*

mánudagur, 13. júlí 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
12. júní 2020 12:20

Kuml og haugfé

Talið er að meira en 90% aflaheimilda hafi skipt um eigendur á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því framsalið var lögfest.

Haraldur Guðjónsson

Frá árinu 1990 hefur verið í lögum heimild til framsals aflaheimilda. Frjálst framsal þeirra annars vegar og varanleiki og öryggi aflahlutdeilda hins vegar voru talin forsenda þess að unnt væri að ná fram hagræðingu og aukinni arðsemi í sjávarútvegi.

Talið er að meira en 90% aflaheimilda hafi skipt um eigendur á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því framsalið var lögfest. Í greinargerð Daða Más Kristóferssonar frá árinu 2010 voru eigendaskipti aflaheimilda í þorski, ýsu og ufsa frá 1991 talin vel yfir 100%, en erfitt er að festa fingur á nákvæma tölu þar sem viðskipti með sömu aflaheimildir hafa í einhverjum tilvikum átt sér stað oftar en einu sinni. Fyrir keyptar aflaheimildir hafa aðilar greitt verulega fjármuni. Fjárfesting liggur þó ekki aðeins í aflaheimildum. Öryggi og varanleiki aflaheimilda tryggja fjárfestingar í skipum, tæknibúnaði, hátæknivinnslum, markaðsstarfi og nýsköpun. Þannig hafa sjávarútvegsfyrirtæki aukið virði auðlindarinnar og samfélagið hefur notið góðs af í formi betri og öruggari starfa, tekjuskatts- og útsvarsgreiðslna, auðlindagjalds og gjöfuls samstarfs við iðn- og tæknifyrirtæki, svo fátt eitt sé nefnt. Án frjáls framsals öruggra og varanlegra aflaheimilda hefði framlagið til hagvaxtar og lífsgæða okkar Íslendinga orðið snautlegt.

Það má telja sérstakt, að eftir þrjátíu ára sögu frjáls framsals aflaheimilda, hafi einhverjir þingmenn, fjölmiðlar og álitsgjafar nú á vordögum komið af fjöllum um tilvist þessa grundvallarþáttar í verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs. Þegar stofnendur eins öflugasta fyrirtækis íslensks atvinnulífs hyggjast hægja á og tryggja að fyrirtækið og starfsfólk þess gangi greiðlega til stefnumóts við nýja kynslóð, þá er hið frjálsa framsal orðið framandi. Það var þó varla að einhverjir héldu að sjávarútvegsfyrirtæki, skip, hátæknivinnslur og starfsfólk þess væru lögð í kuml með látnum eigendum fyrirtækjanna eins og haugfé að fornum sið? 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.