Samkvæmt tölum sem Creditinfo tók saman fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) voru konur 33% viðmælenda í útvarps- og sjónvarpsfréttum og karlar 67% undanfarið ár. Skýringarnar á þessum mikla mun liggja ekki á lausu, en varla eru starfsmenn á fréttastofum ljósvakamiðla svo forpokaðir?!

Algeng viðbára, þegar bent er á mun sem þennan, er að konur séu feimnari við að tjá sig, fáist síður í viðtöl o.s.frv. Skýring af þeim meiði heyrðist raunar líka að þessu sinni, en fjölmiðlarýnir er efins. Það kann að hafa örlað á því hér áður fyrr, en það er ekki reynsla hans hin síðari ár.

Á hinn bóginn má nefna aðra óbeina þætti. Í fyrsta lagi var atvinnuþátttaka karla og kvenna lengi vel nokkuð misjöfn, þó mjög hafi dregið saman með þeim á undanförnum árum. Sá munur kann að hafa meiri áhrif en heildartölurnar segja til um vegna þess að karlar eru ennþá mun líklegri til þess að gegna stjórnunarstöðum, en stjórnendur hafa að jafnaði verið lengur á vinnumarkaði en undirmenn þeirra. Stjórnendur eru einnig líklegri til þess að vera teknir tali af fjölmiðlum en undirmennirnir.

Í öðru lagi er starfsvangur kynjanna ekki eins. Konur eru mun líklegri til þess að starfa hjá hinu opinbera en karlar: meira en helmingur allra vinnandi kvenna starfar þar og konur í miklum meirihluta opinberra starfsmanna. Nema meðal stjórnenda. Þar kann að liggja önnur skýring á þessum mun. Hvort hún er fullnægjandi er önnur saga. Og efni í frekari rannsóknir.

* * *

Fjölmiðlarýnir hjó hins vegar eftir því að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA, hafði tiltekna skoðun á hlutverki fjölmiðla:

Það skiptir rosalega miklu máli að endurspegla samfélagið. Í dag eru kynjahlutföllin í landinu þannig að konur eru 50% af þjóðinni. Þeirra rödd verður að heyrast jafn mikið og annarra rödd. Ef við erum alltaf að tala við eins aðila, við fólk af sama kyni, með sama bakgrunn þá erum við framleiða einþætt efni og það bara endurspeglar ekki raunveruleikann í þessu samfélagi sem við búum í.

Nú er vissulega æskilegt að fjölmiðlar endurspegli samfélag og samtíma sinn, en hlutverk fréttamiðla er samt sem áður fyrst og fremst að segja fréttir; ekki að gæta þess að tilteknar raddir fái að hljóma í réttum hlutföllum við samsetningu þjóðarinnar, hvað kynferði, trú, stjórnmálaskoðanir, uppruna, kynhneigð, kynáttun, menntun eða búsetu áhrærir.

* * *

Tveir stjórnarþingmenn kynntu á dögunum samantekt um síðari einkavæðingu bankanna, sem fram fór í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, en þau telja nýframkomin gögn renna stoðum undir gagnrýni á vinnubrögð við hana. Eins og gengur voru menn ekki á eitt sáttir um samantektina, þó þar gætti raunar fremur athugasemda á form hennar en innihald.

Það kom í sjálfu sér ekki verulega á óvart að stjórnarandstaðan skyldi reka upp gól á þingi, þó undirritaður verði að játa að honum þóttu þau mótmæli einkennast af meiri blóðhita en tilefni var til. Ef samantektin er tóm tjara, þá ætti stjórnarandstaðan einfaldlega að halla sér aftur og hlæja.

Hamsleysið í andmælunum fær hins vegar fjölmiðlarýni til þess að fitja upp á fréttanefið og gæti bent til þess að í samantektinni eða fylgiskjölum hennar sé eitthvað mjög óþægilegt að finna; hugsanlega eitthvað annað en höfundarnir stöldruðu við.

Hafi fjölmiðlar gefið efnisatriðum samantektarinnar lítinn gaum, þá voru þeir sumir hins vegar duglegir við að segja frá því að sérfræðingar, sem ráðnir voru til þess að koma að einkavæðingunni (og margvíslegum eftirhrunssnúningum öðrum), væru einkar óhressir með orðalag í samantektinni.

Þeim fyndist vegið að æru sinni og starfsheiðri og kynnu jafnvel að höfða mál vegna þess. Sjáum nú til með það. En það var til marks um alveg sérstaka óforvitni fjölmiðla, að enginn þeirra greindi frá því nákvæmlega hvaða orð væru svo ægilega meiðandi. Það er nú eiginlega lykilatriði í slíkum fréttum. Ekki síður þegar haft er í huga að viðkomandi var ekki getið í samantektinni.

Enn síður þegar haft er í huga að hér ræðir um menn, sem hafa reist atvinnurygti sitt og efnahag að verulegu leyti á þessum margmilljarðaverkefnum, sem þarna eru tekin til skoðunar.

Fjölmiðlarýnir eftirlætur öðrum að meta hvað er sannast og réttast í þessum málum öllum, en honum þykir þó umhugsunarvert af hverju það er slík goðgá að ræða þetta tiltekna hrunmál. Þá er hollt að rifja upp að viðbrögðin voru hin nákvæmlega sömu þegar rauðu flaggi var lyft vegna SpKef-málsins. Og söguhetjurnar meira og minna þær sömu.