*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Andrés Magnússon
4. nóvember 2017 13:43

Kosningaútvarp RÚV

Hlutfall jákvæðra frétta á RÚV var hæst hjá Pírötum, en fulltrúa eins stjórnmálaflokkar vantaði yfir topplista helstu viðmælenda.

Haraldur Guðjónsson

Hér var í síðustu viku minnst á athugun Fjölmiðlanefndar á fréttum Ríkisútvarpsins (RÚV) í aðdraganda kosninga. Eftirlit með ríkisfjölmiðlinum er meðal hlutverka nefndarinnar, þó lítið fari fyrir því í daglegum störfum hennar. Hins vegar leitaði nefndin eftir sérstakri fjárveitingu til þess að athuga frammistöðu RÚV í þessu samhengi, sem er ekki illa til fundið, kosningar eru vitaskuld viðkvæmasti tíminn hvað jafnvægi og sanngirni í fjölmiðlun áhrærir. Ekki síst á það auðvitað við um ríkisfjölmiðilinn, sem hefur sérstakar lögbundnar skyldur, sérstaklega auðvitað hlutleysisskyldu.

                                                  ***

Eins og þegar hefur komið fram í fréttum annarra miðla fjallaði RÚV á jákvæðari hátt um Pírata en aðra flokka í aðdraganda þingkosninganna í fyrra, en fjölmiðlavakt Creditinfo annaðist greiningu frétta og umfjöllunar ríkismiðilsins. Farið var yfir efni hljóðvarps, sjónvarps og vefmiðils Ríkisútvarpsins, bæði fréttatímar, Kastljós, Morgunútvarpið á Rás 1, Morgunvaktin á Rás 2, Samfélagið á Rás 1, Síðdegisútvarpið á Rás 2 og Spegillinn á Rás 1 og 2.

Annars vegar var tölfræði umfjöllunarinnar könnuð, hversu mikið var fjallað um stjórnmál, einstaka flokka eða frambjóðendur, en einnig lagst í að greina sjálfa umfjöllunina, hvort hún gæti talist neikvæð, jákvæð eða hvorki né. Langmest eða 88% reyndist vera hvorki né, sem vonandi er til marks um hlutleysi eða sanngirni í vinnubrögðum (þó auðvitað geti hið sama átt við ef fréttagildið er lítið, efnistökin daufleg eða ámóta).

Hins vegar kom í ljós nokkur munur þegar þessi greining var sundurliðuð eftir stjórnmálaflokkum. Þá kom á daginn að hlutfall jákvæðra frétta var hæst hjá Pírötum, eða 22%. Hlutfallið var næsthæst hjá Dögun, 14% (með mjög fáar fréttir að baki), og svo 11% hjá Vinstri grænum.

Einu gildir af hvaða völdum þetta var raunin, þetta hlýtur að vera Ríkisútvarpinu áhyggjuefni. Þetta ætti einnig að vera mikið áhyggjuefni fyrir eigendurna, almenning í landinu, sem borgar milljarða á ári til stofnunarinnar í trausti þess að hún virði þann lagaramma og hlutleysisskyldur sem henni ber að fylgja. Þetta ætti jafnframt að vera verðugt viðfangsefni nýkjörinna eftirlitsmanna almennings. Að ekki sé minnst á hina haukfránu tilsjónarmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem höfðu eftirlit með kosningunum og munu senn skila skýrslu um þær einhvern tímann í ekki of fjarlægri framtíð.

                                                  ***

Það er hins vegar þegar skýrsluhöfundar athuga hverjir voru helstu pólitískir viðmælendur Ríkisútvarpsins fyrir kosningarnar sem gamanið tekur að kárna fyrir alvöru. Skoðum topp 10 listann hjá Ríkisútvarpinu fyrir kosningarnar í fyrra:

 1. Katrín Jakobsdóttir
 2. Birgitta Jónsdóttir
 3. Oddný G. Harðardóttir
 4. Óttarr Proppé
 5. Sigurður Ingi Jóhannsson
 6. Ólafur Þ. Harðarson
 7. Lilja Dögg Alfreðsdóttir
 8. Smári McCarthy
 9. Benedikt Jóhannesson
 10. Inga Sæland

Þá er komið að verðlaunagetraun fjölmiðlasíðu Viðskiptablaðsins: Finndu sjálfstæðismanninn!

