*

mánudagur, 13. júlí 2020
Týr
16. júní 2019 11:01

Krossbrá í Excel

Laust er eitt embætti Landsréttardómara. Dómnefnd metur nú umsóknir af alræmdri vandvirkni.

Laust er eitt embætti Landsréttardómara. Dómnefnd metur nú umsóknir af alræmdri vandvirkni.

                                               * * *

Af Excel-skjali dómnefndar fyrir val á 15 Landsréttardómurum árið 2017 sást að þar var í sumu kastað til höndum við einkunnagjöf, þannig að sumir hæfnisþættir urðu í raun marklausir. Ekki bætti úr skák að samanlagt hlutfallslegt vægi þáttanna reyndist vera 105%. Það veikir óneitanlega tiltrú manna á stærðfræðikunnáttu nefndarinnar, sem þó veigraði sér ekki við að reikna út hæfiseinkunnir með slíkri nákvæmni að ekki dugðu minna til en þrír aukastafir!

                                               * * *

Þar var umsækjendum m.a. gefin einkunn fyrir „reynslu af dómstörfum“, en þar sem Landsréttur er nýr áfrýjunardómstóll mátti ætla að reynsla af dómstörfum vægi mjög þungt þegar gert væri upp á milli umsækjenda. Dómnefndinni láðist nú samt að gefa þessu sérstakan gaum og lagði traust sitt á Excel og GIGO-forsendur sínar. Það er því vart að undra að Valtý Sigurðssyni dómnefndarmanni „krossbrá“ þegar hann sá niðurstöðuna birtast á skjánum, eins og hann lýsti í viðtali við Morgunblaðið 20. apríl sl.

                                               * * *

Dómsmálaráðherra gerði fjórar breytingar á þessari krossbrá-tillögu dómnefndar áður en hún var lögð fyrir Alþingi, enda hafði komið fram að óbreyttur listi dómnefndar hefði þar ekki stuðning. Breytingarnar voru fjórar og voru einmitt einkum studdar með auknu vægi dómarareynslu.

                                               * * *

Til glöggvunar fengu þeir, sem komu inn á listann, eftirfarandi einkunnir hjá dómefnd fyrir reynslu af dómarastörfum: Jón Finnbjörnsson 9,5; Arnfríður Einarsdóttir 8,5; Ragnheiður Bragadóttir 7,0; Ásmundur Helgason 6,0. – Þeir, sem fóru út af listanum fengu hins vegar svona gefið fyrir dómarareynslu: Jón Höskuldsson 5,5; Eiríkur Jónsson 3,5; Ástráður Haraldsson 1,0; Jóhannes Rúnar Jóhannesson 0,5.

                                               * * *

Hæstiréttur, hokinn af reynslu, taldi það hins vegar ekki nægjanlega rannsakað hvers vegna Jón og Arnfríður væru skipuð dómarar en ekki Ástráður og Jóhannes Rúnar og dæmdi þeim síðarnefndu miskabætur!

                                               * * *

Fróðlegt verður að sjá hvernig dómnefndin leggur mat á umsækjendur að þessu sinni. Mun dómnefndarmönnum sjálfum krossbregða aftur yfir niðurstöðunni hjá Excel háyfirdómara?

                                               * * *

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.