Á undanförnum mánuðum hefur peningastefnan brugðist við COVID-kreppunni. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur lækkað meginvexti bankans um 200 punkta, úr 2,75% í 0,75%, og leyft kaup á ríkisskuldabréfum til þess að tryggja miðlunarferli peningastefnunnar. Aðgengi fjármálafyrirtækja að fjármagni hefur verið aukið með lækkun bindiskyldu, slökun á eiginfjárkröfum með lækkun sveiflujöfnunarauka í 0% og veitingu tímabundinnar lausafjárfyrigreiðslu í formi veðlána. Að auki hefur bankinn hafið reglulega sölu á gjaldeyri og farið á móti gengisveikingu krónunnar. Þessar aðgerðir hafa mildað efnahagsáfallið sem farsóttin orsakaði.

Endurskoðun peningastefnunnar í kjölfar áfallsins 2008 gerði viðbrögð peningastefnunar möguleg. Síðustu tíu árin hafa óvarðir aðilar, heimili og fyrirtæki, ekki skuldsett sig í erlendum gjaldmiðlum, sérstök bindiskylda á kaup erlendra aðila á skráðum skuldabréfum hefur að mestu komið í veg fyrir innflæði kviks fjármagns og Seðlabankinn hefur safnað myndarlegum gjaldeyrisforða.

Reynslan í ár og síðustu tíu ára segir okkur að það sé hægt að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í okkar litla hagkerfi án þess að peningakerfið sjálft framkalli meiriháttar efnahagsleg áföll ef hugað er að stofnanaumgjörð og mörgum stjórntækjum beitt. Grundvöllurinn að þessari nýju peningastefnu var lagður fyrir um tíu árum síðan og er grunnþáttum hennar lýst í sérriti Seðlabankans „Peningastefna eftir höft“.

En er þá björninn unninn, getum við fagnað þeim sigri að vandi krónukerfisins sé leystur? Svo er auðvitað ekki og verður hér bent á nokkur mistök og vandamál sem þarf að finna lausn á.

Hefur eitthvað farið úrskeiðis?
Byrjum á því sem fór úrskeiðis á síðustu árum. Árin 2014-2018 þjáðist hagkerfið af því sem heitir „hollenska veikin“ á hagfræðimáli. „Veikin“ lýsir sér þannig að vöxtur einnar útflutningsgreinar hækkar gengi gjaldmiðils, og einnig raungengi, með þeim afleiðingum að arðsemi annarra útflutningsgreina minnkar og jafnvel einnig þeirrar greinar sem í mestum vexti er. Lífskjör almennings bötnuðu en vöxtur ferðaþjónustu hafði í för með sér versnandi rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki í greininni vegna mikils kostnaðar.

Seðlabankinn fór á móti gengishækkuninni fram á sumar 2016 með miklum gjaldeyriskaupum en þegar þeim var hætt hækkaði gengi krónu mikið frá vori 2016 fram á haust 2017. Atvinnuleysi jókst umtalsvert frá hausti 2018 fram að COVID-kreppu og voru tæplega 10 þúsund manns atvinnulaus þegar farsóttin kom til landsins. Stjórnvöld hefðu getað takmarkað fjölda lendingarstæða á Keflavíkurflugvelli eða lagt á komugjald á flugvelli til þess að hægja á fjölgun ferðamanna en gerðu ekki.

Hollenska veikin er erfið viðureignar í smáum hagkerfum sem hafa eigin mynt og fáar útflutningsgreinar. Svipaða sögu má segja um sveiflur í sjávarútvegi í gegnum tíðina, þær hafa gert rekstur annarra útflutningsgreina erfiðan.

Takmörk á sjálfstæði peningastefnu
Sjálfstæði peningastefnu eru takmörk sett ef fjármagn flæðir frjálst á milli landa. Vaxtalækkun í stærri hagkerfunum kallar á lækkun krónuvaxta ef gengi á ekki að hækka með neikvæðum áhrifum fyrir samkeppnisgreinarnar. Lágir vextir erlendis setja þannig innlendu vaxtastigi takmörk. En sjálfstæði peningastefnu eru einnig sett önnur takmörk sem felast í því að innlendir aðilar geta gefið út löng skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Við það minnkar framboð skuldabréfa í krónum sem þá hækkar verð þeirra og vextir á fyrirtækjabréfum í krónum lækka.

Nú er unnt að takmarka vaxtamunarviðskipti með sérstakri bindiskyldu á kaup erlendra aðila á skráðum krónuskuldabréfum eins og hér var gert frá 2016 fram til 2019. Bindiskyldan gefur þá Seðlabankanum möguleika á því að hafa aðra vexti en erlendis og þar með einnig aðra vexti á stutta enda vaxtarófsins án þess að mikið fjármagn streymi inn. En þetta kemur ekki í veg fyrir lántökur fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum sem hafa áhrif á lengri enda vaxtarófsins.

