*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
16. apríl 2018 18:01

Kosningar í aðsigi

Degi B. Eggertssyni borgarstjóra hefur tekist að aftengja sig stjórn Reykjavíkurborgar, eins og honum komi vandræðin ekki við.

Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri í Reykjavík í krafti meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Bjartrar framtíðar.
Haraldur Guðjónsson

Eins og menn vita verða sveitarstjórnakosningar í vor, hinn 26. maí nánar til tekið. Það er langt síðan stjórnmálaflokkarnir settu sig í stellingar, tóku að stilla upp listum og kynna helstu stefnumál, en samt var það nú svo að blessuð kjósöndin virtist kæra sig kollótta.

Fjölmiðlar hófu að gera skoðanakannanir strax upp úr áramótum, en samt var það nú svo að fylgið virtist ekki hreyfast, sama hvað frambjóðendur sprikluðu. Það virtist eiga við víðast hvar á landinu, en auðvitað stendur stóri slagurinn um höfuðborgina og það er þar, sem menn hafa helst keppst við að mæla fylgið, með frekar dræmum árangri.

                                  ***

Týr tók eftir því að helstu rótarar stjórnmálaflokkanna töluðu mikið um það fyrir nokkru hvernig þeir ætluðu að koma sínum málum á rekspöl fyrir páskana. Mjög mikilvægt að vinna þjóðmálaumræðuna í fermingarveislum og páskaboðum, sögðu þeir íbyggnir. Samt var það nú svo að yfir þeim stöflum brauðtertna og rækjusalata sem Týr gúffaði í sig í faðmi ýmissa skoðanaglaðra fjölskyldna hafði ekki nokkur maður orð á pólitíkinni.

                                  ***

Eða jú. Menn töluðu um svifryk og sóðaskap, umferðarteppur og leikskólamál, húsnæðisvandann og ferðaiðnaðinn, en hið merkilega er að fáir virtust tengja það stjórnmálum sérstaklega og allra síst yfirvofandi kosningum. Að því leyti virðist Degi B. Eggertssyni borgarstjóra hafa tekist það listilega að aftengja sig stjórn Reykjavíkurborgar, svona eins og honum komi þessi vandræði ekki við nema þegar klippa þarf á borða, spæna í sig snittum í Höfða eða kynna sömu glærurnar með sömu óefndu loforðunum eina ferðina enn.

                                  ***

Það er nú verra fyrir Reykvíkinga, því auðvitað skiptir það máli hverjir eru við stjórnvölinn, hvernig þeim hefur tekist upp og að þeir séu ábyrgir gagnvart kjósendum. Enn verra er þó ef borgararnir líta orðið á augljósan og aðsteðjandi vanda sem óleysanleg viðfangsefni andlitslausra embættismanna en borgarstjórinn stikkfrí.

Þannig er það auðvitað ekki, þetta eru verkefni sem sveitarstjórnir um allt land, nei um heim allan, fást við alla daga, öll ár, og þó þau séu ekki auðveld, þá valda þær þeim flestar. Nema í Reykjavík. Þess vegna liggur á því að breyta til í borginni, því allt það sem Degi hafa ekki enst átta ár til þess að gera eða laga, það mun honum aldrei auðnast.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.