*

þriðjudagur, 26. október 2021
Óðinn
22. september 2021 07:49

Kristrún, stóreign og stóreignaskatturinn

Óðinn gagnrýnir hugmyndir eina talsmanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur, um stóreignaskatt.

Gunnhildur Lind Photography

Í miðri kosningabaráttunni er búið að skipta um talsmann Samfylkingarinnar. Kristrún Frostadóttir hefur tekið við en Logi Einarsson hefur verið sendur í pólitíska útlegð ásamt vel flestum frambjóðendum flokksins - í það minnsta fram yfir kosningar. Óðinn er sérstaklega forvitinn að vita hvernig tókst að lækka niður í Helgu Völu Helgadóttur.

* * *

Samfylkingin ætlar nú að leggja á stóreignaskatt enda sé það liður í það að „nútímavæða" skattkerfið. Í frétt á Kjarnanum í lok ágúst, sem hinn leiðaragjarni blaðamaður Þórður Snær Júlíusson skrifar, er fjallað um þennan nýja skatt - sem reyndar er ekkert nýtt við. En talsmaðurinn nýi er nýr og fékk þar orðið:

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir að stóreignaskatturinn sé leið til að nútímavæða skattkerfið fyrir komandi kynslóðir. „Ráðstöfunartekjur ungs fólks hafa vaxið mun hægar hér á landi en þeirra sem eldri eru. Ef ráðstöfunartekjur eldri kynslóða vaxa hraðar en þeirra sem yngri eru fer það að skipta meira og meira máli hverjir foreldrar þínir eru. Upphafseignastaðan fer að skilgreina okkur. Foreldrar ungmenna ganga á eigin sparnað til að styðja lengur við börnin sín til að tryggja að þau komist almennilega af stað. Í því felast líka auknar fjárhagsáhyggjur þeirra sem eldri eru. Það er hættuleg þróun ef hagur einstaklings verður í auknum mæli háður hag foreldra." 

Kristrún segir að tillögur flokksins um stóreignaskatta hafi ekkert með eignaupptöku að gera. „Hófleg skattprósenta á hreina eign umfram 200 milljónir króna þýðir einfaldlega að tekjur af eignum verða minni. Fjöldi rannsókna um allan heim bendir til þess að eignaskattur sé til þess fallinn að ýta undir arðbæra fjárfestingu, frekar en fjármagnstekjuskattur, því hvati skapast hjá einstaklingum sem eiga miklar eignir að fjárfesta í háávöxtunareignum til móts við eignaskattinn.

* * *

Nú veit Óðinn, eins og hún sjálf, að Kristrún á alveg fyrir salti í grautinn. Hvort sem hún fékk 50 milljónir úr kaupaukunum í Kviku banka eða 100 milljónir króna (rétt er að taka fram að kaupaukar í fjármálafyrirtækjum eru bannaðir með lögum umfram 25% af árslaunum) sem voru dulbúnir sem áskriftarréttindi þá telst hún líklega stóreignakona. Eða hvað? Hvenær er maður stóreignamaður? Er hin eina rétta tala 200 milljónir króna?

Voru kannski 200 milljónirnar, sem er verðið á sæmilegu einbýlishúsi í dag vegna lóðaskorts Samfylkingarinnar, miðaðar við eignastöðu frambjóðenda Samfylkingarinnar. Eða hvernig varð þessi tala eiginlega til?

* * *

Hinir raunverulegu stóreignamenn á Íslandi munu auðvitað flytja skattalegt heimilisfesti sitt úr landi og þar með mun skatturinn ekki skila því sem Samfylkingin reiknar með. Þá er Óðinn ekki að meina þá sem eiga eitt einbýlishús á uppsprengdu lóðarverði - heldur þá sem eiga milljarða, tugi milljarða eða jafnvel hundruð milljarða.

* * *

Sósíalistinn François Hollande, fyrrverandi forseti Frakka, setti árið 2012 á 75% hátekjuskatt á alla þá sem höfðu meira en eina milljón evra (um 135 milljónir króna) í laun á ári. Allir þeir sem voru með þessar tekjur og hærri fluttu einfaldlega úr landi. Jafnvel til landa eins og Belgíu og Þýskalands þar sem verða seint talin skattaskjól.

Stjórnlagadómstóll Frakklands lækkaði álagningu skattsins í 50%, þar sem hann legðist misjafnlega á fólk eftir fjölskylduaðstæðum, en jafnframt leiddu skoðanakannanir í ljós að almenningur var honum andstæður og þótti hann jafnast eignaupptöku, sem myndi hafa aðrar og verri afleiðingar en að var stefnt.

Skatturinn skilaði mun minna í ríkissjóð landsins en stjórnvöld höfðu gert ráð fyrir. Árið 2013 skilaði skatturinn 260 milljónum evra en aðeins 160 milljónum evra árið eftir. Áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að skatturinn myndi skila tæpum 1 milljarði evra í tekjur á árunum tveimur.

* * *

Það er hins fallegt af Kristrúnu og hinum frambjóðendum Samfylkingarinnar, þessum sem eru í felum, að búa til hvata til þess að stóreignafólkið, þá á Óðinn við þá sem eiga 200 milljónir eða meira, svo það fjárfesti í „háávöxtunareignum". Óðinn skilur ekki af hverju Kristrún tekur ekki að sér að setja reglur um hvernig stóreignamenn fjárfesta svo fjárfestingar þeirra skili sem mestum arði.

Hún gæti einnig leyft okkur hinum, sem erum ekki alvitur og teljum okkur bær að stjórna lífi og fé annarra, að fylgjast með hvernig hún fjárfestir stórgróðanum úr Kviku banka. Það væri auðvitað heiður fyrir okkur almúgann að feta í fótspor slíks stjörnufjárfestis.

* * *

Í dag eru án efa erfiðustu skilyrði til fjárfestinga í langan tíma á Íslandi. Vextir eru lágir, sem er auðvitað fagnaðarefni, en gerir fjárfestum afar erfitt fyrir. Fjármagnstekjuskatturinn er lagður á vaxtatekjur eða hagnað sem oft nær ekki að halda í verðbólgu og er því neikvæður.

Hlutabréf féllu mikið í síðustu viku í kjölfar margra skoðanakannana að hér á landi verði mynduð vinstri stjórn. Kvika banki lækkaði um 1,69% og færðist Kristrún þar með líklega fjær 200 milljóna króna stóreignamarkinu sem hlýtur að vera fagnaðarefni eða sorgartíðindi fyrir Kristrúnu - eftir því hvernig á það er litið.

Varla mælir Kristrún með kaupum á hlutabréfum svona rétt fyrir kosningar. Skráð hlutabréf eru í raun eini eignarflokkurinn sem hefur gefið eitthvað af sér undanfarna mánuði utan fasteigna - þökk sé lóðaskorti Samfylkingarinnar.

* * *

Óðinn ætlar að láta hér staðar numið í bili og bíður eftir því að einhverjir femínistar saki hann um kvenfyrirlitningu. En það er misskilningur. Þetta er fyrirlitning á sósíalisma.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.