*

laugardagur, 25. september 2021
Huginn og muninn
12. september 2021 10:14

Læknar sveifla sverðum

Kári Stefánsson ákvað að hrista aðeins upp í tilverunni nú á dögunum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Valgarður Gíslason

Á síðustu vikum hefur óvenju lítið heyrst frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann bætti það upp í vikunni þegar honum tókst að móðga bæði Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni.

Í viðtali í Læknablaðinu gagnrýndi Kári Landspítalann. Sagði hann Páli hafa gengið illa að reka spítalann að undanförnu. „Hann er í slíku rusli að hann virðist einungis vera að troða marvaða við að halda höfði fyrir ofan vatn og gengur það illa.“ Kári sagðist einnig litla samúð hafa með læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem kvartaði undan þreytu vegna álags. Ástæðan fyrir þessu væri skipulagsleysi og skortur á góðum starfsanda.

Páll tók þetta fremur óstinnt upp og ritaði langa svargrein, sem birtist á Vísi á mánudaginn og hófst svo: „Um berserki gildir að gott er að hafa þá með sér í liði, en þeir eiga það líka til að slæma sverðinu í eigin bandamenn í öllum ákafanum.“ Það var svolítil fórnarlambsslagsíða á grein Páls, sem ver sitt fólk af miklum móð. „Mér þykir ómaklega vegið að starfsfólki spítalans sem með eigin svita og tárum reynir að bæta fyrir sveltistefnu síðustu áratuga,“ skrifar Páll.

Á þriðjudaginn svaraði Kári í grein á Vísi, sem bar yfirskriftina „Varast ber til vamms að segja“, en í greininni segist hann hvorki hafa vegið maklega né ómaklega að starfsfólki spítalans. Kári sveiflar síðan enn sverðinu góða þegar hann skrifar: „Þá er það spurningin um það hvers vegna Páll hafi brugðist svona við viðtalinu við mig í Læknablaðinu þar sem ég segi lítið annað en að spítalinn sé í vanda sem er skoðun sem hann reynir ekki að hrekja?“

Í miðjum orðaskiptunum við Pál skrifaði Kári aðra grein, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að farsælast væri að afnema allar fjöldatakmarkanir vegna heimsfaraldursins „vegna þess að þær sem eru í gildi núna eru illverjanlegar“. Þórólfur segist ekki telja rétt að gera það á þessum tímapunkti. Í viðtali á Bylgjunni á þriðjudaginn sagði hann meðal annars: „Kári er í jötunmóð og hefur sveiflað sverðinu til hægri og vinstri og meðal annars beint því að fóstbróður sínum í covid að þessu sinni.“ Hrafnarnir eru ánægðir með þessa sverðamyndlíkingar þeirra félaga, sem eru að skrifa Íslendingasögur framtíðarinnar.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.