*

sunnudagur, 5. desember 2021
Óðinn
21. júlí 2021 07:04

Kynjaveröld Kristrúnar og hættuspil

Óðinn treystir því að hinn skeleggi formaður Blaðamannafélagsins taki til varnar og fordæmi þessa árás á frjálsa fjölmiðlun.

Haraldur Guðjónsson

Óðinn fjallaði í síðustu viku um meginástæðu hækkunar húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu. Lóðaskortinn.

Þar lýsti Óðinn sig sammála Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra en ósammála Kristrúnu Frostadóttur, fyrrverandi hagfræðingi hjá Kviku banka og núverandi frambjóðanda Samfylkingarinnar fyrir næstu alþingiskosningar.

Kristrún tók þessum pistli afar illa líkt og stuðningsmenn hennar og Samfylkingarinnar í netheimum. Eins og Óðinn benti á fer þeim fækkandi stuðningsmönnum Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, sem er kannski rót þessarar reiði Kristrúnar, en Óðinn getur huggað hana með því að enn er langt til kosninga og því alls ekki víst að sú ákvörðun hennar að taka sæti á lista flokksins hafi verið mistök.

                                                                  ***

„Uppnefnið" stjörnuhagfræðingur

Það sem einna mest virtist fara fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Samfylkingarinnar var „uppnefnið" stjörnuhagfræðingur. En staðreyndin er sú - eins og tekið var fram - að Óðinn fann ekki upp á þessari nafnbót, heldur Kristrún sjálf  í viðtali við Mannlíf:

„Það er enginn úr viðskipta- og fjármálageiranum í fjölskyldu Kristrúnar og hún segir það algjöra tilviljun að hún valdi hagfræðina en um tíma hafði hún íhugað að fara í stjórnmálafræði. „Ég kom alveg græn inn og vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Hvað þá að ég hefði einhverja drauma um að verða einhver „stjörnuhagfræðingur"."

Kristrún sjálf vék raunar að þessu í viðbrögðum sínum við pistli Óðins, en það segir sína sögu að í þeim löngu athugasemdum lét hún hins vegar algerlega vera að svara nokkru því sem þar var sagt um efni málsins, umræddan lóðaskort:

„Guð hjálpi konu sem tekur undir jákvæð ummæli, hvað þá talar vel um sjálfa sig! Þvílíkur hrokagikkur, hvernig dettur mér þetta í hug?"

Er Kristrún að segja að einhver annar hafi kallað hana stjörnuhagfræðing og hún sé bara að taka undir þau jákvæðu ummæli? Það á sér a.m.k. ekki stoð í tilvitnuðum orðum úr viðtalinu.

Óðinn hefur almennt litið á það svo að þegar einhver hefur verið kallaður stjörnulögfræðingur þá sé það sagt í háði. En ef einhver kallar sjálfan sig stjörnulögfræðing, þá er nú varla um háð að ræða, eða hvað? Kristrún Frostadóttir getur því að minnsta kosti ekki haldið því fram að Óðinn hafi talað niður til hennar með því að kalla hana stjörnuhagfræðing.

Hættuspil og önnur spil

Þegar stjórnmálamenn lenda í vanda vegna vanhugsaðra ákvarðana eða lenda í öðrum ógöngum, hvort sem það er í leik eða starfi, eiga þeir það til að draga upp spil. Spilin eru nokkur. Til dæmis að fara í meðferð við áfengissýki, ganga í söfnuðinn eða fá hjálp lækna við brestum í geði. Einnig kynþáttaspilið, kynferðisspilið og kynjaspilið. Oft kann þetta að vera rétt og réttmætt, að um raunverulegt vandamál sé að ræða eða ráðist hafi verið að einhverjum vegna kyns, kynhneigðar eða kynþáttar. En við höfum líka séð menn draga upp þessi spil til þess eins að róa umræðuna eða drepa henni á dreif, skipta um umræðuefni, afla sér nýrra bandamanna, gera úr sér fórnarlamb. Það er mikið hættuspil. Það getur veikt stjórnmálamenn varanlega. Jafnvel endað feril þeirra ef almenningur skynjar að þar er um yfirvarp, fals eða flæming að ræða.

