*

laugardagur, 18. september 2021
Óðinn
27. febrúar 2020 10:15

Kórónuveiran breiðist út um hagkerfið

Vanhæfnisviðbrögð möppudýra alræðisstjórnar kínverska kommúnistaflokksins snerta ekki Kína eitt.

Auð verslunarmiðstöð í Kína vegna Covid-19 veirunnar sem kennd hefur verið við Wuhan.
epa

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að ausa Hildi Guðnadóttur frekara lofi, en Óðinn ætlar nú samt að gera það. Hann var núna fyrst að láta verða af því að horfa á hina mögnuðu þáttaröð um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl, en þar á tónlist Hildar ekki lítinn þátt í að skapa andrúm ógnarinnar.

Ómstríð og ósamhljóma dró hún fram hinn falska tón, sem umvafði alræðisríkið í stóru og smáu og átti mestan þátt í því hvernig fór. Aldrei mátti horfast í augu við sannleikann, hvað þá segja hann upphátt, rétt eins og lygin væri markmið í sjálfri sér. Það var engin tilviljun að í upphafi þáttanna var spurt hvað lygin kostaði menn.

                                                           ***

Sú spurning er enn áleitin í ljósi undanbragða og fálmkenndra viðbragða kínverskra stjórnvalda þegar kórónuveiran fór fyrst að láta á sér kræla. Veira, sem á nokkrum vikum hefur nánast lamað þetta stóra og fjölmenna land, sem til skamms tíma virtist nánast óstöðvandi í efnahagssókn sinni og uppbyggingu.

                                                           ***

Þau vanhæfnisviðbrögð möppudýra alræðisstjórnar kínverska kommúnistaflokksins snerta ekki Kína eitt. Allur heimurinn hefur búið sig undir mögulega heimsfarsótt, sem hefði hugsanlega mátt halda í skefjum. Nú þegar hafa meira en tvö þúsund manns látist af völdum veirunnar, nær allir í Kína, meira en 75 þúsund hafa veikst en þar af eru um 12 þúsund þungt haldin, en ríflega 14 þúsund manns hafa náð bata.

                                                           ***

Kínastjórn segir fyrir sitt leyti að þrátt fyrir hömlur á ferðalög, hafi útbreiðsla sjúkdómsins verið óhjákvæmileg. Sem hljómar sennilega þar til rifjað er upp að kínversk stjórnvöld voru vöruð við veirunni í tæka tíð af lækninum Li Wenliang í borginni Wuhan, sem sá hverjar afleiðingarnar gætu orðið á heimsvísu. En hann sá ekki fyrir hverjar þær urðu fyrir hann sjálfan.

Fyrst var haft í hótunum við hann fyrir hræðsluáróður og heilbrigðisstarfsfólki sagt að halda sér saman , en síðan veiktist hann sjálfur og lést eftir skamma legu aðeins 34 ára gamall. Þar tapaðist ekki aðeins sá glöggi læknir, heldur heilar þrjár vikur, sem ekki voru notaðar til þess að gera ráðstafanir til að halda veirunni í skefjum.

                                                           ***

Dauði Li Wenliang hefur vakið gríðarlega reiði um gervallt Kína og valdhafarnir verið gagnrýndir með opinskárri hætti en menn hafa átt þar að venjast, jafnvel þannig að umboð stjórnarherranna og hæfni er dregin í efa. Og jú, það hafa sumir líkt leyndarhyggjunni og lyginni við það sem gerðist í Tsjernobyl.

                                                           ***

Veiran hefur mjög veikt stöðu Xi Jinping, forseta Kína, sem síðustu ár hefur tekið velflest völd í eigin hendur líkt og var meðan Maó formaður lifði. Xi hefur ekki aðeins verið sakaður um að valda ekki vandanum, heldur beinlínis verið hæddur fyrir að hlaupa í felur og láta undirsáta í kommúnistaflokknum vera í fyrirsvari vegna farsóttarinnar.

                                                           ***

Margir telja að ekki hafi þrengt jafn mikið að einræðisstjórninni síðan á Torgi hins himneska friðar fyrir rúmum þremur áratugum. Þeir óttast einnig að koðni andófið ekki niður verði það barið niður með ekki minni harðýðgi og blóðsúthellingum en þá.

Forsmekkinn af því hefur raunar þegar mátt sjá á fréttamyndum, þar sem lögregla í hlífðarbúningum hefur dregið fólk út af heimilum sínum vegna gruns um smit. Auðvitað vilja kínversk stjórnvöld stöðva farsóttina og uppræta, en fyrst og fremst vilja þau samt halda völdum, hvað sem það kostar.

                                                           ***

Það er hægara sagt en gert, því stjórnin í Beijing átti í nægum vandræðum fyrir, áður en kórónuveiran lét á sér kræla. Eins og menn eru að sjá betur og betur er það ekki aðeins mannfólkið, sem veikist sakir kórónuveirunnar, heldur á það ekki síður við um kínverskt efnahagslíf.

