*

mánudagur, 21. september 2020
Óðinn
1. júní 2020 09:10

Kvenlegu gildin í atvinnulífinu

Sú skoðun virðist ekki óvenjuleg, sérviskuleg eða á einhverjum jaðri að konur séu ólíklegri til að fara út í atvinnurekstur.

Í byrjun mánaðarins var tekið viðtal við formann Félags kvenna í atvinnurekstri, Huldu Ragnheiði Árnadóttur, í Spegli Ríkisútvarpsins. Þar hafði formaðurinn miklar áhyggjur af hlutfalli kvenna í stjórnum fyrirtækja.

                                                                   ***

Óðinn var óskaplega hissa þegar Hulda Ragnheiður var kjörin formaður Félags kvenna í atvinnurekstri. Ekki vegna þess að Óðinn þekkti eitthvað sérstaklega til Huldu eða vantreysti henni í nokkru, heldur vegna þess að hún er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Það er ríkisstofnun, kallaðist áður Viðlagatrygging Íslands, og er undirstofnun fjármálaráðuneytisins samkvæmt lögum nr. 55/1992.

                                                                   ***

Síðast þegar Óðinn vissi þá er atvinnurekstur ekki ríkisrekstur, en atvinnurekstur hefur verið skilgreindur á eftirfarandi hátt. Atvinnurekstur er sjálfstæð starfsemi, sem stunduð er með reglubundnum hætti og nokkru umfangi í ekki mjög skamman tíma í þeim efnahagslega tilgangi að hagnast að fé.

                                                                   ***

Eins og sjá má falla ríkisstofnanir alls ekki undir skilgreininguna. Óðni þótti það því ákveðinn húmor hjá konum í atvinnurekstri að velja sér forstöðumann ríkisstofnunar sem formann, algjörlega óháð persónunni, sem vafalaust er alls góðs makleg.

                                                                   ***

En aftur að Speglinum. Hulda Ragnheiður telur að beita eigi viðurlögum við því ef fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn eru ekki með minnst 40% stjórna skipaða konum. Óðinn er þessu algjörlega ósammála.

                                                                   ***

Hulda Ragnheiður heldur því fram að mikilvægt sé að stjórnir séu skipaðar fjölbreyttum hópi stjórnarmanna og að fólk sé farið að sjá þann hag sem er af því þegar fjölbreyttar raddir koma að ákvarðanatöku. Óðinn er sammála því og er sannfærður um að mismunandi þekking og reynsla skipti miklu við stjórnun fyrirtækja.

Ekki verður hins vegar séð að kyn stjórnarmanna skipti þar miklu, nema þá að halda því fram að kynin séu ólík að eðli og gerð svo máli skipti við stjórn fyrirtækja. Þar á Óðinn við þessi tvö, karl og konu, en ekki hin tuttuguogeitthvað.

                                                                   ***

Hulda Ragnheiður hefur einnig miklar áhyggjur að aðeins fjórðungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn séu konur. En hvers konar fyrirtæki eru þetta og hvers konar ábyrgð fylgir stjórnarsetunni? Langflest þessara fyrirtækja voru áður í formi einkarekstrar, en eftir að einkahlutafélagalögin voru samþykkt kusu margir ehf.- formið heldur. Þar er ábyrgðin takmarkaðri og skilin milli persónunnar og rekstursins skýrari.

                                                                   ***

Hægt er að fullyrða að karlmenn voru, og eru sennilega enn, líklegri til að stofna fyrirtæki um rekstur sinn, hvort sem um er að ræða málara, smiði, pípara, endurskoðendur, lögfræðinga eða hvað það nú nefnist. Erfitt er að grafast fyrir um nýja tölfræði um það, en líklega og vonandi hefur það breyst á undanförnum árum þó líklega mjakist það fullhægt. Nauðsynin á sérstöku félagi kvenna í atvinnurekstri gefur sína vísbendingu um það, sem og fjöldi félagsmanna.

Þar voru samt bundnar nokkrar vonir við nýjabrumið í ferðaþjónustu á síðustu árum, en margt benti til þess að konur létu þar til sín taka í meiri mæli en verið hafði. Hvað nú verður um þau félög er ógerningur að segja, en sofni þau mörg svefninum langa og umfram aðrar greinar er hætt við að hlutur kvenna í atvinnurekstri minnki á ný.

                                                                   ***

Í einkahlutafélagi er stjórnarmaðurinn oft einn og þá sem stendur í rekstrinum. Stjórnarmennirnir endurspegla því þá sem eru tilbúnir að taka þá áhættu sem felst í atvinnurekstri. Meðal þess sem nefnt hefur verið um muninn á stjórnun kvenna og karla (sú umræða skaut mjög upp kollinum upp úr bankahruni) er að karlarnir séu mun áhættusæknari, sem fólk skemmti sér síðan við að rekja til testosteróns og glannaskapar, pissukeppna eða eðlislægrar einfeldni ljótara kynsins. Í sömu andrá var mikið lagt upp úr jákvæðum eðliseiginleikum kvenna í þessu samhengi, varfærni og umhyggju, átakafælni og samræðustjórnlistar og þar fram eftir götum.

