Það var gaman að fylgjast með viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu í síðustu viku þegar Ráðhús Reykjavíkur fylltist af konum og körlum. Þó aðallega konum enda konur í aðalhlutverki á þessari hátíð. Ég fór á mína fyrstu kvennasamkundu þegar ég var í menntaskóla og við lögðum niður störf til að mótmæla kynbundnu launamisrétti. Þá fannst manni þetta hálfskondið og við sömdum lagið „Ég er kraftakelling, liggaligga lá, ég vinn alveg helling, liggaligga lá.“ Hverju sem svo sá texti skilaði sér í baráttunni. Það var því ólík upplifun að sjá konur verðlauna aðrar konur fyrir vel unnin störf.

Konur sem hafa náð langt í atvinnulífinu og hafa barist fyrir því að aðrar konur láti til skarar skríða. Það segja margir að konur séu hræddari við að segja já við tækifærunum sem bjóðast og vilja síður fara út fyrir þægindarammann. Það kom meira að segja fram á markþjálfunardeginum sem var haldinn í síðustu viku að 90% einstaklinga halda sig innan þægindarammans. Þetta á þá örugglega líka við þegar umræðan er tekin um óþægilegar staðreyndir. Flestir hafa myndað sér skoðun varðandi kynjakvóta og þá þarf ekkert að ræða það meir. Það skiptir engu máli í hvaða samhengi eða við hvaða aðstæður.

Margar konur sem sitja í stjórnum fyrirtækja hafa sagst verið mótfallnar því að taka upp kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Eftir að hafa hugsað það betur hefur skoðun þeirra breyst. Kynjakvótar verða kannski tímabundin leið til að ýta í burtu gamalgrónum viðhorfum og venjum, hver veit? Verður þessi aðgerð til þess að eyðileggja fyrir körlum? Ætli tíminn muni ekki leiða það í ljós. Það má hins vegar heyra það frá mörgum konum sem starfa í þessu umhverfi að betra sé að skoða hlutina í réttu samhengi. Ekki að ríghalda í sömu skoðun með eyrnatappana í eyrunum.

Pistill Eddu Hermannsdóttur birtist í Viðskiptablaðinu 7. febrúar 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild undir liðnum tölublöð hér að ofan.