*

fimmtudagur, 24. september 2020
Leiðari
19. mars 2020 18:05

Kórónu-aðstoðin

Allt stefnir í að stór hluti vinnandi fólks í landinu muni verða á launum hjá íslenska ríkinu í einhvern tíma.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er nú að setja saman aðgerðarpakka vegna heimsfaraldursins.
Eyþór Árnason

Ríkisstjórnin hefur boðað aðgerðapakka til að bregðast við efnahagsáföllum í kjölfar heimsfaraldursins sem nú geisar. Allt stefnir í að stór hluti vinnandi fólks í landinu muni verða á launum hjá íslenska ríkinu í einhvern tíma því á meðal þeirra aðgerða sem eru í farvatninu er að ríkið greiði laun til þerra sem eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar sem og að greiða bætur til starfsfólks sem mun lækka í starfshlutfalli vegna efnahagsástandsins.

Samkvæmt því sem þegar hefur verið kynnt áætlar ríkið að verja samtals um 1,5 milljörðum króna í þetta tvennt. Miðað við stöðuna og óvissuna sem ríkir í íslensku atvinnulífi er þetta líkast til bráðnauðsynleg aðgerð og verður afar forvitnilegt að sjá heildarpakkann sem ríkisstjórnin mun leggja fram, væntanlega í dag eða á morgun. Tíminn vinnur ekki með okkur í þessum efnum.

Seðlabankinn hefur tvisvar á einni viku brugðist við. Stýrivextir eru nú komnir í 1,75% og hafa ekki verið lægri síðan verðbólgumarkmið var formlega tekið upp árið 2001. Í janúar stóðu stýrivextir í 3% og fyrir 16 mánuðum í 4,5%. Samfara því að lækka stýrivexti ákvað Seðlabankinn í gær að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Verður þetta til þess að útlánageta bankanna eykst um 350 milljarða. Í síðustu viku lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu, sem jók útlánagetuna um 40 milljarða. Samtals hefur útlánagetan því aukist um 390 milljarða króna á einni viku. Mikil ábyrgð hvílir nú á bönkunum enda liggur fyrir að margir muni leita til þeirra á næstu dögum og vikum.

Seðlabankinn hefur stigið mjög afdráttarlaust fram. Vissulega eru til þeir sem segja að lækka hefði átt sveiflujöfnunaraukann fyrr en þó er erfitt að vera ósammála orðum seðlabankastjóra á fundinum í gær en þá sagði hann: „Ákvörðun um að hækka sveiflujöfnunaraukann var tekin fyrir rúmlega ári síðan, sem leiddi til þess að bankarnir hafa byggt upp eigið fé sem þeir geta notað núna. Rétti dagurinn til að gera við þakið er ekki þegar það rignir heldur þegar það er sól. Það hefur verið hárrétt ákvörðun hjá kerfisáhættunefnd að byggja upp þennan auka; núna getum við notað hann.“

Það er áhugavert að rifja upp viðtal við seðlabankastjóra sem birtist í bókinni 300 stærstu í nóvember síðastliðnum en ritið er gefið út af Frjálsri verslun. Þar sagði Ásgeir: „Horfurnar eru tiltölulega góðar – þó það verði einhver samdráttur á þessu ári. Að þessu sögðu þá óttast ég reyndar að þetta sé of gott til að vera satt og að þessar jákvæðu spár gangi ekki eftir. Sérstaklega hef ég áhyggjur af erlendum efnahagshorfum sem gætu haft áhrif á ferðaþjónustuna hér heima. Hins vegar mun ríkisfjármálastefnan einnig geta spilað stórt hlutverk – svigrúm er fyrir aukin ríkisútgjöld.“

Þvi miður virðist þetta hugboð seðlabankastjórans vera að rætast þó vafalaust séu ástæðurnar allt aðrar en hann hefði getað gert sér í hugarlund.

Það er sannarlega svigrúm fyrir aukin ríkisútgjöld og síðdegis í gær greindi Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, frá því að hann hefði lagt fram frumvarp til laga um „samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir“. Heitið er framsóknarlegt en tilgangurinn er að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum, bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. Áætlað er að samvinnuverkefnin geti skapað allt að 4.000 ársverk en til samanburðar voru um 7.000 manns atvinnulausir í lok síðasta mánaðar.

Í krísum eru oft teknar ákvarðanir án mikillar umræðu. Er það raunin í þessu tilfelli því samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð. Umræðan um gjaldtöku hefur velkst um í kerfinu í mörg ár en nú er riðið á vaðið.

Að lokum þá hefur verið ánægjulegt að fylgjast með samstöðu þjóðarinnar undanfarnar vikur. Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eiga líka hrós skilið fyrir sín viðbrögð. Í öllum sínum ákvörðunum hefur þessi framvarðarsveit sýnt stillingu og skynsemi, sem smitast hefur út í þjóðfélagið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.