Gamanlaust, þá er þessi listi alveg sérstaklega steiktur. Eiginlega óskiljanlegt hvernig þetta gat gerst. Það reynir mjög á hrekkleysið að ætla að það hafi gerst fyrir tilviljun, að enginn fulltrúi stærsta stjórnmálaflokks landsins, t.d. fjármálaráðherra eða eitthvert hinna fjögurra flokksystkina hans, sem þá sátu í ríkisstjórn, hafi náð inn á þennan lista.

Nú er auðvitað ekki ómögulegt að fréttir hafi lagst einhvern veginn þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé minna í fréttum en vant er eða helstu forystumenn hans með flensu, svo ekki náðist í þau í viðtöl eða eitthvað þannig. Það er fjarskalega ólíklegt svona í miðri kosningabaráttu, en ekki ómögulegt. Þess vegna gerðu skýrsluhöfundar samanburðarkönnun hjá 365, en hér er topplistinn frá þeim.

 1. Katrín Jakobsdóttir
 2. Bjarni Benediktsson
 3. Birgitta Jónsdóttir
 4. Óttarr Proppé
 5. Smári Páll McCarthy
 6. Benedikt Jóhannesson
 7. Oddný G. Harðardóttir
 8. Lilja Dögg Alfreðsdóttir
 9. Sigurður Ingi Jóhannsson
 10. Eiríkur Bergmann Einarsson

Sá listi er í meginatriðum afar svipaður listanum frá RÚV yfir vinsælustu viðmælendur. Nema að þessu leyti að þar í 2. sætinu erallt í einu týndi sjálfstæðismaðurinn fundinn!

Þetta hlýtur að vera yfirstjórn Ríkisútvarpsins ærið umhugsunarefni. Og þess vegna með ólíkindum að fylgjast með svörunum úr Efstaleiti, sem finnst þetta allt bara ómark, rangt mælt og gott ef rætnisfullar rægitungur komu ekki við sögu. Þetta gengur ekki. Ríkisútvarpið verður að geta tekið gagnrýni og jafnvel tekið hana til sín. Hugsanlega reynt úrbætur, því það stemmir ekki að RÚV, einni stofnana heimsins, verði aldrei á í messunni.

                                                  ***

Það á auðvitað enn frekar við nú, þegar nýjasta kosningabaráttan er mönnum í fersku minni, þar sem vinnubrögð Ríkisútvarpsins voru ekki hafin yfir alla gagnrýni. Allt frá endurflutningi fréttastofu á gömlum ekkifréttum Stundarinnar til kjánahrolls ársins þegar Þóra Arnórsdóttir spurði stjórnmálaleiðtogana að því hver vildi vinna með Katrínu Jakobsdóttur, rétt upp hönd!

Í uppgjafarskyni sjálfsagt.

                                                  ***

Þorbjörn Guðmundsson, fyrrverandi ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins, er látinn í hárri elli og var borinn til grafar í gær. Hann var fæddur 1922, hóf störf á Morgunblaðinu á miklum uppgangstímum hjá blaðinu árið 1942, tvítugur að aldri, og starfaði þar næstu hálfa öldina.

Fjölmiðlarýnir var svo heppinn að stíga fyrstu skref sín í blaðamennsku áður en Þorbjörn settist í helgan stein, fyrir aldarfjórðungi. Hann var fyrirtaks blaðamaður, mikill íslenskumaður, natinn og vandvirkur, hjálpfús við ungan og óreyndan kollega, samofinn sögu íslenskrar blaðamennsku, með prentsvertu í æðum. Það voru forréttindi að fá að starfa með honum. Guð blessi minningu hans.

Stikkorð: RÚV fjölmiðlar ÖSE fjölmiðlavakt
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.