*

laugardagur, 4. desember 2021
Ólafur Stephensen
28. október 2021 15:32

Lækka fasteignaskattar?

Íslensk fyrirtæki greiddu 68% meira í fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði í fyrra en árið 2015.

Haraldur Guðjónsson

Íslensk fyrirtæki greiddu á síðasta ári 68% meira í fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði en þau gerðu 2015, þegar núverandi aðferð við útreikning fasteignamats var tekin upp. Fasteignaskatturinn er makalaust þægileg tekjulind sveitarfélaganna. Vegna þess að skatturinn reiknast af fasteignamati — sem hefur hækkað gífurlega undanfarin ár - hækka tekjurnar stöðugt. Sveitarstjórnir þykjast oft enga ábyrgð bera á því að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist, þótt oft og tíðum sé ekkert að gerast í rekstrinum sem auðveldar þeim að standa undir þessari byrði.Það á alveg sérstaklega við nú í kórónuveirukreppunni.

Félag atvinnurekenda hefur undanfarin ár reglulega sent sveitarfélögunum áskoranir um að lækka álagningarprósentuna til að mæta gífurlegum hækkunum fasteignamatsins. Það hefur nokkurn árangur borið - frá árinu 2016 hafa tíu af tólf stærstu sveitarfélögunum lækkað álagningarprósentu. Það breytir ekki því að áðurnefnd 68% hækkun er þrátt fyrirlækkun sumra sveitarfélaga á skatthlutfallinu.

Alltof mörg sveitarfélög halda enn skattinum í hinu lögleyfða 1,65% hámarki og önnur hafa ekki lækkað nóg á móti hækkunum fasteignamatsins. Frammistaða Reykjavíkurborgar, sem skattleggur ríflega helming af verðmæti alls atvinnuhúsnæðis á landinu, er þannig ekki til að hrópa húrra fyrir; fasteignaskatturinn lækkaði ekki fyrr en í ár og þá um 0,05 prósentustig.FA sendi síðast áskorun á sveitarfélögin í júní þegar nýtt fasteignamat fyrir árið 2022 lá fyrir, en samkvæmt því hækkar mat atvinnuhúsnæðis um 6,2%.

Sum hafa brugðizt vel við — Vestmannaeyjabær upplýsti FA til dæmis nýlega um ákvörðun sína um að lækka skattprósentuna úr 1,55% í 1,45%.

Í svörum annarra virðist gæta einhvers misskilnings - þannig barst bókun frá bæjarráði Reykjanesbæjar um að skatturinn hefði verið lækkaður í fyrra! Á meðan fasteignamatið heldur áfram að hækka verða sveitarfélögin nefnilega að halda áfram að lækka skattprósentuna ef skattbyrði fyrirtækjanna á ekki að þyngjast.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.