*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Leiðari
16. febrúar 2018 11:28

Lærum af mistökum Norðmanna

Í drögum að breyttu lagaumhverfi fiskeldis eiga laxeldisfyrirtækin hafa eftirlit með sjálfum sér. Það er ótækt.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir nokkrum dag rann út frestur til að senda umsagnir við drög að breytingum á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Það sem stendur upp úr er að ráðlegging Erfðanefndar landbúnaðarins er hunsuð og á það benda Náttúruverndarsamtök Íslands, veiðifélög og veiðiréttarhafar í sínum umsögnum.

Síðasta sumar birti erfðanefndin greinargerð þar sem hún lagðist mjög eindregið gegn því að við strendur Íslands yrði alinn upp frjór norskur eldislax. Ástæðan fyrir þessari afstöðu nefndarinnar var sú að hún „hefur þungar áhyggjur af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrifa laxeldis í sjókvíum með stofni af erlendum uppruna." Nefndin telur að eldi á frjóum laxi í sjókvíum geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum.
„Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum a.m.k. þar til nánari  þekkingar hefur verið aflað á umhverfisáhrifum núverandi eldis í sjó að meðtöldu því sem þegar hefur verið leyft," segir í greinargerðinni.

Erfðanefnd landbúnaðarins er skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og henni sitja sérfræðingar á sviði erfðamála. Einhverjir hefðu því haldið að hlustað yrði á ráðleggingar hennar en það er ekki gert. Þess í stað er í drögunum að finna moðsuðu um að Hafrannsóknarstofnun skuli gefa út áhættumat erfðablöndunar „þar sem fram kemur það magn frjórra laxa mælt í lífmassa, sem leyfilegt er að ala í sjókvíum hverju sinni". Matvælastofnun (MAST) á síðan að tryggja að leyfilegur lífmassi frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats á hverjum tíma.

Með öðrum orðum þá verður eldi frjórra norskra laxa við Íslandsstrendur ekki stöðvað. Landsbyggðarpólitíkin ræður hér för og náttúran á ekki að fá að njóta vafans.

Fyrst svona er komið þá er kannski ágætt að við Íslendingar reynum að læra af mistökum Norðmanna, sem eru langstærsta laxeldisþjóð í heimi. Í Noregi eru framleidd 1,3 milljónir tonna á ári en til samanburðar var framleiðslan 8 þúsund tonn hér á landi árið 2016 og liðlega 11 þúsund tonn í fyrra. Ef áætlanir norsk/íslensku laxeldisfyrirtækjanna ná fram að ganga mun framleiðslan margfaldast á næstu árum. Hér er talað um norsk/íslensku laxeldisfyrirtækin því fjögur stærstu laxeldisfyrirtækin hér heima eru í meirihlutaeigu Norðmanna.

Í Viðskiptablaðinu í dag er áhugaverð umfjöllun um norska laxeldið. Í henni kemur fram að þar í landi er laxeldið að velta gríðarlegum fjármunum og það hefur skapað þúsundir starfa. Útflutningstekjurnar nema um 900 milljörðum króna á ári sem samsvarar um þriðjungi af landsframleiðslu Íslands. Það sem meira er, Norðmenn stefna að því að framleiða 5 milljónir tonna árið 2050.

Þetta hljómar allt vel en þá þarf að skoða hina hliðina á peningnum. Hún er sú að í dag ganga helmingi færri laxar upp í norskar ár en fyrir 30 árum. „Villtur lax í Noregi er eins og tígrisdýr á Indlandi, pöndur í Kína og nashyrningar í Suður-Afríku,“ segir Erik Sterud, hjá Norske Lakseelver, samtökum norskra veiðiréttahafa. Til að gæta allrar sanngirni þá kann virkjanagerð og súrt regn einnig haft áhrif á norska laxastofninn.

Eftir stendur spurningin hvort Íslendingar vilji fórna sínum villtu laxastofnum fyrir skjótfenginn gróða og störf í landi? Miðað við stefnu stjórnvalda þá virðist svarið við þessari spurningu vera "já". Fyrst svo er þá ættu menn allavega að sjá sóma sinn í því að hafa hér almennilegt eftirlit. Í drögunum, sem hér hefur verið rætt um, er mikil áhersla á innra eftirlit, sem þýðir að laxeldisfyrirtækin hafa eftirlit með sjálfum sér. Þetta er ótækt. Óháð stofnun á að sinna eftirliti og hún að gera það almennilega. Til þess að það sé hægt verður ríkið stórauka fjárframlög til slíkrar stofnunar, hvort sem hún heitir Hafrannsóknarstofnun eða MAST.

Eitt í viðbót. Norðmenn hugsa fyrst og síðast um massaframleiðslu á laxi. Það má líkja tíðarandanum í Noregi við það sem tíðkaðist hér á landi eftir miðja síðustu öld, þegar menn veiddu óhemju af þorski og seldu út án þess að vinna hann nokkuð. Sem betur fer hefur íslenska sjávarútveginum fleygt fram og þrátt fyrir að miklu minni afli sé dreginn á land í dag eru verðmætin meiri. Fyrst við ætlum að stunda hér laxeldi, sama hvað tautar og raular, þá þarf þessi hugsun að vera til staðar í því líka. Framleiðum lítið en notum okkar sérþekkingu til að búa til betri vöru en aðrar laxeldisþjóðir. Stefnum náttúrunni ekki í meiri hættu en við höfum þegar gert — lærum af mistökum Norðmanna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.