                                                           ***

Kínverska efnahagsundrið hefur verið í rénun undanfarin ár og raunar ýmislegt í fjármálalífinu verið að bresta, sem kallað hefur á margvísleg inngrip stjórnvalda og Alþýðubankans, sem er hið notalega nafn seðlabanka landsins. Viðskiptastríðið við Bandaríkin hefur ekki gert þeim auðveldara fyrir og er Donald Trump Bandaríkjaforseti þó engan veginn búinn að draga öll trompin fram.

Viðbrögðin við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa svo dregið fram helstu veikleikana í stjórnkerfi lyginnar og öfugt við það sem tíðkast í venjulegum löndum, virðist fyrsta ráðið enn vera valdbeiting. Svona í bland við það að þagga niður í innlendum fjölmiðlum og vísa erlendum blaðamönnum úr landi.

                                                           ***

Það hefur óhjákvæmilega víðtæk áhrif þegar stórum hlutum landsins er lokað af með valdboði, en hartnær hálfur milljarður Kínverja sætir nú ferðatakmörkunum af einhverju tagi. Þau víðtæku áhrif ná ekki aðeins til Kína, heldur til heimsins alls, einmitt vegna hnattvæðingarinnar og þess vallar sem Kínverjar hafa haslað sér í alþjóðaviðskiptum og framleiðslu á undanförnum tveimur áratugum. Um aldamót var hlutur Kína í heimsframleiðslunni innan við 4% en hann er nú um 20%. Sérhver röskun á hagvextinum þar hefur því mikil áhrif um jarðkúluna alla.

                                                           ***

Nú hafa stór landsvæði í Kína verið lokuð af síðan síðla janúar, en þau svæði hafa staðið undir um ⅔ landsframleiðslunnar. Við blasir að ekkert ríki þolir slík áföll án þess að það hafi verulegar afleiðingar, hvað þá um svo langan tíma. Það varðar ekki aðeins framleiðslugreinarnar eða hagvöxtinn, heldur er lánaboginn spenntur hátt og minnstu truflanir geta sett fjármálamarkaðinn þar úr öllum skorðum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

                                                           ***

Það er ekki aðeins svo að stór svæði séu lokuð hvert frá öðru og flutningavagnar fullir af vöru bíði þess eins að komast sína leið, því svæðin hafa mikið til verið fullkomlega lokuð. Atvinnulífið hefur allt lamast, þar sem fólk hefur haldið fyrir á heimilum sínum og alls óvíst hvenær það snýr þaðan aftur.

                                                           ***

Óljósar fregnir og upplýsingaþurrð gera það að verkum að menn þurfa að reiða sig mjög á óbeinar upplýsingar um gang mála í Kína. Það er í sjálfu sér ekki nýtt, hagtölur frá stjórnvöldum koma jafnan seint og þykja ekki áreiðanlegar. Sérfræðingar lesa því úr sjálfvirkum umferðarupplýsingum hjá landakortaþjónustum að fólk sé aðeins farið að halda aftur til vinnu, en hægt og ómögulegt að segja fyrir um hve skjótt hjól atvinnulífsins renna aftur af stað, jafnvel þó allt fari á besta veg.

Upplýsingar um netpantanir á skyndibitastöðum og kaffistöðum segja sömu sögu, í liðinni viku voru 83% veitingahúsa hjá Meituan-Dianping þjónustunni lokuð, en 87% kaffihúsa Luckin Coffee, sem er svar Kína við Starbucks. Eins merkja menn það af orkuneyslu og orkuverði að atvinnulífið er í besta falli í hægagangi.

                                                           ***

Út á við er áfallið þó líklega greinilegast í flugþjónustu, en það hefur nú þegar valdið meiri samdrætti á alþjóðavísu en hryðjuverkin í Bandaríkjunum, 11. september 2001. Meira en 10 milljónir flugsæta hafa farið í súginn innan og til og frá Kína, en engar nákvæmar áætlanir liggja fyrir um fækkunina af völdum veirunnar utan þess.

                                                           ***

Stafrænar upplýsingar um fasteignasölu benda í sömu átt, aðeins enn eindregnar. Þar hefur salan varla hreyfst eftir kínverska nýárið í lok janúar, nær ekki 10% af því sem vant er í 30 stærstu borgum Kína. Það er ekki aðeins vísbending um stöðuna vegna veirunnar, heldur um komandi fjárhagsáföll.

Byggingaverktakar í Kína fjármagna sig mjög í dollurum á fjármálamarkaði í Hong Kong og reiða sig ákaflega á söluveltu til afborgana. Verktakar sem voru í þrengingum fyrir (með meira en 15% lánakostnað) eiga að standa í skilum með 2,1 milljarða aflandsdollara í Hong Kong í næsta mánuði einum. Það gera þeir ekki hjálparlaust.

