*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
5. mars 2021 13:52

Kosningaskjálftinn

Ef til vill er hinn þögli meirihluti orðinn þreyttur á upphrópunum um kapítalista og kommúnista - góða fólkið og spillta auðvaldið.

Haraldur Guðjónsson

Á sama tíma og fádæma jarðhræringar setja mark sitt á íslenskt samfélag, stigmagnast annars konar skjálfti. Farið er að bera á hinum fyrirsjáanlega kosningaskjálfta sem alla jafna gerir vart við sig á fjögurra ára fresti. Líkt og alkunna er verður gengið til alþingiskosninga í haust en ljóst má vera að nýrrar ríkisstjórnar bíða ærin verkefni þar sem mikið er undir, enda mun árangur viðspyrnu efnahagslífsins ráða miklu um lífskjör þjóðarinnar á næstu árum.

Í aðdraganda kosninga fara stjórnmálaflokkar jafnan af stað með áherslumál sín í forgrunni, en eftir því sem kosningaskjálftinn magnast hafa málefnin gjarnan fallið í sprungur og stjórnmálamenn í skotgrafir, illu heilla.

Stjórnmálaflokkum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og atkvæði kjósenda dreifst meira eftir því. Minna fer fyrir ráðandi blokkum sem í krafti stærðar sinnar geta ráðið ferð eftir sínu höfði og að öðru óbreyttu heyra slíkar blokkir sögunni til. Þessi þróun hefur gert það að verkum að samstarf flokka með ólíkar áherslur er því sem næst óumflýjanlegt.

Hér á landi búum við þó svo vel að almennt er töluvert styttra milli hægri og vinstri arma stjórnmálanna en víða annars staðar. Þegar kjarninn er skilinn frá hisminu kemur í ljós að í grunninn viljum við flest það sama. Við viljum að hér sé öflugt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi, öflugt menntakerfi, blómlegt atvinnulíf, arðbær sjávarútvegur, traust ríkisfjármál, traust stjórnarskrá og að einstök náttúra landsins sé varðveitt, svo fátt eitt sé nefnt. Pólitískur ágreiningur snýst því tæpast um hvert við viljum stefna, heldur hvaða leið skal farin.

Við erum þannig í góðri stöðu til að byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða, líkt og dæmin sanna. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks teygir sig frá vinstri, yfir miðju og til hægri og hefur flokkunum tekist ágætlega að byggja málefnalegar brýr sín á milli. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafa um árabil myndað meirihluta saman í Mosfellsbæ, jafnvel þegar Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta. Á Akureyri tóku allir flokkar í bæjarstjórn höndum saman við að mæta áskorunum kórónuveirufaraldursins.

Það hefur enda virst falla vel í kramið hjá þjóðinni þegar flokkar hafa slíðrað sverðin og tekið höndum saman við úrlausn verkefna. Ef til vill er hinn þögli meirihluti orðinn þreyttur á fyrirsagnapólitík, hvar skórinn er níddur af pólitískum andstæðingum við hvert tækifæri en minna fer fyrir tillögum að úrbótum. Langþreyttur á upphrópunum um kapítalista og kommúnista, góða fólkið og spillta auðvaldið, og að hér sé allt að hruni komið.

Stjórnmálamenn sem stunda upphrópanapólitík og týna sér í niðurrifi án þess að leggja nokkuð af mörkum í málefnalegri umræðu eru ekki aðeins gagnslausir, heldur má færa rök fyrir því að þeir séu beinlínis skaðlegir. Málefnaleg umræða milli einstaklinga með ólík sjónarmið er verðmæt og þroskandi, enda getur enginn einn flokkur verið handhafi sannleikans. Málefnaleg og gagnrýnin umræða er forsenda framfara, en upphrópunarstjórnmál sem draga athyglina stöðugt frá því sem raunverulegu máli skiptir eru fyrirstaða þeirra.

Í komandi kosningum liggur mikið við og er mikilvægara sem aldrei fyrr að kosningarnar snúist um málefnin og að þau kafni ekki í klisjum og kreddum. Óskandi væri að í forgrunni verði framtíðarsýn og hugmyndir að lausnum við þeim fjölmörgu áskorunum sem við blasa. Stjórnmálamenn og flokkar sem stunda það helst að mála skrattann á vegginn og að fara heldur í manninn en málefni, bera ekki með sér þann þokka að verða samstarfshæfir í ríkisstjórn. Þeir munu sennilega uppskera í samræmi við það. Það er nefnilega allra hagur að hér verði mynduð ríkisstjórn sem getur unnið saman að því að viðspyrna landsins verði sem árangursríkust, nokkuð sem upplýstir kjósendur eru vel meðvitaðir um.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.