Kristrún Frosta segir í viðbrögðum sínum:

„NEI, þið fáið ekki að kúga mig og fleiri konur á næstu mánuðum og árum með svona ömurlegum, nafnlausum áróðri. Það þarf einhver að segja STOPP og það geri ég núna. Viðskiptablaðið, sem kallar sig fréttamiðil atvinnu- og viðskiptalífsins hefur staðið fyrir nafnlausum áróðurspistli, „ÓÐINN", vikulega. Þar hefur hver konan á eftir annarri verið tekin fyrir, iðulega á mun svæsnari hátt en karlarnir sem eru frekar talaðir upp þarna sem „snillingar"."

Þarna dró Kristrún upp hættuspil. Því að það er ekkert, nákvæmlega ekkert, í pistli Óðins í síðustu viku sem tengist kyni hennar eða nokkurs annars með einhverjum hætti. Eins og best sést á því að Kristrún rökstuddi orð sín í engu, benti ekki á svo mikið sem einn staf úr pistli Óðins fullyrðingu sinni til staðfestingar.

Stórt efnahagsmál

Óðinn telur Kristrúnu hafa rangt fyrir sér um eitt stærsta efnahagsmálið þessi misserin, mál sem getur varðað ákaflega marga og haft afar slæmar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Húsnæðisskort sem er tilkominn vegna lóðaskorts, sem er pólitískt vandamál. Kristrún hefur nú gefið sig að stjórnmálum með sérstakri tilvísun til menntunar sinnar og sérþekkingar og hún verður - eins og aðrir stjórnmálamenn - að þola það að fólk taki mark á orðum hennar, leyfi sér jafnvel að draga skoðanir hennar í efa og ætlist til röklegrar umræðu um það.

                                                                  ***

Það lýsir ekki miklu fræðilegu eða pólitísku sjálfstrausti að hlaupa rakleiðis í þessa fráleitu vörn, að gagnrýnin tengist óhjákvæmilega kynferði hennar og engu öðru. Óðinn spáir því að Kristrún verði ekki langlíf í pólitík ef þetta verða viðbrögðin við hverri þeirri gagnrýni sem fram kann að koma á hana eða skoðanir hennar.

Í sannleika sagt er þetta útspil Kristrúnar afar aumt og ljóst að þeir sem tóku undir með henni höfðu ekki lesið pistilinn. Einn þeirra er fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

„Ef ekki væri fyrir óhlýðnar konur sem láta ekki stjórnast af valdboði frekra karla þá værum við mjög skammt komin á braut lýðræðis og jafnréttis. Smátt og smátt hafa konur verið að færa út mörkin og þær sem þora, geta og vilja láta ekki skammir eða illt umtal stoppa sig. Áfram Kristrún Frostadóttir."

Ekkert af þessum orðum Ingibjargar Sólrúnar á sér stoð í skrifum Óðins. Ekkert. Það er hins vegar kaldhæðnislegt að lóðaskorturinn á Íslandi var fundinn upp í borgarstjórnartíð Ingibjargar Sólrúnar og hefur verið viðvarandi síðan - ef undan eru skilin árin þegar stærsta kreppa síðan 1929 tók hús á heiminum, hrunið árið 2008, þegar eftirspurnin hvarf og framboðið stórjókst vegna búferlaflutninga frá Íslandi.

Karlar í miklum meirihluta

Kristrún heldur því órökstutt fram að í pistlum Óðins hafi hver konan af annarri verið tekin fyrir, en karlarnir séu frekar talaðir upp sem snillingar. Nú þurfa menn ekki að vera ákaflega dyggir lesendur Óðins til þess að átta sig á því að hann er frekar spar á hrósið. Raunar svo að í þessum dálkum hefur orðið snillingur aðeins einu sinni komið fyrir, og þá sem tilvitnun í Søren Kierkegaard (og ekki sagt umræddum til virðingar).

