*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Týr
27. október 2017 11:44

Kosningasvikin

Er hægt að treysta orðum forystumanna Vinstrigrænna í Evrópumálunum nú frekar en 2009?

Haraldur Guðjónsson

Í kvöld eru síðustu kappræður stjórnmálaforingjanna. Sjaldan hafa loforðin verið jafn stór og líklegt er að svikin loforð verði aldrei fleiri en nú. Spurningin er hins vegar hvort svikin verði jafn stór og þegar mest hefur verið.

Ein stærstu kosningasvik fyrir alþingiskosningar á Íslandi voru framin fyrir kosningarnar 2009. Þá lofaði Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna — hét, sór og sárt við lagði — að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Týr minnist þess ekki að Katrín Jakobsdóttir hafi skilað þeirri skömm eða beðist afsökunar.

                                                                                                  * * *

Rétt er að rifja upp nákvæmæega hvað Steingrímur sagði í umræðuþætti leiðtoganna, hið síðasta sem hann hafði við kjósendur að segja fyrir kosningar:

Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig […] að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar…“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrigrænna: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „…vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað.“

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað?“

Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“

                                                                                                  * * *

Þetta var í lok apríl. Innan við mánuði síðar var lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. fram þingsályktunartillögu að umsókn í Evrópusambandið. Rúmum mánuði síðar var hún samþykkt.

                                                                                                  * * *

Árni Páll Árnason fyrrverandi formaður Samfylkingar sendi flokksmönnum sínum bréf í fyrra og útskýrði vanda Samfylkingarinnar. Þar sagði hann um ESB umsóknina „Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið“

                                                                                                  * * *

Hvenær gerði Steingrímur J. Sigfússon þetta samkomulag. Var þetta ef til vill meira en kosningasvik, var þetta lygi?

                                                                                                  * * *

Þá situr eftir spurningin: Af hverju skyldu menn treysta forystumönnum Vinstrænna betur um það nú, hvar línurnar eru dregnar í Evrópumálunum? Svörin hjá Katrínu Jakobsdóttur eru loðnari nú en hjá guðföðurnum þá.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.