                                      ***

Hjá Lyfjastofnun starfa 72 manns samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar. Rekstrarkostnaður stofnunarinnar verður 873 m.kr. samkvæmt fjárlögum 2021.

Í 1. mgr. 3. gr. lyfjalaga er fjallað ítarlega um hlutverk Lyfjastofnunar. Þar kemur fram að hlutverk stofnunarinnar sé að meta lyf og aðrar vörur sem undir lyfjalög heyra í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Þá er í ákvæðinu kveðið á um að stofnunin eigi að annast útgáfu, breytingu, niðurfellingu og afturköllun markaðsleyfa lyfja og leyfa til samhliða innflutnings lyfja og afgreiða umsóknir um leyfi til að flytja inn og selja gegn lyfseðli lyf sem ekki hafa markaðsleyfi hér á landi. 

                                                                      ***

Lyfjastofnun hefur fleiri verkefni með höndum en það er ljóst að ef við myndum framselja samþykktarvaldið til evrópsku lyfjastofnunarinnar í öllum málum, eins og verið er að gera með bóluefnin, þá væri hægt að skera þessa stofnun verulega niður. Ekki er hægt að skilja heilbrigðisráðherra á annan veg en að þessi stofnun sé ónauðsynleg í núverandi mynd.

                                                                      ***

Milljarður á dag

Halli ríkissjóðs verður um milljarður króna á dag í ár. Auðvitað væri auðvelt að draga úr þessum halla með niðurskurði á ónauðsynlegum stofnun, líkt og í tilfelli Lyfjastofnunar. Tapið þessa dagana er án ef enn meira en milljarður þar sem stór hluti atvinnulífsins er lamaður. Hins vegar er tap þjóðarbúsins miklu hærra.

Samkvæmt fjárlögum er kostnaður vegna bóluefna 1,4 milljarðar króna. Er það miklu minna en tap þjóðarbúsins á einum degi. Líklega hafa íslenskir hagsmunir aldrei verið jafn illa varðir í sögunni, nema ef ske kynni í Icesave málinu forðum. Kári Stefánsson og félagar hans í Decode ættu að kanna hvort slík mistök gangi í erfðir.

                                                                      ***

Það eina sem getur bjargað ráðherrum Vinstri grænna, og ríkisstjórninni, í þessu máli er að fyrrnefndum Kára takist að útvega þjóðinni allri bóluefni fyrr en seinna, en ekki fyrr eða síðar eins og áætlunin Svandísar gengur út á.

Þá væri tilefni til að hylla Kára sem þjóðhetju líkt og InDefencehópinn í Icesave-málinu. 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.