Þau fyrirtæki sem geta tekið lán í erlendum gjalmiðlum eru einkum stærri útflutnigsfyrirtækin. Ef innlent vaxtastig er hærra en vextir í útlöndum þá er fjármagnskostnaður stóru útflutningsfyrirtækjanna minni en hinna smærri sem skekkir dreifingu fjármagns á atvinnugreinar. Það má líka spyrja um bæði hagkvæmni og réttlæti þegar stór útflutningsfyrirtæki eru í raun komin inn á evrusvæðið á meðan smærri fyrirtæki búa við gengissveiflur og hærra vaxtastig.

Hér er einnig vert að minnast á aðstöðumun þeirra sem eiga miklar peningalegar eignir og hinna, sem eru þorri almennings, sem binda eign sína í fasteign. Efnuðustu einstaklingarnir geta fært peningalegar eignir inn og út úr krónunni, þeir geta farið út þegar hún veikist og inn þegar hún byrjar að styrkjast á meðan slíkar tilfærslur eru illframkvæmanlegar fyrir almenning. Er þá við því að búast að eignadreifing verði ójafnari með tímanum.

Dýr greiðslumiðlun
Í krónukerfi er greiðslumiðlun mun dýrari en í nágrannalöndunum. Hér eru ekki notuð ódýr landsbundin debetkort eins og í Danmörku (Dankort) og Noregi (BankAxept) og ekki heldur sameiginleg greiðslulausn byggð á grunninnviðum (Mobylpay í Danmörku, Vipss í Noregi og Swish í Svíþjóð). Í stað þess fara flestar greiðslur í gegnum viðskiptabankana með alþjóðlegum greiðslukortum, notkun slíkra debetkorta og kreditkorta er mun meiri en á Norðurlöndunum.

Afleiðingin er sú að kostnaður við greiðslumiðlun er um 1,6% af vergri landsframleiðslu hér á landi en einungis 0,53% í Danmörku, 0,49% í Noregi og 0,78% í Svíþjóð. Kostnaður við greiðslumiðlun er þannig um 1% af VLF hærri hér á landi sem væri um 30 milljarðar á ári sem er tæplega helmingur af árlegum kostnaði við rekstur Landspítalans. Það er með ólíkindum að svo miklu fé sé varið í innlenda greiðslumiðlun ár eftir ár án þess að stjórnvöld grípi í taumana.

Nú væri auðvelt að taka upp innanlandskort hér á landi sem myndi spara landsmönnum milljarða á ári hverju. Ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið gert hlýtur að liggja í lítilli samkeppni á milli viðskiptabanka og annarra fjármálastofnana og hagsmunum þeirra. Samkeppnisyfirvöld þurfa að vera vakandi yfir samskiptum viðskiptabankanna og erlendra kortafyrirtækja.

Að lokum, um kosti krónunnar
Hinn sjálfstæði gjaldmiðill hefur þann kost að auðvelda aðlögun hagkerfisins í kjölfar áfalla í útflutningsgreinum. Lækkun raungengis getur gerst fljótt og bætir samkeppnishæfi útflutningsgreinanna. Ef ekki væri sjálfstæður gjaldmiðill þá tæki lengri tíma fyrir innlent verðlag að lækka til þess að raungengi lækki samsvarandi og atvinnuleysi væri þá meira.

Íslenska ríkið mun ekki skorta krónur á sama hátt og ýmis ríki á evrusvæðinu hafa orðið uppiskroppa með evrur á liðnum árum. Íslenska ríkið getur einfaldlega búið til peninga til þess að fjármagna ríkissjóð. Afleiðingin gæti orðið verðbólga en ekki greiðslufall í eigin gjaldmiðli. Af þessum sökum má segja að innganga í stærra myntsvæði feli í sér ákveðið afsal sjálfstæðis.

Á evrusvæðinu hefur enn ekki tekist að samræma að fullu sjónarmið um sameiginlegt regluverk, sameiginlegan gjaldmiðil og sjálfstæði einstakra ríkja. Óleyst vandamál á þeim bæ er sennilega sterkasta ástæða þess að bíða með stórfelldar breytingar á peningamálum. Slík ákvörðun yrði stjórnmálalegs eðlis og hefði með stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna að gera.

Höfundur situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Þær skoðanir og ályktanir sem koma fram í greininni eru höfundar og endurspegla ekki skoðanir annarra nefndarmanna.

Greinin birtist tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út um miðjan desember. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .