*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
29. maí 2018 11:01

Kynjahalli velferðarkerfisins

Þrátt fyrir mikið jafnrétti á Norðurlöndunum hefur velferðarkerfið staðið framgangi kvenna í atvinnulífinu fyrir þrifum.

Hagstofan gaf á dögunum út árlegt yfirlit yfir hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja.

                                     ***

Alls voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá og er það svipað hlutfall og verið hefur undanfarin þrjú ár.

                                     ***

Konur voru um síðustu áramót 32,6% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri og er það svipað hlutfall og síðustu tvö árin þar á undan. Í september 2013 tóku gildi lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn og er því ljóst að markmiðum þeirra laga hefur ekki verið náð.

                                     ***

Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanns var 23,9% um síðustu áramót sem er óbreytt frá því ári á undan og hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra stóð sömuleiðis í stað á milli ára og er um 22,1%.

                                     ***

Kynjahalli þrátt fyrir jafnrétti

Þegar Óðinn renndi yfir þessar tölur varð honum hugsað til greinar eftir hinn íranskættaða sænska vísindamann Nima Sanadaji, sem birtist á vegum Cato-hugveitunnar. Greinin, sem ber heitið „The Nordic Glass Ceiling”, fjallar um þá mótsögn að í skandinavísku ríkjunum hefur jafnræði kynjanna náð hvað hæstum hæðum, en þar eru konur engu að síður í minnihluta stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja. Byggir greinin á áralangri vinnu Sanadaji við rannsóknir á þessu efni, en hann hefur gefið út nokkrar bækur á þessu sviði.

                                     ***

Byrjar hann á að benda á að samkvæmt kynjahallamælingum World Economic Forum eru Norðurlöndin í sérflokki. Ísland er þar í efsta sæti, Noregur í öðru, Finnland í þriðja og Svíþjóð í því fimmta. Danmörk er i fjórtánda sæti, en til samanburðar eru Bandaríkin í því 49.

                                     ***

Inntakið í grein Sanadaji er tvíþætt. Annars vegar að þetta mikla jafnrétti eigi sér önnur upptök en í velferðarkerfi Norðurlandanna. Hins vegar að þrátt fyrir þetta mikla jafnrétti hafi þetta sama velferðarkerfi staðið framgangi kvenna í atvinnulífinu fyrir þrifum.

                                     ***

Sanadaji vill rekja rætur jafnréttis á Norðurlöndunum allt til víkingaaldar. Eflaust má deila um það hvort norrænar konur á víkingatíma hafi haft meiri réttindi en konur annars staðar í heiminum og að þessi viðhorf til kvenréttinda hafi lifað af hinar kristnu miðaldir.

                                     ***

Hver sem ástæðan er þá eykst efnahagslegt og eignarréttarlegt frelsi kvenna á Norðurlöndunum fyrr en í mörgum öðrum ríkjum þegar inn í nútímann er komið.

                                     ***

Víðast hvar í heiminum var eignarrétturinn og aðgangur að hinum frjálsa markaði – þar sem markaðurinn var á annað borð frjáls – eingöngu fyrir karlmenn. Konur voru víða með réttarstöðu barna eða jafnvel litið á þær sem eign eiginmannsins. Norðurlöndin voru meðal fyrstu ríkjanna til að breyta þessu.

                                     ***

Norðurlöndin í sérflokki

Sænskar konur voru farnar að reka eigin fyrirtæki á seinni helmingi átjándu aldar. Árið 1798 voru sett lög í Svíþjóð sem færðu giftum konum sjálf- og fjárræði innan marka þeirra eigin fyrirtækja og árið 1864 fengu ógiftar konur og allir fullorðnar konur viðskiptafrelsi. Þar voru giftar konur útilokaðar, en það er athyglisvert að bæði kynin fengu viðskiptafrelsi á sama tíma.

                                     ***

Ísland var fyrst ríkja til að tryggja konum fullan erfðarétt til móts við karla árið 1850. Þá er einnig áhugavert að í upphafi tuttugustu aldarinnar skapaðist mikil umræða á Norðurlöndunum um hvort setja ætti sérstök lög til að „vernda” konur með því að banna þeim að vinna næturvaktir í verksmiðjum. Flest Evrópuríki, Bandaríkin og Ástralía settu slík lög. Þess háttar löggjöf var innleidd í Svíþjóð árið 1909 þrátt fyrir hörð mótmæli kvenréttindahreyfingarinnar, en konum var ekki bannað að vinna næturvinnu í Danmörku og Noregi. Konur í þessum tveimur ríkjum fengu því að taka þátt í iðnvæðingu samfélaganna.

                                     ***

Norrænn sifja- og skattaréttur er sniðinn að hagsmunum beggja kynja. Víða eru hjón skattlögð saman, svo jaðarskattar á það hjónanna sem er með lægri tekjur hækka verulega eftir því sem tekjur hins hækka. Á Norðurlöndum hefur það hins vegar ekki sömu áhrif á skattbyrði kvenna ef maki er með mun hærri tekjur. Þetta hvetur bæði hjónin til að fjárfesta í frama sínum og að vinna.

                                     ***

Viðhorf fólks til atvinnuþátttöku kvenna er einnig sérstakt á Norðurlöndunum. Samkvæmt könnunum er mun lægra hlutfall Skandinava á þeirri skoðun að karlar eigi að ganga fyrir í vinnu ef atvinnuleysi er mikið en í öðrum löndum. Sömuleiðis er mjög lágt hlutfall Skandinava á þeirri skoðun að það skapi vandamál í hjónabandi ef tekjur eiginkonu eru hærri en tekjur eiginmanns.

