*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Þorbjörg S. Gunnlaugsdót
18. janúar 2014 12:27

Láglaunalandið Ísland

Ein meðallaun á Íslandi eru langt frá því að framfleyta fjölskyldunni.

Haraldur Guðjónsson

Ísland er láglaunaland. Það blasir auðvitað við um lægstu launin en á ekki síður við um millitekjur og jafnvel um hæstu laun hjá hinu opinbera. Fólk sem fer utan í leit að vinnu fer ekki vegna þess að hér sé ekki vinnu að fá, því atvinnuleysi er blessunarlega lægra en víða í Evrópu. Fólk fer af landinu vegna launakjara. Það merkilega er að þetta á við hvort sem um er að ræða ómenntað, iðnmenntað eða langskólagengið vinnuafl. Og nú þegar semja á um laun er kannski tímabært að launþegar beiti rökfræðinni um landflóttann fyrir sig.

Lágmarkslaun fyrir fullt starf samkvæmt nýjum kjarasamningum eru 214.000 krónur á mánuði. Þau kjör geta með engu móti keppt við lægstu laun í nágrannalöndum. Þetta á líka við um laun háskólamenntaðra. Helstu niðurstöður kjarakönnunar BHM um árslaun fyrir 2012 sýndi að meðalheildarlaun í febrúar 2013 voru 522.000 krónur. Munur á hæsta og lægsta aðildarfélagi BHM var tvöfaldur, prófessorar voru hæstir með 696.000 á mánuði en iðjuþjálfar lægstir. Launatrappa háskólamenntaðra er því ekki sérstaklega brött. Jöfnuðurinn í launum birtist með þeim hætti að hæstu launin og meðallaun eru fremur lág. Markmiðið með jöfnuði hlýtur að vera að hækka lægri laun fremur en að ná fram jöfnuði einungis með lágum efri tekjumörkum.

Önnur mælistika lágra launa birtist í því að atvinnuþátttaka kvenna er einna hæst á Íslandi. Til að taka hið augljósa fram er auðvitað sjálfsagt að konur geti unnið til jafns við karla og er yfirleitt túlkað sem heilbrigðismerki um jafnrétti. Atvinnuþátttaka kvenna helgast þó ekki bara af jafnrétti á Íslandi, heldur einnig af því að fjölskyldur geta ekki lifað á einum launum eins og víða er hægt. Foreldrar hafa ekki raunverulegt val um að vera heima t.d. tímabundið að loknu fæðingarorlofi. Jafnréttisstimpillinn er því ekki verðskuldaður. Raunverulegt jafnrétti snýst frekar um að jafnsjálfsagt sé að pabbi sé heima hjá barni og mamma.

Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir að kostnaður einstaklings á mánuði fyrir mat, fatnaði, læknisþjónustu, samskipti, samgöngur, tómstundir o.fl., sé 132.713 krónur á mánuði. Í viðmiðið vantar grunnkostnað eins og húsaleigu, dagvistun, rafmagn, hita o.fl. Meðalmánaðarlaun á Íslandi 2012 samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni voru 325.000 kr. en til fróðleiks á fjögurra manna fjölskylda í Bandaríkjunum rétt á matarmiðum frá ríkinu ef heildarmánaðartekjur eru um 300.000 kr. Ein meðallaun á Íslandi eru langt frá því að framfleyta fjölskyldu og því þurfa nánast allar fjölskyldur hér tvær fyrirvinnur.

Pistill Þorbjargar birtist í Viðskiptablaðinu 16. janúar 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.