*

laugardagur, 6. júní 2020
Óðinn
14. mars 2017 12:00

Kostnaður og söluverð fíkniefna

Ef aðeins brot af þeim fjármunum sem nú fara í að hervæða lögreglumenn í Bandaríkjunum færi í forvarnir og myndi minnka til muna eftirspurnina eftir eiturlyfum.

Haraldur Guðjónsson

Grátlega miklu af fjármunum og blóði hefur verið fórnað í stríð­inu svokallaða gegn fíkniefnum. Illmögulegt er að henda reiður á því hversu mörg mannslíf hafa tapast beint og óbeint vegna þessa stríðs, eða hve miklum fjármunum hefur verið varið í það víðs vegar um heiminn. Það er því áhugavert að sjá hvað þessar fórnir hafa keypt – hvað hefur fengist?

***

Í nýlegum þætti af bandaríska hlaðvarpinu EconTalk ræddi hagfræðiprófessorinn Russ Roberts við Tom Wainwright, blaðamann breska tímaritsins Economist, um bók hins síðarnefnda, Narconomics. Í henni fjallar Wainwright um hagfræðina í eiturlyfjaheiminum og áhrif aðgerða stjórnvalda til að stemma stigu við ræktun, vinnslu, flutnings og neyslu fíkniefna.

***

Umræða tvemenninganna er afar áhugaverð og mælir Óðinn með þættinum, eins og reyndar EconTalk hlaðvarpinu almennt, en eitt stakk hann þó. Wainwright ræðir meðal annars um áhrif aðgerða stjórnvalda í Kólumbíu, Perú og Bólivíu sem miða að því að takmarka framleiðslu á kókaíni og þar með að hafa áhrif á hagnað glæpagengjanna.

***

Fimm hundruð dalir verða að 150.000 dölum

Ótrúlegum fjármunum hefur verið varið í að finna, fylgjast með og eyðileggja kókaakra í þessum löndum og er ótrúlegu magni kókaplantna fargað á ári hverju. Þetta hefur gert framleiðsluna erfiðari og dýrari og samkvæmt einfaldri hagfræði ætti þetta að hafa áhrif á það verð sem neytandinn borgar þegar kókaínið er komið á markað í Bandaríkjunum.

***

Wainwright bendir hins vegar á að stærstur hluti virðisaukans verður til eftir að efnið er komið til Bandaríkjanna. Fyrir hvert kíló af unnu kókaíni fær kókabóndinn e.t.v. aðeins um 500 dali, en þegar efnið er komið í hendur smásala er það um 150.000 dala virði. Jafnvel þótt stjórnvöldum í Perú takist að tvöfalda kostnaðinn við ræktun efnisins hækkar það smásöluvirði kílósins aðeins um 500 dali. Þar er gert ráð fyrir því að kókabóndinn hafi eitthvað um það að segja hvað hann fær greitt fyrir kókaplönturnar, en því miður er líklegt að glæpagengin stjórni verðlagningunni þar alfarið og láti bændurna taka á sig stóran hluta þessa aukakostnaðar.

***

Niðurstaða Wainwrights er sú að það svarar ekki kostnaði að reyna að hafa áhrif á framboðshluta eiturlyfjaverslunarinnar, heldur væri fjármagninu mun betur varið í að reyna að minnka eftirspurn eftir efnunum.

***

Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Per Bylund skrifaði á dögunum áhugaverðan pistil á vefsíðu Mises-stofnunarinnar í Bandaríkjunum og leggur þar út af umræddum hlaðvarps­ þætti.

***

Bendir hann réttilega á að þeir Roberts og Wainwright falla í þá gryfju að gera ráð fyrir því að markaður með eiturlyf sé fullkominn og að kostnaðaraukning eigi því að koma fram í verði. Markaðurinn er hins vegar ekki, frekar en aðrir markaðir, fullkominn.

***

Verð ræður kostnaði

Carl Menger benti réttilega á að virði hverrar framleiðsluvöru ræðst af mati kaupandans. Ef kaupandinn er tilbúinn að greiða 10.000 krónur fyrir buxnapar þá er það framleiðandans að framleiða buxur sem skila honum sæmilegum ágóða miðað við þetta verð.

***

Hið sama á við um eiturlyf. Það er ekki kostnaður kókabóndans sem ræður götuvirði eiturlyfja, heldur það hvað vestrænir neytendur þessara efna eru tilbúnir að borga. Svo lengi sem þeir eru tilbúnir að greiða 150.000 dali fyrir kíló af kókaíni þá munu einhverjir reyna að mæta þessari eftirspurn. Í eðlilegum markaði myndi staða, þar sem 500 dalir verða að 150.000 dölum kalla á gríðarlegan fjölda nýrra aðila á þennan markað. Á eðlilegum markaði myndi þetta leiða til samkeppni, lægra verðs og lægri kostnaðar. Verð stýrir kostnaði en ekki öfugt.

***

Þetta er áhugaverð nálgun hjá Bylund, en hún breytir ekki þeirri staðreynd að þegar haft er í huga hversu gríðarlegur hagnaður glæpagengjanna er þá er óforsvaranlegt að verja svo miklum fjármunum í að reyna að hemja framleiðsluna í S-Ameríku.

***

Ef aðeins brot af þeim fjármunum sem nú fara í að hervæða lögreglumenn í Bandaríkjunum færi í forvarnir og ef stríðinu svokallaða yrði hætt má ætla að það myndi minnka til muna eftirspurnina eftir efnunum. Fórnarlömbum stríðsins mun örugglega fækka.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.