*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Katrín Kristjánsdóttir
12. október 2019 13:42

Kulnun: áhrif stjórnunar og trú á eigin getu

Þegar álag er mikið í langan tíma getur það leitt til heilsuspillandi streitu sem leiðir af sér ákveðinn vítahring.

Aðsend mynd

Hvort sem streita er skýr eða hulin þá er ein afleiðing hennar skerðing á trú á eigin getu við að leysa þau verkefni sem fólki eru falin. Þegar álag er mikið í langan tíma getur það leitt til heilsuspillandi streitu sem leiðir af sér ákveðinn vítahring. Þegar streita byrjar að hafa hamlandi áhrif verður einbeiting minni sem leiðir af sér þá upplifun að vera sífellt að „slökkva elda“.

Fólk upplifir að það þurfi að hlaupa hraðar, þegar það er í rauninni að hlaupa jafn hratt eða jafnvel hægar, en á sama tíma krefjast verkin meiri orku en fyrr. Í framhaldinu fer fólk að gera mistök eða upplifir sig ekki að ná að vinna vinnu sína eins vel og áður. Við það fer fólk að missa trú á eigin getu og í framhaldi hikar það við að taka að sér verkefni því það telur sig ekki ráða við þau. Það leiðir svo af sér niðurrif og sjálfsásakanir fyrir það að vera ekki að standa sig í vinnu. Streita, fjarvera starfsmanna, veikindaleyfi og minnkun framleiðni eru allt kostnaðarsamir þættir fyrir fyrirtæki. Samhliða þessu fer ánægja í starfi hratt niður á við.

Hver ber ábyrgðina?

Þó að einstaklingurinn beri ábyrgð á sjálfum sér liggur stór hluti ábyrgðarinnar hjá stjórnendum. Þeim ber að hlúa að starfsfólki og veita því gefandi og uppbyggilegt starfsumhverfi. Að veita starfsfólki endurgjöf skiptir gríðarlegu máli, sem og að stjórnendur forðist það eins og heitan eldinn að leita að sökudólgum. Mikilvægt er að verkaskipting starfsmanna sé skýr og væntingar til afkasta raunsæjar og sanngjarnar. Þegar þessir þættir eru í lagi er hægt að komast hjá óþarfa óvissu og minnka streituþætti. Þegar þessir þættir eru í lagi ýtir það undir aukna trú á eigin getu sem leiðir af sér aukið sjálfstæði í vinnubrögðum, svo ekki sé minnst á aukið sjálfstraust og starfsgleði.

Trú á eigin getu sem mótefni gegn streitu

Trú á eigin getu er einnig kölluð innri hvati; seigla eða mótvægi gegn streituþáttum. Þeir sem hafa trú á eigin getu upplifa frekar að þeir séu við stjórn og spyrna frekar í bakkann þegar á móti blæs. Það hefur sýnt sig að trú á eigin getu hefur áhrif á hvað einstaklingurinn tekur sér fyrir hendur, hvaða markmið fólk setur sér, hve mikil orka fer í að ná markmiðum sem fólk setur sér og hve lengi það berst á móti þegar upp koma vandamál eða mótlæti. Þetta snýst því að miklu leyti um að halda með sjálfum sér og vera í sínu liði, bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs. Þá skiptir einnig máli að vera meðvituð(aður) um að niðurrif þjónar engum tilgangi. Þannig er trú á eigin getu í starfi veigamikill þáttur í að vinna gegn upplifun á streitu í starfi.

Höfundur er sérfræðingur hjá sálfræðiog ráðgjafastofunni Líf og sál.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.