                                                                   ***

Óðinn er svo sem ekki mjög upprifinn yfir slíkri speki, en minnir á að í athafnalífi þarf bæði áræði og varfærni. Það á við í hvaða rekstri sem er, en síðan eiga hlutföllin misvel við. Sumum rekstri og fjársýslu er beinlínis ætlað að vera áhættusamur en mögulegur ábati þá líka eftir því. Öðrum rekstri ætlum við hins vegar að vera mjög varfærnislegur og öruggur en um leið sættir fólk sig við takmarkaðri og tryggari afrakstur. Svo það kallar á mismunandi eiginleika og lyndisþætti stjórnenda og starfsmanna, mögulega þannig að það skiptist nokkuð eftir kynjum. Ekki ætlar Óðinn að útiloka það.

                                                                   ***

Þar er hugsanlega ein skýring á því hvers vegna atvinnuþátttöku karla og kvenna á Íslandi er svo ákaflega misskipt milli einkageirans og hins opinbera og raun ber vitni. Atvinnuþátttaka kvenna er enn ívið minni en karla heilt yfir litið, en það er sláandi að síðast þegar það var kannað, skömmu fyrir bankahrun, þá reyndist um helmingur kvenna á vinnumarkaði vinna hjá hinu opinbera en þar voru konur um tveir þriðju hluti starfsmanna.

Óðni þykir ólíklegt að það hafi breyst verulega. Það var mjög á skjön við skiptinguna milli geiranna og merkilegt að ekki hafi meira verið grafist fyrir um það af hinum fjölmörgu og óþreytandi félagsfræðingum þjóðarinnar. Við blasir að slíkur kynjamunur í atvinnuþátttökunni er einnig til þess fallinn að hafa áhrif á afstöðu fólks, sem mögulega gæti skýrt mismunandi kosningahegðan kynjanna. Og ætlar enginn að gera neitt í því?!

                                                                   ***

Svo má ekki gleyma ábyrgðinni. Stjórnarmenn bera ábyrgð á vörslusköttum, virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Oftar en ekki taka þeir oft á sig persónulega ábyrgð á einhverjum skuldbindingum félagsins. Hvað er eftirsóknarvert við það fyrir konur, eða karlmenn, að mati formanns kvenna í atvinnurekstri? Auðvitað ekkert. Þessi ábyrgð veldur bara auknum áhyggjum, svefnleysi og hærri blóðþrýstingi.

                                                                   ***

Óðinn ætlar ekki að hætta sér langt út að það vað, að ræða muninn á kynjunum tveimur. En hann hefur þó haft það á tilfinningunni, að konur séu ekki eins áhættusæknar og þar af leiðandi ólíklegri til að taka þá áhættu að fara út í atvinnurekstur. Miðað við þau sjónarmið sem konur voru óhræddar við að setja fram um ólíkan stjórnunarstíl í kjölfar bankahrunsins virðist sú skoðun ekki óvenjuleg, sérviskuleg eða á einhverjum jaðri.

                                                                   ***

Formaður Félags kvenna í atvinnurekstri er reyndar mjög gott dæmi um einstakling sem ekki verður betur séð en að sé þeirrar skoðunar. Í ein tíu ár rak Hulda saumastofu undir eigin nafni, væntanlega í einkarekstri, og síðar undir nafninu Prýði. Síðan þá hefur hún aðallega unnið fyrir borg og ríki.

                                                                   ***

Staða kvenna á vinnumarkaði hefur nokkuð verið í kastljósinu undanfarnar vikur, einkum þá vegna vandræða Icelandair og brösuglegra samningaviðræðna við flugfreyjur. Það má heita grátbroslegt fremur en spaugilegt að horfa upp á Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, einn af framkvæmdastjórnum Icelandair, sem áður hefur kynnt sig sem ákafan talsmann kvenna á vinnustöðum og talað af einurð gegn „karllægum gildum", kynna einni helstu kvennastétt landsins tilboð um nýtt Íslandsmet í launalækkunum.

                                                                   ***

Fyrir aðeins rúmu ári sagði Sylvía Kristín að #metoo hefði leitt til þess að „konur í stjórnendastöðum [gætu] nú leyft sér að hafa kvenleg gildi". Flugfreyjur fá að kynnast því núna hjá henni, þegar hún er formaður samninganefndar félagsins við kynsystur sínar.

Óðinn veltir því hins vegar fyrir sér hvort ráðning hennar hafi ekki verið dæmi um stjórnunarvanda félagsins, mjög í takt við ýmsar aðrar yfirmannaráðningar hjá Icelandair síðustu ár, þar sem alls konar fólk var ráðið sem hafði litla reynslu af flugrekstri, en leit vel út á skipuritinu og fréttatilkynningu. Það var alls ekki kynbundinn vandi.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.