*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Leiðari
1. nóvember 2019 11:11

Kunnum við ekki að búa við stöðugleika?

Íslendingar vita ekki hvernig þeir eigi að hegða sér í vægri niðursveiflu sem endar ekki með hinni hefðbundnu íslensku kollsteypu.

Haraldur Guðjónsson

Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan ýmsir sérfræðingar spáðu samdrætti í hagkerfinu. Eðlilega höfðu menn áhyggjur síðasta vor þegar Wow féll en skömmu áður hafði loðnuvertíðin farið fyrir bí. Útlitið var því ekkert sérstaklega gott enda var því spáð að á árinu yrði allt að 1,9% samdráttur í hagkerfinu.

Óhætt er að segja að staðan í dag sé mun betri en búist var við. Í stað samdráttar hefur hér verið hagvöxtur. Þrátt fyrir þetta er ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar svolítið sérstakt. Á það sér ákveðnar skýringar. Á síðustu átta árum hefur verið gríðarlegur uppgangur á Íslandi og hagvöxtur verið um 3,8% að meðaltali. Til þess að setja þessa tölu í eitthvert samhengi þá er hún langt fyrir ofan meðaltalið hjá ríkjum Evrópusambandsins, svo dæmi sé tekið. Samkvæmt tölum frá Eurostat hefur hagvöxtur í Evrópusambandsríkjunum frá árinu 2011 fjórum sinnum farið yfir 2% og hæst mælst 2,6% árið 2017. Árið 2012 mældist 0,4% samdráttur. Sé einungis horft á evrulöndin þá er staðan verri. Á síðustu átta árum hefur hagvöxtur þar einungis einu sinni farið yfir 2% en það var árið 2017 þegar hann mældist 2,5%. Árið 2012 var 0,9% samdráttur í evrulöndunum.

Þrátt fyrir að hagvöxtur á fyrri hluta ársins hafi mælst 0,9%, þar af 2,7% á 2. ársfjórðungi, þá er staðan eilítið sérstök eins og áður sagði. Það er óþarflega dimmt yfir öllu. Tilfinningin er sú að stjórnendur fyrirtækja þori ekki að leika næsta leik af hræðslu um að leika af sér. Meðal annars af þessum sökum ríkir ákveðin stöðnun í hagkerfinu eða kannski væri réttara að tala um að þjóðin hafi loks náði hinu eftirsóknarverða markmiði að búa við efnahagslegan stöðugleika en kunni það ekki. Sporin hræða og það er nánast eins og Íslendingar viti ekki hvernig þeir eigi að hegða sér í vægri niðursveiflu — niðursveiflu sem endar ekki með hinni hefðbundnu íslensku kollsteypu.

Eins og áður hefur verið bent á á þessum vettvangi þá má að miklu leyti þakka skynsamlegri lendingu í kjaraviðræðum á almenna vinnumarkaðnum því að niðursveiflan hefur ekki orðið dýpri en raun ber vitni.

Hér eru lífskjarasamningarnir sérstaklega nefndir til sögunnar því hin dæmigerða íslenska leið hefur verið að hækka laun mikið í uppsveiflu. Ef litið er yfir hagsöguna þá hefur það haft í för með sér aukinn kaupmátt í skamman tíma en síðan hefur orðið kollsteypa. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna.

Að þessu sögðu er ágætt að hafa varann á og benda á að fjölmargar opinberar stéttir eiga enn eftir að ganga frá kjarasamningum. Ágætt er að hafa það á bakvið eyrað að hið opinbera hefur alltof oft leitt launastefnuna í landinu, eins órökrétt og það er. Fyrirtæki búa ekki við þann lúxus að geta hækkað skatta til að standa undir hærri launum. Vissulega geta þau hækkað verð á vörum og þjónustu en ef þau kjósa að gera það þá eiga þau á hættu að vera sniðgengin því neytendur hafa jú val. Hið opinbera getur aftur á móti hækkað skatta og verð á þjónustu og allir borga enda hefur enginn val um annað, nema kannski að flytja af landi brott.

Staðan er líka sérstök að öðru leyti. Stýrivextir hafa aldrei verið lægri á Íslandi en samt sem áður ná bankarnir ekki að miðla fjármagni út í hagkerfið. Á fyrstu níu mánuðum ársins drógust, sem dæmi, nýjar lánveitingar til fyrirtækja saman um 50% samanborið við sama tímabil 2018. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að benda á að eiginfjárkröfur á banka eru nánast í botni, sem þýðir að þeir kljást við lausafjárvanda. Lesendur vita alveg hvernig staðan á bankamarkaði er, tveir af þremur stærstu bönkunum eru í eigu ríkisins. Stjórnvöld eru í ákveðinni klemmu þegar kemur að eiginfjárhlutfallinu, eiga þau að slaka á kröfunum, sem myndi þá hleypa meira fjármagni út í hagkerfið eða vilja þau hafa eigið fé sem mest og vera þannig með bæði belti og axlabönd ef eitthvað fer úrskeiðis í bankakerfinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.