*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Huginn og muninn
16. febrúar 2020 08:02

Klyfjaður krónum

Kínverji með 170 kíló af klinki vakti mikla athygli þegar hann reyndi að skipta krónunum en var stöðvaður.

Seðlabanki Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Innflutningur Kínverjans Wei Li á 170 kg af klinki hefur hlotið verðskuldaða athygli, en hann var með um 1,6 milljónir króna í hundraðköllum í farteskinu, sem Seðlabankinn vildi svo ekki skipta.

Skýringar Wei eru mistrúverðugar. Hafa hrafnarnir heyrt að hér sé sennilega um að ræða mynt, sem Seðlabankinn tók úr umferð og sendi til förgunar. Hugsanlega verður það bankanum tilefni til eins og eins símtals til endurvinnsluþjónustu sinnar. Nema auðvitað það sé Sorpa, það þýðir ekkert að tala við þau um peninga. Hins vegar vekur það auðvitað spurningar um árvekni hins fjölmenna gjaldeyriseftirlits bankans ef maður klyfjaður peningapokum fullum af aflandskrónum valsar inn í landið án þess að nokkur taki eftir því fyrr en hann dinglar hjá bankanum. Hvað þá á þessum dögum þegar ferðabann er í gildi í Kína og þetta fjölmennasta land heims nánast í sóttkví. Hrafnarnir hafa af því þungar áhyggjur af séu sóttvarnir ekki betri en þetta og krónuveiran er komin til Íslands.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.