Óðinn hefur ekki dregið af sér við að senda hnútur um dagana, ekki síst til stjórnmálamanna, sem hafa gefið sig fram til starfa á opinberum vettvangi og sérhæfa sig í meðferð, að ekki sé sagt sóun, fjármuna almennings. Þetta þekkja lesendur, en þeir þekkja það líka að karlar verða ekki síður fyrir þeim en konur. Spyrjið bara Steingrím Joð og Bjarna Ben.

                                                                  ***

Þegar Óðinn blaðaði í ritsafni sínu við undirbúning þessara skrifa sá hann að karlar hafa í raun miklu frekar og margfalt orðið fyrir gagnrýni hér á síðunni, alveg svo að umhugsunarefni er fyrir Óðin hvort hann þurfi ekki að hæðast meira að konum, svo að fyllsta jafnréttis sé gætt.

Í því samhengi er og rétt að geta þess að Kristrún hefur aðeins einu sinni áður komið við sögu í pistlum Óðins, en þar var vikið að orðum hennar um fjármál sveitarfélaga. Óðinn lýsti efasemdum um þá staðhæfingu Kristrúnar (þetta var áður en hún gaf sig að stjórnmálum) að almennt væri rekstur sveitarfélaga í góðu lagi, en í því fólst engin árás á hana frekar en í liðinni viku.

„Snillingar" á Viðskiptablaðinu

Það sem Kristrún eyddi mestu máli í var þó að gera „snillingunum" á Viðskiptablaðinu upp skoðanir um auðlegð hennar:

„Þessir snillingar á Viðskiptablaðinu ýja svo að fjárfestingu sem ég gerði í fjármálafyrirtækinu sem ég starfaði hjá í 3 ár áður en ég ákvað að ganga út af því trakki og gera eitthvað annað við líf mitt. Hér er verið að reyna klína á mig þeirri mynd að manneskja sem hafi sett eigin sparnað í áhættufjárfestingu geti ekki verið nægilega mikill jafnaðarmaður. Það eru bara hægri menn sem mega sýsla með fé, taka áhættu og eignast einhvern pening! Hér er látið eins og ég sitji á ótrúlegum auðæfum, manneskja sem fékk ekkert fjárhagslega í vöggugjöf og er svo sannarlega ekki að græða fjárhagslega á því að skipta um gír. Markmiðið er augljóst; að slá eignarhaldi hægrimanna og fólks með djúpa vasa á efnahagsumræðuna."

Það er alrangt að Óðinn hafi lýst þeirri skoðun sinni að Kristrún sé ekki nægilegur jafnaðarmaður vegna þess að hún hafi auðgast á áskriftarréttindum í Kviku banka. Það var ekki umfjöllunarefni Óðins, þó að það kunni að vefjast nokkuð fyrir þeim sem eru á sama tíma efnamenn og jafnaðarmenn.

Óðinn benti hins vegar á hið augljósa, að stuðningsmenn Samfylkingarinnar yrðu tæpast allir ánægðir hafi hún hagnast á áskriftarréttindum, sem aðeins starfsmenn Kviku banka fengu. Einfaldlega vegna þess að þeir eru á móti slíkum réttindum og því gæti fylgið við Samfylkinguna minnkað enn meira fyrir vikið.

Þetta er hins vegar ekki skoðun Óðins. Óðinn vill að allir auðgist sem mest þeir mega. Hann lýsir því fullum stuðningi við Kristrúnu í viðleitni hennar að verða rík.

