*

laugardagur, 4. júlí 2020
Leiðari
20. júní 2020 18:01

Klukkan tifar hjá Icelandair

Munu ríkisbankarnir koma til móts við rekstrarvanda Icelandair með því að breyta skuldum í hlutafé?

Haraldur Guðjónsson

Erfiðlega hefur gengið hjá forsvarsmönnum Icelandair að hnýta alla lausa enda fyrir hlutafjárútboð. Á hluthafafundi félagsins, sem haldinn var 22. maí síðastliðinn, var gefið út að stefnt væri að samningar næðust við kröfuhafa og ríkið mánudaginn 15. júní. Tveimur vikum síðar átti 30 milljarða króna hlutafjárútboð að fara fram. Fyrir helgi var ljóst að þetta myndi ekki takast enda sendi félagið tilkynningu til Kauphallarinnar á mánudaginn, þar sem fram kom að áætlun hefði verið uppfærð og að nú væri gert ráð fyrir að samkomulag við alla samstarfsaðila vegna endurskipulagningar á fjárhag félagsins myndi liggja fyrir þann 29. júní. Þetta þýðir væntanlega að hlutafjárútboðið sjálft verður ekki haldið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan júlí.

En hvaða lausu endar eru þetta sem félagið á eftir að hnýta? Viðræður við leigusala, lánardrottna, birgja og aðra viðskiptavini um greiðslufresti, skilmálabreytingar og breytingu skulda í hlutafé eru flóknar enda þarf að draga marga að borðinu. Ekki hefur náðst niðurstaða í viðræður við Boeing um bætur og afhendingu 737 MAX flugvélaflotans. Samningar við ríkið um lánalínur og ríkisábyrgð hanga á því að niðurstaða fjárhagslegrar endurskipulagningar og hlutafjárútboð takist. Að lokum þá er enn ósamið við flugfreyjur og ekki nóg með það heldur er kjaradeilan í algjörum hnút.

Icelandair hefur þegar samið við flugmenn og flugvirkja og því sætir furðu að ekki hafi náðst lending í samningum við flugfreyjur. Þó að fjárhagsstaða Icelandair hafi vissulega verið sterk á síðustu árum þá gagnast það lítið ef viðvarandi taprekstur er á starfseminni - líkt og komið hefur í ljós á síðustu mánuðum. Ein af grunnforsendum áframhaldandi reksturs Icelandair er að kostnaður verði lækkaður. Á einhverjum tímapunkti þurfa flugfreyjur að horfast í augu við þessa staðreynd, sem og þann möguleika að félagið sigli einfaldlega í þrot.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að mjög langt sé á milli samningsaðila í kjaradeilunni. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér á mánudaginn sagði að ef ekki næðust samningar við helstu aðila myndi „þurfa að skoða aðrar leiðir til að ljúka endurskipulagningu". Þegar Bogi Nils er inntur svara við því hvaða „aðrar leiðir" sé verið að tala um segist hann ekki geta úttalað sig um það en bætir við: „Leiðin sem við leggjum upp með núna er sú sem við teljum að sé langfarsælust fyrir starfsmenn, hluthafa, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Takist ekki að feta hana verður að skoða hvaða leiðir og lagalegu úrræði eru til staðar." Þetta er áhugavert svar.

Ljóst er klukkan tifar hjá Icelandair. Þó að viðræður við íslensk stjórnvöld vegna mögulegrar lánalínu eða tryggingar séu á áætlun er enn mikið verk enn óunnið til að tryggja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar. Það er ekkert leyndarmál að einir stærstu lánardrottnar félagsins eru ríkisbankarnir tveir, Landsbankinn og Íslandsbanki. Lánveitingar þeirra nema væntanlega vel á annan tug milljarða króna. Morgunblaðið greindi frá því á sínum tíma að lán Landsbankans hefði verið veitt gegn veði í tíu Boeing 757 þotum, sem í dag eru verðlitlar. Vekur þetta óneitanlega spurningar um það hvort ríkisbankarnir tveir séu hluti af „aðgerðarpakka" stjórnvalda og þá með breytingu skulda í hlutafé. Það kæmi ekki mjög á óvart ef eitthvað slíkt væri á teikniborðinu.

Það liggur að minnsta kosti fyrir að hagsmunir Icelandair eru samtvinnaðir hagsmunum íslenska ríkisins, ekki bara að þessu leyti heldur einnig hvað varðar samgöngur til og frá landinu. Margir eru hins vegar þeirrar skoðunar að farsælast væri að stofna nýtt félag á grunni hins gamla. Fordæmi eru fyrir slíku og má sem dæmi að svissneska ríkið kom Sviss Air ekki til aðstoðar í byrjun aldarinnar heldur var nýtt flugfélag, Swiss Airlines, stofnað á grunni innanlandsflugfélagsins Crossair. Enn aðrir eru á því að ný félög geti vel tekið við keflinu af Icelandair. 

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 17. júní.  

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.