                                                           ***

Fréttir frá Apple um að fyrirhuguð kynning og framleiðsla á næstu gerð síma kunni að tefjast vegna ástandsins í Kína, en það á við um aðfangakeðjur um heim allan, til bílaframleiðenda í Þýskalandi jafnt og byggingarverktaka í Ástralíu. Hið sama á við um ótal greinar á Vesturlöndum, sem hafa reitt sig á kínverska viðskiptavini. Því hefur íslensk ferðaþjónusta fengið að kynnast mjög harkalega síðustu vikur og eins eru fjölmargir háskólar í Bandaríkjunum og Evrópu óvænt með hálftóma stúdentagarða og fjárhagsáætlanir allar brostnar.

                                                           ***

Hinn alþjóðlegi bílaiðnaður er ákaflega háður íhlutum héðan og þaðan, en þar hafa kínversk fyrirtæki sérstaklega rutt sér rúms undanfarin ár. Kóresku framleiðendurnir Hyundai, Kia, og Ssangyong hafa þegar þurft að loka bílaverksmiðjum af þeim sökum, Nissan í Japan hefur lokað nokkrum framleiðslulínum og það er dagaspursmál hvenær fyrstu evrópsku bílaframleiðendurnir neyðast til hins sama. Verksmiðjur VW, BMW, Honda og Toyota í Kína eru enn lokaðar.

                                                           ***

Áhrifanna gætir ekki síður í flutningum og á hrávörumarkaði. Skipaskrá Lloyds sýnir að farmgjöld olíuflutningaskipa hafa hrunið á leiðinni frá Persaflóa til Kína, eru nú 14% af því sem þau voru um miðjan janúar! Þróunin er svipuð í öðrum farmsiglingum.

Velflestar hafnir í Kína mega heita lokaðar, svo jafnvel þó að varan lægi fyrir, þá kæmist hún hvorki lönd né strönd, áhafnaskipti og gámaáætlanir öll úr lagi gengin, svo bjartsýnustu menn gera ráð fyrir örðugleikum út annan ársfjórðung hið minnsta.

Nú þegar berast fréttir af skipum dólandi fyrir landi í Austur-Asíu, komast hvergi í höfn og kosturinn að verða búinn. Þá hefur lokun nánast allra slippa í Kína haft gríðarleg áhrif, viðgerðir og viðhald skipa um stóran hluta Suðaustur-Asíu er í uppnámi og útgáfa haffærisskírteina sömuleiðis.

                                                           ***

Áhrif á orkumarkað vegna flutninga á olíu og gasi eru rétt að koma í ljós, en þau munu víðar koma fram en í Asíu fyrr en varir. Áhrif á álmarkaðinn, sem Íslendingar hafa sérstakan áhuga á, munu þannig ekki vera á eina leið. Hrávörumarkaðurinn allur hefur raunar verið í frjálsu falli og ekki lent í öðrum eins hremmingum frá því í fjármálakreppunni 2009.

Þar hefur eftirspurn hríðfallið á velflestum mörkuðum, en þess sér enn helst stað á eldsneytismarkaði, þó nokkrar vonir standi til þess að verðið sé að verða stöðugra. En það þarf ekki mikið til þess að það falli enn á ný. Brent-hráolía er í um 60 dollarar fatið þegar þetta er ritað, en komi til frekari áfalla eystra gæti það hæglega helmingast.

                                                           ***

Vandi kínverskra stjórnvalda er að ef Xi situr fastur við sinn keip um að loka stórum hlutum landsins, þá geta stjórnvöld ekki beitt hefðbundnum ráðum til þess að örva atvinnulífið. Það er ekki til neins að dæla peningum til þess ef fyrirtækin eru meira og minna lokuð, starfsfólkið heldur kyrru fyrir heima hjá sér og afurðirnar komast ekkert. Meðan heilu héruðin og borgirnar eru í sóttkví hafa fyrirtækin engin ráð með að koma peningunum í lóg.

                                                           ***

Hið eina sem stjórnvöld í Beijing geta í raun gert er að auka peningamagnið um Alþýðubankann, skipa bönkum og lánastofnunum hins opinbera að halda áfram að lengja í lánum og falla eina ferðina enn frá fögrum fyrirheitum um aukna ábyrgð á fjármálamarkaði. Yfirlýsingar um að atvinnulífið þar sé engan veginn undir handarjaðri ríkisvaldsins verða enn holari en áður og það er ekki kostnaðarlaust frekar en lygin, sem minnst var á í upphafi.

                                                           ***

En það getur komið í veg fyrir ógnvænlega gjaldþrotahrinu og að kínverska lánabólan springi með braki og brestum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hagkerfi heimsins. Það er þó eitthvað. Hins vegar mun úr þessu ekkert koma í veg fyrir að það hægist verulega á hagkerfinu í Kína. Það standa talsverðar vonir til þess að takast muni að aftra kórónuveirunni að breiðast út um heimsbyggðina, en efnahagslegar afleiðingar hennar forðumst við varla.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 27. febrúar 2020. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Kína hagkerfi Kína Xi Jinping Wuhan Covid-19
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.