Ekki áhættufjárfesting

Nú gaf Óðinn sér það að Kristrún hefði fengið áskriftarréttindi líkt og margir starfsmenn Kviku banka. Orð Kristrúnar verða ekki skilin á annan hátt en að hún hafi fengið þau. Áskriftarréttindi eru svipuð kauprétti. Handhafi réttindanna hefur heimild til að innleysa þau en þarf þess ekki. En í upphafi þarf að greiða lágt verð fyrir þennan rétt. Það er því fráleitt að jafna þessum réttindum við áhættufjárfestingu. Rétthafar innleysa réttindin ekki ef tap er af viðskiptunum. Í áhættufjárfestingu leggja menn hins vegar fram fjármuni, græða ef vel gengur en tapa þeim ef illa fer. Í því felst einmitt áhættan. Í tilfelli Kviku banka hafa hlutabréf hans hækkað gríðarlega og því er hagnaður margra áskriftarréttarhafa mikill.

Hverja má gagnrýna?

En aftur að strámanni hennar um að gagnrýni Óðins hafi snúið að kyni hennar, að hann hafi sérstaklega viljað setja hana niður sakir þess að hún sé kona. Og að hún myndi ekki una því, fyrir sjálfa sig og konur allar. Það er auðvitað aðeins ómerkilegur strámaður eins og fyrr var rakið, en kannski ekkert ómerkilegri en búast má við. En á þessu máli eru fleiri fletir, öllu alvarlegri en klámhögg Kristrúnar.

Nú hefur hún snúið sér að stjórnmálum, sem snúast mestan part um hugmyndir, skoðanir og staðreyndir, orð og efndir. Það er sérstaklega mikilvægt að unnt sé að ræða um það sem stjórnmálamenn hafa að segja, brjóta til mergjar og gagnrýna þegar ástæða er til. Og af því að þeir eru að bjóða sig fram, það eru kosnir menn af holdi og blóði, þá þarf líka að ræða mannkosti þeirra og eftir atvikum lesti. Þegar þeir gera sig hlægilega þarf að mega benda á það og já, það er bráðnauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi að það megi hæðast að þeim. Jafnvel í fjölmiðlum. Kannski sérstaklega í fjölmiðlum. Því ef það er ekki hægt, þá búum við ekki í lýðræðisþjóðfélagi.

Það á jafnt við um konur og karla. Hagfræðinga sem lögfræðinga. Samfylkingarfólk sem Miðflokksmenn. Athugasemdir Kristrúnar benda til þess að hún sé annarrar skoðunar um það. Einhverjum kynni að þykja það til marks um að hún ætti e.t.v. síður erindi í stjórnmál með slíka afstöðu. En ef þetta væri hið almenna viðhorf, þá vandast í því fyrir skoðanadálka fjölmiðla. Eiga þeir þá að hætta að fjalla um skoðanir stjórnmálakvenna nema með lofsamlegum hætti? Eða hætta alfarið að fjalla um skoðanir kvenna í stjórnmálum? Óðinn á a.m.k. í erfiðleikum með því að átta sig á því hvað Kristrún og þeir sem tóku undir orð hennar voru að fara.

                                                                  ***

Enn annað má nefna í þessu samhengi, en það er sú staðreynd að Kristrún lætur sér svo mislíka við rökstudda gagnrýni á sig, að hún segir „stopp" og vandar Óðni og Viðskiptablaðinu ekki kveðjurnar, svo stappar nærri hótunum. Höfum í huga að Kristrún er ekki hver sem er. Hún er í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður og fullyrt er að hún sé ráðherraefni flokks síns komist hann í ríkisstjórn. Viðskiptablaðið er hins vegar lítið og sérhæft vikurit, sem líkt og aðrir fjölmiðlar er nú upp á náð fjárveitingarvaldsins komið. Hver er í valdastöðunni og hver er fórnarlambið hér? En Viðskiptablaðið mun auðvitað ekki láta beinar eða óbeinar hótanir á sig fá.

Óðinn treystir því að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, hinn skeleggi formaður Blaðamannafélagsins taki til varnar og fordæmi þessa árás á frjálsa fjölmiðlun.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.