                                     ***

Lagalegt og menningarlegt jafnrétti er því afar mikið á Norðurlöndunum og því ætti að vera mjög auðvelt fyrir konur á Norðurlöndunum að klífa metorðastigann í einkageiranum. Raunin er hins vegar önnur. Velferðarkerfið virðist, að mati Sanandaji, búa til glerþak.

                                     ***

Velferðarkerfið tók yfir

Lágt hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum norrænna fyrirtækja hefur lengi vakið athygli fræðimanna. Rannsókn hagstofu Evrópusambandsins Eurostat leiddi í ljós að aðeins 6% tekjuhæstu Svíanna voru konur, samanborið við 15% í Frakklandi.

                                     ***

Hagfræðingarnir Magnus Henrekson og Mikael Stenkula sýndu fram á að hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum væri lægra í Svíþjóð en í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Vestur-Þýskalandi og Frakklandi.

                                     ***

Skýrsla frá árinu 1998 sýndi fram á að vinnumarkaðurinn á Norðurlöndunum væri kynjaskiptari en víða annars staðar. Konur væru þar mun líklegri til að vinna hjá hinu opinbera, en hjá einkafyrirtækjum.

                                     ***

Málið er nefnilega að hið norræna velferðarkerfi hefur sótt lengra inn í þjónustugeirann en gerist og gengur í öðrum ríkjum. Menntakerfið, heilbrigðiskerfið og umönnun aldraðra er að stórum hluta á vegum ríkisins í skandinavísku ríkjunum og nær alfarið fjármagnað af hinu opinbera.

                                     ***

Þessi stækkun velferðarkerfisins hefur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á konur. Atvinnuþátttaka kvenna er líklega meiri fyrir vikið, vegna þess að margar konur stigu inn á vinnumarkaðinn í gegnum hið stækkandi velferðarkerfi. Hlutfall kvenna í mennta- og heilbrigðisgeiranum er jú mun hærra en karla.

                                     ***

En atvinnuþátttaka er aðeins einn mælikvarði á árangur kvenna á vinnumarkaði. Annar mælikvarði er eignarhald á fyrirtækjum. Anita Lignell Du Rietz kannaði eignarhald sænskra kvenna á fyrirtækjum á nítjándu öld og komst það því að fjöldi fyrirtækja, þar á meðal krár, saumastofur, brugghús og verslanir var í eigu og rekinn af frumkvöðlakonum. Eftir því sem leið á öldina voru konur ráðandi í rekstri skóla og lyfjaverslana.

                                     ***

Hið stækkandi velferðarkerfi tók hins vegar yfir stóran hluta af þessum rekstri. Geirar atvinnulífsins þar sem karlar voru ráðandi, iðnaður, skógarhögg og námuvinnsla, voru hins vegar áfram einkareknir.

                                     ***

Aukin einkavæðing

Konur hafa því lengi verið hlutfallslega fleiri í opinbera geiranum. Þar eru laun ekki ákvörðuð eftir getu og afköstum, heldur töxtum kjarasamninga þar sem aðaláherslan er á það hversu lengi viðkomandi hefur sinnt starfinu. Hvatar til að klífa metorðastigann eru því minni og tekjur kvenna almennt lægri.

                                     ***

Aukin einkavæðing í sænska heilbrigðiskerfinu virðist hins vegar vera að snúa þessu við. Einkarekin fyrirtæki, oft í eigu kvenna, eru farin að sinna verkefnum sem áður voru á vegum opinberra stofnana. Þetta er áhugaverð þróun, ekki síst í ljósi þess að rannsóknir sýna að laun eru almennt hærri í einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en hjá hinu opinbera.

                                     ***

Háir skattar hafa einnig áhrif á framgang kynjanna. Rannsókn Alexander Gelber og Joshua Mitchell á áhrifum skattabreytinga á hegðun einhleypra karla og kvenna í Bandaríkjunum 1975-2004 er athyglisverð í þessu ljósi.

                                     ***

Þegar tekjuskattar lækkuðu fóru einhleypar konur að vinna meira, væntanlega vegna þess að tekjur þeirra eftir skatt hækkuðu. Á sama tíma eyddu þær minni tíma í húsverk. Hærri tekjur gerðu þeim kleift að kaupa þjónustu og vörur í stað þess að sinna sjálfar húsverkunum. Þegar skattar hækkuðu minnkuðu þær við sig vinnu og fóru sjálfar að sinna húsverkum meira.

                                     ***

Skattabreytingarnar höfðu hins vegar engin áhrif á hegðun einhleypra karla.

                                     ***

Skoðum málið Hver sem ástæðan er fyrir þessum muni á kynjunum þá virðist hann vera til staðar. Það má því vera ljóst að möguleikinn til að geta keypt vöru og þjónustu, svo sem þrifþjónustu, skiptir máli fyrir atvinnuþátttöku og framgang kvenna í atvinnulífinu. Háir tekjuskattar koma því frekar niður á framgangi kvenna en karla.

                                     ***

Eflaust eru fleiri ástæður fyrir því af hverju ekki eru fleiri konur í stjórnunarstöðum í íslenskum fyrirtækjum, en Óðinn telur mikilvægt að þeir sem bera hag kvenna fyrir brjósti velti þessum málum að minnsta kosti fyrir sér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.