*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Týr
19. maí 2019 09:00

Kóngar tveir

Erindi Mervyn King er þörf áminning um mikilvægi þess að söguskoðun Íslendinga á „Hruninu“ verði endurskoðuð.

Mervyn King, fyrrum bankastjóri Englandsbanka, talaði fyrir fullum Hátíðarsal í Háskóla Íslands á dögunum.
Haraldur Guðjónsson

Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, var gestur á fundi Samtaka sparifjáreigenda og Háskóla Íslands í liðinni viku, og auðvitað ræddi hann fjármálakreppuna, sem hófst árið 2008 og Íslendingar nefna „Hrunið“, líkt og Ísland hafi orðið fyrir einstökum skakkaföllum, sem aðrir hafi sloppið við. Það er nú öðru nær, því Ísland er eitt fárra ríkja sem eru fyrir löngu laus úr fjármálakreppunni.  

Þá reyndi mjög á King, en um það hefur hann meðal annars fjallað um í hreint ágætri bók, The End of Alchemy (Endalok gullgerðarlistarinnar), sem út kom árið 2016, en hann hefur líka verið ófeiminn við að nefna – bæði opinberlega og í einkasamtölum – að Íslendingar hafi verið grátt leiknir af nágrönnum sínum og bandamönnum þessa eymdardaga fyrir rúmum áratug.  

Það er sjálfsagt athyglisverðast í orðum Kings í liðinni viku, að hann sagði heiminn geta lært margt af viðbrögðum Íslendinga við „hruninu“ 2008. Sú aðferð að láta bankana falla í stað þess að láta skattborgara bera ábyrgð á þeim með beinum hætti – líkt og víðast var gert – hefði verið gagnlegri, skjótvirkari, hreinlegri og laus við freistnivandann, sem enn væri víðast óleystur.  

Þetta er allt rétt. Það hefur verið viðtekin skoðun á Íslandi, að benda megi á tiltekna hrunvalda og kenna þeim um hvernig fór. Vissulega hegðuðu sér ekki allir skynsamlega í aðdraganda „hrunsins“, sumir beinlínis ranglega. Í því samhengi hafa sumir sérstaklega bent á Davíð Oddsson, fyrrverandi Seðlabankastjóra, jafnan af pólitískum ástæðum, En það er einstaklega ranglátt að kenna honum eða Seðlabankanum um. Þvert á móti hlýtur að fara að verða tímabært að taka þá sögu alla til endurskoðunar, því sannleikurinn er sá að Seðlabankinn stóð sig einstaklega vel í þeirri vargöld og brást eins vel við vandanum og vera mátti. Þar átti Davíð Oddsson ekki sístan hlut að máli og fyrir það á hann lof skilið, ekki last.  

Þetta er vert að hafa í huga nú þegar 16 hafa sótt um stöðu Seðlabankastjóra, en fæstir af þeim geta nú talist þeir yfirburðamenn, sem þjóðin þarfnast í það mikilvæga embætti. Meira um það síðar, en Týr getur eiginlega ekki gert að því að hann saknaði eins nafns á lista umsækjenda. Það hefði bæði mátt hafa af því gagn og gaman ef Davíð hefði sótt um.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.