*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Týr
9. janúar 2022 16:02

Kveðjugjöfin til Lilju

Einn stjórnmálamaður fékk væna pillu í áramótaskaupinu – og það tvær – sem sumum fannst fara yfir strikið.

Kristín Þóra Haraldsdóttir lék Lilju Alfreðsdóttur fráfarandi mennta- og menningamálaráðherra í áramótaskaupinu 2021.

Eins og aðrir fylgist Týr alltaf með áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins. Atriði skaupsins í ár voru auðvitað misfyndin eins og gerist og gengur, að sumum var hægt að hlæja mikið en önnur voru þreytt og langdregin – en það er alltaf þannig að vissulega eru höfundar skaupsins ár hvert ekki öfundsverðir að því að þurfa að skrifa efni sem þóknast öllum.

* * *

Það má þó alltaf sjá ákveðið mynstur í skaupinu. Sumir höfundar einbeita sér að því að skrifa fyndið efni sem gerir ýmist grín að einstaka viðburðum ársins, ákveðinni hegðun landsmanna eða annað sem er einfaldlega skemmtilegt. Aðrir leggja áherslu á að gera grín að stjórnmálamönnum eða pólitískum viðburðum, en sumir nýta tækifærið til að hnýta í pólitíska andstæðinga. Þannig er það bara stundum.

Það er alltaf vandasamt fyrir stjórnmálamenn að tjá sig um skaupið, þeir geta í raun ekki sagt annað en að þeim hafi fundist það fyndið – jafnvel þeir sem fá slæma útreið og jafnvel þó svo að höfundar hafi mögulega í einhverjum tilvikum haft annarleg sjónarmið að baki gríninu. Það vill enginn stjórnmálamaður verða uppvís að því að taka sig svo hátíðlega að það megi ekki gera grín að honum eða henni.

* * *

Þá er líka hægt að meta ákveðið mynstur í því sem ekki er sagt eða því sem ekki kemur fram. Sá formaður stjórnmálaflokks sem aldrei ratar í skaupið ætti að mögulega að hafa áhyggjur af því hvort viðkomandi sé yfir höfuð að hafa einhver áhrif. Formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar fengu til dæmis engar sérstakar pillur í ár, svo tekið sé dæmi.

Einn stjórnmálamaður, Lilja D. Alfreðsdóttir, fékk þó væna pillu – og það tvær – sem sumum fannst fara yfir strikið. Það er skemmtileg tilviljun að hún er þó sá stjórnmálamaður sem hefur ausið hvað mestu fjármagni í Ríkisútvarpið á liðnum árum – og það án þess að láta ríkismiðilinn hafa nokkuð fyrir því. Hún var væn kveðjugjöfin sem fráfarandi menningarmálaráðherrann fékk.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.